Þjóðkirkjan virkt afl í nærsamfélaginu

Dr. Hjalti Hugason prófessor ritar gagnmerka grein í Fréttablaðinu þ. 18.10.2012, s. 27, undir yfirskriftinni „Hvers vegna þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá?“.
Meðal annars bendir Hjalti á að þótt sumir haldi því fram að trúmál séu algjört einkamál fólks þá sé það ekki svo.
Undir það tek ég og ætti að nægja að benda á að undiraldan í ríkjandi viðhorfum í samfélaginu er summan af viðhorfum þegnanna. Þess vegna er mikilvægt að árétta í grundvallarsáttmála þjóðarinnar, stjórnarskránni, að í íslensku samfélagi skuli byggt á gildum gagnkvæms mannkærleika og samfélagsábyrgðar eins og þeim sem lýðræðisleg grasrótarhreyfing eins og þjóðkirkja og hlíðstæð lífsskoðunarfélög starfa eftir, enda stuðli þau að bæði andlegri og almennri velferð þegnanna, friði og samfélagssátt, án kreddukenndra öfga. Eðli sínu samkvæmt styrkir virk þjóðkirkja nærsamfélagið og leggur á sinn hátt grunn að jákvæðri uppbyggingu þess og þar með samfélagsins alls. 
 
Í lokaorðum sínum bendir Hjalti á mikilvæg atriði sem hann telur veigamestu rökin fyrir ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskránni, en þau lúta að vernd þjóðarinnar. Hann segir:
 
“Vissulega er mögulegt að kveða á um stöðu trú- og lífsskoðunarfélaga þar á meðal þjóðkirkjunnar í almennum lögum án þess að þeirra sé getið í stjórnarskrá. Þjóðkirkjuákvæði eða ígildi þess sem nær til allra trú- og lífsskoðunarfélaga er á hinn bóginn mikilvæg yfirlýsing um að slík lög skuli sett og þannig reiknað með trúarbrögðum í hinu opinbera rými en aðkomu þeirra að því settar skýrar leikreglur. Hlutverk slíks ákvæðis og löggjafar sem reist væri á því er því ekki einvörðungu að vernda trú- og lífsskoðunarfélög almennt og þjóðkirkjuna sérstaklega heldur einnig að vernda þjóðina fyrir ýmsum skuggahliðum trúarbragðanna sem sagt gætu til sín í auknum mæli ef trúmál heyrðu alfarið undir einkamálarétt.” (Mín leturbreyting).

Í ljósi ofangreindra atriða er rökrétt og að mínu mati æskilegt að halda ákvæði um þjóðkirkju inni í stjórnarskránni „enn um sinn a.m.k.“ eins og Hjalti ræðir um. Það kann ekki góðru lukku að stýra að veikja uppbyggjandi og jákvætt afl í nærsamfélaginu sem ásamt öðru virkjar almenning til góðra verka. Þvert á móti ætti að efla það og styrkja með viðeigandi hætti.
 
(Grein þessi birtist í Morgunblaðinu í dag 20.10.2012, s. 31).


mbl.is Kosning hafin - talningin tímafrek
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband