Orð að sönnu

Nývígður biskup, Agnes M. Sigurðardóttir, bendir á í vígsluræðu sinni að erindi kristinnar kirkju við samfélag manna sé "gefandi og gott, lífgefandi, styrkjandi". Þess vegna sé kirkjan ein af "grunnstoðum samfélagsins".

Þetta eru orð að sönnu.

Þetta ætti að vera augljóst öllum þeim sem kynna sér þann boðskap og viðleitni kirkjunnar til að vera einstaklingnum athvarf, stoð og huggari, samfagnandi og leiðbeinandi honum í ólgusjó lífsins. Þar með leggur kirkjan grunn að og viðheldur uppbyggilegri og friðsamlegri samfélagsheild. 

Eitt meginstefið í boðskap kristinnar kirkju er "Gullna reglan" um náungakærleik, sem er óneitanlega góður boðskapur. Í þeim anda eru meistaranum frá Nasaret lögð þau orð í munn að það eitt bjóði hann mönnum, "lærisveinum" sínum, að þeir "elski hver annan" (sbr. Jh 13.34). Ef menn hefðu þessa hvatningu í huga og færu eftir henni væri hægt að komast hjá margháttuðum ágreiningi, átökum,  kúgun og mismunun í samfélaginu og milli þjóða.

Reyndar er Gullnu regluna einnig að finna í öðrum heimstrúarbrögðum eins og gyðingdómi, íslam, búddisma og bahá'í-trú. Þetta eru almenn sannindi og í sjálfu sér ætti þess vegna ekki að þurfa trúarbrögð til að flytja þann boðskap í mannlegu samfélagi, en þau eru hins vegar einstæður og eðlilegur farvegur til þess.


mbl.is Kirkjan hefur sett gott fordæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Reputo

"Gullna reglan" er hornsteinn mannlegra samskipta og því finnst hún í flestum trúarbrögðum. Ég, sem argasti trúleysing,i lifi lífi mínu eftir þessum gildum enda væri samfélagið vart byggilegt án þeirra. En þetta er auðvitað komið frá því að maðurinn er hjarðdýr og hefur ekkert með trúarbrögð að gera.

 Hvað varða "......erindi kristinnar kirkju við samfélag manna sé gefandi og gott, lífgefandi, styrkjandi" að þá er ég enganveginn sammála því. Kirkjan barðist ötullega gegn atvinnu- og kosningarétti kvenna, giftingu samkynhneigðra, félagafresli í trúmálum ásamt yfirhylmingu kynferðisbrota og ýmsu öðru, og þá sé ekki minnst á miðaldirnar og hvernig kristnar kirkjur haga sér út í heim m.a. með því að skjóta skjólshúsi yfir dæmda barnaníðinga og endalausu peningaplokki á öllum vígstöðvum. 

EN... persónulega er mér alveg sama hvort fólk trúi eða ekki, ég sé bara ekki hvað trú á sameiginlegt með kirkjunni sem gengur þvert gegn öllu sem hún boðar.

Reputo, 25.6.2012 kl. 09:45

2 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Gott hjá þér Reputo og öðrum sama sinnis að lifa eftir hinni augljósu Gullnu reglu. Um það snýst málið, sem og um að útbreiða það viðhorf sem best og sífellt með markvissum hætti og innlifun. Þar koma trúarbrögðin til skjalanna sem einstakt tæki til þess.

Hitt er annað, eins og þú og fleiri benda á, að innan kristinnar kirkju hefur margt á daga drifið í aldanna rás sem að mati okkar nútímamanna er ekki í samræmi við Gullnu regluna né almenn mannréttindi í dag.

Reynslan sýnir að í öllum hjörðum geta fyrirfundist "svartir sauðir", svo sem á heimilum, innan fjölskyldu, innan fyrirtækja, innan stofnana og þar á meðal trúarlegra stofnana, og innan hins opinbera, meðal alls kyns fólks svo sem meðal fjölskyldufólks, meðal starfsmanna fyrirtækja, meðal stjórnenda, meðal leiðtoga og þar á meðal trúarlegra leiðtoga innan allra trúarbragða, meðal ríkisstjórna, meðal ríkjablokka o.s.frv.

Gjörðir "svartra sauða" eru af hvers kyns toga í alls konar samhengi, allt frá t.d. "yfirsjónum", kæruleysi, meðvirkni og aðgerðaleysi, og upp í t.d. vísvitandi þöggun, mismunun, kúgun, misþyrmingar, voðaverk og aðra glæpi og þjóðarmorð.

Að því er næstum tveggja árþúsunda sögu kristinnar kirkju varðar vitnar hún vissulega um ýmis voðaverk sem framin hafa verið innan hennar vébanda eins og innan annarra stofnana viðkomandi ríkja á hverjum tíma, en einnig vitnar sagan í meginatriðum um góð verk að stofni til.

** Voðaverkin eru ekki í anda kristinnar kirkju né í samræmi við köllun hennar! Það eru hins vegar góðu verkin! **

Varðandi illvirkin eða miður góð verk hafa "svartir sauðir" komið við sögu og misnotað aðstöðu sína, t.d. einstaklingar sem skýlt hafa illvirkjum sínum bak við grímu sína sem "þjónar" kirkjunnar, eða valdaklíkur tekið völdin meðal annars með því að nýta mátt kirkjunnar og tengsl við alþýðuna sem tæki til annarlegra veraldlegra verka gegn yfirlýstu markmiði hennar um kærleika og frið meðal manna og þjóða.

Ill öfl af slíkum og þvílíkum toga hafa þannig megnað að skáka í skjóli "valdakerfis" og áhrifamáttar kirkjunnar að einhverju leyti um sinn þegar svo hefur borið við. Það er eitt af sístæðum verkefnum raunverulegra og réttvísandi þjóna kirkjunnar að sporna gegn slíkri misnotkun á kirkjustofnuninni og koma í veg fyrir hana.

Góð verk eru hins vegar sannarlega ávallt gerð innan kirkjunnar og í hennar nafni og markmið hennar og tilgangur eru vissulega góð, uppbyggjandi og jákvæð fyrir samfélagið.

Þú nefnir nokkur dæmi m.a. úr íslenskri kirkjusögu, Reputo, sem þú telur kirkjunni til vansa.

Varðandi t.d. mótþróa kirkjunnar framan af og sumra presta enn þann dag í dag gegn giftingu samkynhneigðs fólks er um að ræða aldagamla og íhaldssama bókstafstúlkun sem ekki á sér stoð í ritningunni þegar viðkomandi "bann-textar" eru settir í rétt samhengi á ritunartíma þeirra. Notkun á bókstafslegri túlkun tiltekinnna texta helgirita er dæmi um það þegar þau og viðkomandi trúarbrögð eru notuð sem tæki til að réttlæta tiltekna skoðun eða fordóma þess eða þeirra sem halda slíkri túlkun á lofti. Slík fordæming, og þá á tilteknum hópi fólks, er augljóslega í algjörri andstöðu við almennan kærleiksboðskap meistarans frá Nasaret, en að sönnu prédikaði hann Gullnu regluna og náungakærleika. Svo virðist sem trúarlegum fordæmendum sjáist yfir það meginatriði er þeir taka sig til við að fordæma náungann með skírskotun til slíkra helgiritatexta. Slíkum fordæmandi kreddum hefur kirkjan á tíðum verið sein til að útrýma af einhverjum ástæðum, enda er þetta túlkunaratriði trúarinnar eitt af þeim atriðum sem fráfarandi biskup var of seinn til að höndla rétt og afdráttarlaust og það kom því í bakið á honum.

Meint tilvik um afbrot innan kirkjunnar er varða refsivert athæfi á vissulega að taka föstum tökum umsvifalaust eins og annars staðar í þjóðfélaginu af viðkomandi stjórnendum. Slík mál á skilyrðislaust að tilkynna og afhenda lögreglunni til rannsóknar án tafar eins og hvert annað sakamál. Kirkjan á ekki að vera skálkaskjól afbrotamanna og hún á ekki að taka áhættu um að gerast samsek þeim með t.d. einhverju sem lítur út eins og klaufalegar yfirhylmingar.

Slíkt yrði yfirmönnum kirkjunnar óhjákvæmilega til falls um síðir í upplýstu samfélagi.

Ég ber þá von í brjósti og hef enga ástæðu til að ætla annað en, nema síður sé, að nývígður biskup í réttsýni sinnni, dómgreind og kærleika og undir guðlegri handleiðslu lendi ekki ásamt kirkjunni í neinum þeim forarvilpum sem drepið hefur verið á; Að upp renni bjartari tímar með kirkjunni okkar en nokkurn tímann áður, bæði í kenningum og gjörðum, sem hæfa samtímanum.

Kristinn Snævar Jónsson, 25.6.2012 kl. 14:25

3 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Kristinn

Við vitum auðvitað báðir (og Reputo) að kristnir né hin kristna kirkja hafa ekki alltaf lifað eftir boðskapnum. En það er liðin tíð. Kirkjan aðlagar sig samfélaginu og það veit á gott eitt ef hún hefur eitthvað jákvætt til málanna að leggja.

Ég tel þó varla að aukin áhersla á góðu verkin eigi eftir að bjarga kirkjunni frá því að verða jaðarfyrirbæri í samfélaginu. En kannski getur minni kirkja gert meira gagn, hver veit? Vandamálið er auðvitað að kenningargrunnur kirkjunnar stenst illa nútímann og launaðir starfsmenn hennar eru fyrst og fremst ráðnir til að breiða út (og verja) kenningargrundvöllinn. Góðu verkin eru hliðarbúskapur við meginstefið.

Boðskapur mannúðar, manngæsku, þyrfti að spretta úr kenningargrunni sem hefur framtíðina fyrir sér. Fyrir mér er besta vonin að styrkja húmanismann og boðskap hans, ekki veit ég hvernig til tekst með það en ég reyni þó að leggja mitt litla lóð á vogarskálarnar endrum og sinnum.

Brynjólfur Þorvarðsson, 4.7.2012 kl. 14:54

4 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Sæll Brynjólfur.

Eitt meginhlutverk kristinnar kirkju í samfélaginu er, eða a.m.k. á að vera, svokölluð kærleiksþjónusta, díakónía. Kirkja án díakóníu er engin kirkja! Ef því hlutverki er ekki sinnt dæmist öll kenning kirkjunnar dauður bókstafur, eðli málsins samkvæmt. Kirkja án virkrar díakóníu væri að sinna einhverjum öðrum markmiðum eða gegna hreinu félagslegu hlutverki t.d. fyrir skikk og skipan innan samfélagsins. Í díakónísku starfi gegnir söfnuðurinn, grasrótin, mikilvægu hlutverki, enda fer það starf fram á þeim vettvangi undir stjórn kirkjunnar þjóna.

Ris kirkjunnar í frumkristni er ekki síst til komið vegna vinsælda þess velferðarhlutverks sem frumsöfnuðurnir tóku að sér og buðu upp á í því samfélagslega og menningarlega umróti sem var á þeim tíma í Miðjarðarhafslöndunum, ekki síst fyrir botni Miðjarðarhafs. Nú á tímum er mikið af þeim verkefnum sem þar heyra undir komið í umsjá hins opinbera innan "velferðarkerfisins". Þar er þó ýmislegt sem fellur utan þess ramma og þar kemur t.d. kirkjan til sem og önnur samtök í "þriðja geiranum". Næg eru verkefnin og að mörgu að hyggja varðandi mannlega velferð ekki síst núna.

Ég tek undir ábendingu þína um "forneskjulegan" og íhaldssaman kenningagrunn kirkjunnar sem ég tel að mörgu leyti ófullnægjandi í samhengi nútímans. Tel ég að kirkjan muni halda áfram að skreppa saman bæði hvað fjölda meðlima og virkni þeirra varðar ef ekki verða gerðar bragabætur þar á. Það ætti að vera augljóst hverjum manni að tilteknar kenningar sem ekki standast skoðun heilbrigðrar skynsemi né fræðilegrar ritskýringar, en er samt haldið á lofti, fæla fólk frá í hneykslan. Slíkar kenningar eru hreinar mannasetningar eða erfikenningar og eru börn síns tíma.

Kenningagrundvöll kirkjunnar þarf að klæða í þær umbúðir sem hæfa samtímanum hverju sinni og þannig að fólk skilji í sínu samhengi hvað helgiritin tjá. Annars er hvatt til blindrar trúar, sem um síðir hlýtur að leiða til ósjálfbærs kirkjustarfs að því er trúariðkun varðar. Ég tel þörf á stefnubreytingu hvað þetta varðar og gera svokallaðri nýguðfræði hærra undir höfði. Frjálslynda guðfræðin, nýguðfræðin, sem kom til á ofanverðri 19. öld og skaut um stundarsakir upp kollinum hérlendis í byrjun 20. aldar varð því miður undir í baráttu við íhaldssama "rétttrúnaðarstefnu" sem síðan hefur verið ríkjandi innan kirkjunnar frá miðri öldinni.

Sr. Friðrik J. Bergmann, prestur Íslendinga í Vesturheimi kringum aldamótin 1900, skrifaði merkilega bók um togstreituna milli nýrrar og gamallar guðfræði, sbr. Trú og þekking (1916). Mælir hann þar afdráttarslaust fyrir nýrri guðfræði sem byggi m.a. á tiltækri þekkingu.

Trúariðkun hefur undanfarna öld verið smám saman að færast af hinu opinbera sviði yfir á einkasvið og frá hinu "stóra heilaga" yfir til hins "litla heilaga" í samræmi við það og meinta veraldarhyggju. Kirkjan verður að taka mið af þessari þróun og klæða trúarlegan boðskap sinn og túlkun í búning sem hæfir samtímanum ætli hún að halda velli.

Kristinn Snævar Jónsson, 5.7.2012 kl. 02:18

5 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Kristinn

Þú hefur kannski lesið ævisögu sr. Árna ("Hjá vondu fólki"), hann hataðist óskaplega út í ný-guðfræðina! Ef ég man rétt þá var ein af forsendum þess að guðfræðideild var sett upp á Íslandi (og háskóli yfirhöfuð) að sleppa frá frjálsyndinu í guðfræðideildinni í Kaupmannahöfn. Hún er ennþá róttækasta guðfræðideildin sem ég hef heyrt um, Thomas L. Thompson og Niels Peter Lemche eru leiðtogar minimalisma í gamlatestamentisfræðum, og Thomas er að auki einn helsti talsmaður mýtukenningarinnar um Jesú. Þú hefur kannski séð færslu sem ég skrifaði við úrdrátt úr grein Þórhalls á OM blogginu (það er ekki hægt að kommenta grein Þórhalls beint), það gæti verið gaman að fá komment þar: http://leifurl.blog.is/blog/leifurl/#entry-1247971

Ég get alveg séð hvert þú ert að fara í pælingum og ég er sammála þér og tel að kirkjan ætti að geta starfað til góðs á nýjum grundvelli. Helsta andstaðan er auðvitað innan kirkjunnar, það þekkir þú eflaust betur en ég.

Brynjólfur Þorvarðsson, 5.7.2012 kl. 08:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband