Lýðræðislegt varðmennskuhlutverk forsetans gegn alþingræði

Þrátt fyrir að sumir forsetaframbjóðendur hafi gert lítið úr tilvist 26. greinar stjórnarskráarinnar um málskotsrétt (eða -skyldu) og þar með tilgangi hennar og hlutverki (hvort sem það er af misskilningi þeirra eða túlkunarbresti) virðist fjöldi kjósenda ekki láta það rugla sig í ríminu, ef marka má viðhangandi frétt um niðurstöður nýrrar skoðunarkönnunar um fylgi frambjóðendanna. Áður hefur verið rætt um þetta atriði í pistli á þessari bloggsíðu.
Hunsun á þessu einmitt þessu atriði var einkar áberandi hjá einum greinarhöfundi í Morgunblaðinu í dag, 22.6.2012.
Í grein þar á s. 24-25 ræðir Vilhjálmur Bjarnason, oft kallaður fjárfestir, um “öryggisventil lýðveldisins Íslands, þingræði eða forsetaræði”. Hann fer vel af stað þar sem hann bendir á að mönnum sé tíðrætt um mikilvægi öryggishlutverks forsetans fyrir forsetakosningar. Jafnskjótt kemur þó í ljós að hann leggur ofuráherslu á þingræðið og vill að því er virðist setja það ofar öðru þannig að það hafi alræðisvald á hverju kjörtímabili, milli þess sem þjóðin beitir því valdi sínu að velja fulltrúa sína á þing. Vilhjálmur segir: “Með synjun á staðfestingu laga eftir þingræðislega meðferð er í raun verið að afnema þingræði og koma á forsetaræði ...”. Hér og í framhaldinu sleppir hann alveg að geta þess hvað í raun og veru felst á bak við það sem hann ranglega kallar “forsetaræði”. Hann sleppir að taka fram að hér er um að ræða varðmennskuhlutverk forsetaembættisins fyrir lýðræðið, þjóðarviljann, gagnvart sitjandi þingmönnum og stjórnmálaflokkunum og öðrum öflum þar að baki. 
Eins og Vilhjálmur sjálfsagt veit fara lög, sem forsetinn synjar staðfestingar, að óbreyttu beinustu leið til afgreiðslu hjá þjóðinni allri í þjóðaratkvæðagreiðslu. Forsetinn er með synjun sinni um staðfestingu á lögum sem meirihluti þingmanna hefur samþykkt ekki að hafna lögunum upp á sitt einsdæmi eins og væri hann með “vald 64 þingmanna” samkvæmt orðun Vilhjálms, heldur að sjá til þess að þjóðin sjálf fái kost á því að útkljá málið í krafti lýðræðis. Þessar lýðræðislegu athafnir forsetans kallar Vilhjálmur hins vegar að “efla ófrið með landsmönnum”.
Þetta ber forsetanum þó sannarlega að gera ef og þegar hann skynjar að þingmeirihlutinn að baki samþykkt laga á Alþingi sé ekki samstiga stórum hluta þjóðarinnar. Þetta hlýtur að vera megintilgangurinn með 26. greininni í stjórnarskránni; Að varna því að þingmenn í krafti þingræðis geti sett lög sem kunna að vera gegn vilja meirihluta þjóðarinnar.
Vilhjálmur ræðir stuttlega beitingu núverandi forseta á 26. grein stjórnarskráarinnar og segir forsetann hafa “hegðað sér í stjórnarathöfnum eins og bilaður lekaliði og slegið út eins og vindar blása hverju sinni”. Í ljósi ofanritaðs hefur forsetinn einmitt ekki virkað eins og “bilaður lekaliði” heldur gegnt hlutverki sínu sem varðmaður lýðræðisins þegar hann skynjaði “gjá milli þings og þjóðar”, eins og hann kallaði það, að gefnu tilefni hverju sinni. 
Vilhjálmur ræðir nokkuð beitingu núverandi forseta á 26. greininni hið fyrsta sinni er hann synjaði svokölluðum fjölmiðlalögum staðfestingar.
Ég tek undir það með Vilhjálmi að vissulega hefði betur farið ef við hefðum lög sem skylduðu eigendur fjölmiðla að gefa sig til kynna ásamt því að koma í veg fyrir ofríki þeirra.
Það var þó ekki forsetanum að kenna að fjölmiðlalögin gufuðu upp heldur sitjandi ríkisstjórn Sjálfsstæðisflokks og Framsóknarflokks sem dró lögin til baka í stað þess að leyfa þjóðinni að tjá sig um þau í þjóðaratkvæðagreiðslu og laga þau þá að þjóðarviljanum í kjölfarið hefði þjóðin hafnað fyrirliggjandi lögum.
Forsetinn kom vissulega ekki í veg fyrir lagasetningu um fjölmiðla og það er vægast sagt langt gengið af Vilhjálmi að fullyrða um “jafn einfaldan hlut” að svo hafi verið. 
Vilhjálmur ræðir hins vegar ekkert um tilefnið og aðdragandann að synjun forsetans á svokölluðum Icesave-lögum, en með þeim hefðu rúmlega þrjátíu þingmenn, þingmeirihlutinn, umsvifalaust skuldsett alla þjóðina út yfir allan þjófabálk til heljar á hæpnum forsendum og gegn vilja meirihluta þjóðarinnar. (Athyglisvert er út af fyrir sig að ýmsir úr fjármálageiranum og hópi opinberra starfsmanna virtust harla vonsviknir með höfnun þjóðarinnar á þessum lögum, en það er annað mál).
Loks virðist Vilhjálmur rasandi hissa og hneykslaður á því að samkvæmt einhverri skoðanakönnuninni á dögunum hugðust um 40% úr kjörfylgi Sjálfstæðisflokksins ætla sér að kjósa núverandi forseta. Finnst honum það “óskiljanlegt” og gerir hann því skóna að það sé vegna andstöðu við núverandi ríkisstjórn. Í því sambandi hamrar hann enn á veru og vilja æðstu fulltrúa þjóðarinnar er hann segir “forseti, Alþingi og ríkisstjórn verða að virða hvert annað”, sem er náttúrulega sjálfsagt að þessar stofnanir geri, en lætur hjá líða að minnast á að eðlilegt sé að einmitt þessar stofnanir lýðveldisins fari að vilja kjósenda sinna, þjóðarviljanum, fyrst og fremst og virða þannig lýðræðið.
Það blasir við að túlka megi niðurstöður umræddrar könnunar sem svo að þessi 40% stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins, sem samkvæmt viðhangandi frétt um niðurstöður könnunar er birt var í dag eru komin í um 64%, séu meðvituð um varðmennskuhlutverk forsetaembættisins og geri sér fulla grein fyrir mikilvægi þess að hafa það við lýði, en telji jafnframt að núverandi forseta sé best treystandi til að gegna því hlutverki í ljósi reynslunnar. Það ætti að vera íhugunarefni fyrir þá sem spá í hæfni forsetaframbjóðendanna.

mbl.is Ólafur með 44,5% en Þóra 36,9%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Rétt skoðað Kristin Snævar, takk fyrir.

Hrólfur Þ Hraundal, 22.6.2012 kl. 20:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband