Varðmaður lýðræðisins, íslenska fjallkonan eða annað?

Mér sýnist af áherslum í málflutningi Þóru Arnórsdóttur forsetaframbjóðanda að hún leggi enga áherslu, nema síður sé, á það sem skiptir einna mestu máli við forsetaembættið, en það er að vera neyðarvörn lýðræðis almennings gagnvart einstefnu flokksræðis og þingræðisins á hverjum tíma ef sú stefna fer gegn vilja meirihluta þjóðarinnar í tilteknum málum.
Réttsýnn og dómbær forseti leysir úr læðingi hið lýðræðislega afl þjóðarinnar, kjósendanna, gagnvart umboðsmönnum hennar, þingmönnunum, ef þeir vilja fara freklega gegn vilja meirihluta kjósenda með tiltekinni lagasetningu með afdrifaríkum afleiðingum. Forsetinn er þannig í þeim krafti sannarlega varðmaður lýðræðisins er svo ber undir.

Það eru grillur einar að ein persóna, forsetinn, geti verið "sameiningartákn allrar þjóðarinnar" í þeim skilningi að allir séu sammála um veru hans að öllu leyti vegna þess að ávallt eru misjafnar skoðanir um persónu hans eins og allra manna, eðli málsins samkvæmt, hver svo sem gegnir embættinu.
Slík persóna er einungis til í goðsagnarkenndum persónugervingum eins og íslensku fjallkonunni.
Hver og hvers konar maður eða kona ætlar sér þá dul að geta tekið hennar sess í íslenskum raunveruleika?

Hið raunverulega sameiningarafl íslensku þjóðarinnar eru þau gildi sem hún vegsamar mest og heldur í heiðri er á reynir í hinu mannlega samfélagi; Það að vera Íslendingur og/eða íslenskur þegn með öllu því sem því tilheyrir, svo sem  tungumáli, sögulegum arfi og rótgrónu eðli og viðhorfum.

Þeir forsetaframbjóðendur og aðrir sem álíta og halda því fram að forsetinn eigi einungis að vera einhver óskilgreind skrautfígúra "fyrir alla" og "valdalaus" hafa því misskilið gjörsamlega þetta lykilatriði í hlutverki forsetaembættisins samkvæmt núverandi stjórnarskrá sem tengist 26. greininni. Þeir virðast því, vísvitandi eða óafvitandi, setja vilja fulltrúa kjósenda á þingi og stjórnmálaflokkanna þar að baki ofar vilja almennings og ofar raunverulegu lýðræði.

Íslensk þjóð hefur enga þörf á forsetaembætti og forseta sem einungis er slík óskilgreind "valdalaus toppfígúra" og rænulaus "lagastimpill" fyrir ríkjandi stjórnarmeirihluta. Það væri aðeins þarflaus kostnaðarauki. Af slíkum er nóg í hinni opinberu stjórnsýslu.


mbl.is Ætlar sér að brúa bilið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur I.

Sæll Kristinn Snævar. Góð grein hjá þér og ég er henni hjartanlega sammála.

Gunnlaugur I., 10.6.2012 kl. 15:15

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sammála algjörlega.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.6.2012 kl. 16:13

3 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Ekki hægt að orða þetta betur.

Sigurður Kristján Hjaltested, 10.6.2012 kl. 17:17

4 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Ég þakka ykkur fyrir innlitið og fagna sameiginlegum skilningi og samdómi ykkar um þessi efni.

Kristinn Snævar Jónsson, 10.6.2012 kl. 23:53

5 Smámynd: Skeggi Skaftason

Finnst ykkur frambjóðandinn Ólafur Ragnar hafa haldið í heiðri GILDI þjóðarinnar með því að ljúga því að þjóðinni, að hann hafi SKÝRT boðið sig fram til fjögurra ára þegar hann fyrst tilkynnti framboð sitt?

Heldur hann að við séum fífl???

Skeggi Skaftason, 11.6.2012 kl. 09:47

6 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Nú held ég að Skeggi hafi ekki séð almennilega á skjáinn fyrir skeggflókanum þar sem hann ritar hér fullyrðingu sem kemur umræðunni hér um lýðræðislegt varðmennskuhlutverk forsetaembættisins ekkert við að því er séð verður.

Kristinn Snævar Jónsson, 11.6.2012 kl. 11:27

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já Skeggi og Þóra er EKKI pólitískur forsetaframbjóðandi.... eða hvað?? Talandi um sannleiksást.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.6.2012 kl. 12:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband