10.5.2012 | 11:23
Keppinautar frystir
Nóbelsverðlaunahafinn Nouriel Roubini, Doktor Dómsdagur eins og dárungarnir kalla hann, bendir hér á vandamál evru-myntkerfisins í Evrópu sem hann telur að muni fyrr en síðar splundrast niður í upphaflegar frumeindir sínar, eigin gjaldmiðla landanna.
Þetta muni fyrst gerast hjá þeim löndum sem eigi nú erfiðast með að aðlagast nýjum veruleika á lánsfjármörkuðum þar sem þau standa á tánum í skuldasúpu sinni upp í háls.
Þessi erfiða og sársaukafulla staða verst settu landanna á evrusvæðinu er ekki síst sökum þess að þau hafa ekki eigin gjaldmiðil til að nýta til að bregðast versnandi samkeppnisstöðu.
Hvað það var, sem helst orsakaði verri samkeppnisstöðu sumra evrulanda í samanburði við önnur evrulönd eftir upptöku þeirra á hinni sameiginlegu mynt, þá blasir sú nakta staðreynd við núna að þau geta ekki gripið til gengisfellingar til að laga samkeppnisstöðu sína gagnvart öðrum löndum þar sem þau hafa ekki eigin mynt; Eðli málsins samkvæmt.
Það blasir auðvitað við að með þátttöku í sameiginlegu myntbandalagi og með því að taka upp sameiginlega mynt eins og evru er búið að frysta þetta fljótvirka samkeppnistæki, taka það úr umferð hjá meðlimalöndunum.
Það kemur sér vel fyrir þau lönd sem standa sterkast í bandalaginu og hafa öflugustu og hagkvæmustu framleiðslukerfin. Það er óskastaða fyrir þau að geta í krafti sameiginlegrar myntar fryst samkeppnisstöðu keppinautanna hvað það varðar.
Það er hliðstætt því og að losna á einu bretti við hættu af hugsanlegum skæruhernaði í stríði. Og, þetta er stríð, efnahagslegt stríð um markaði og áhrif og önnur tengd atrið milli landanna.
Dr. dómsdagur spáir efnahagslegu stórslysi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Vandamálið er einfaldlega "EKKI" það, að Grikkir hafi ekki sinn eigin gjaldmiðil, - heldur það að þeir nenna ekki að vinna.
Atvinnuleysi nær 30%, ... 50% í sumum aldursflokkum, ... hvað segir það manni ? Þeir eru búnir að trúa á kommúnistmann í áratugi. Og þegar þeir tóku upp evruna þá heldu þeir að þeir gætu endanlega "slökkt á öllu", ... gætu fengið lán fyrir öllu frá Þjóðverjunum og hinum, ... svo allir gætu drifið sig á ströndina og legið þar í leti.
Semsagt; ... bara að haga sér eftir uppskrift kommúnistmans og Karli Marx, ... engar áhyggjur, "ríkið" borgaði allt, (les: þeir borga sem ennþá nenna að vinna og borga skattana), ... "ríkið" ætti nóga peninga og gæti altaf fengið meiri lán frá þýskurunum og hinum í ESB.
Tryggvi Helgason, 10.5.2012 kl. 15:27
Sæll Tryggvi. Ekki skal ég segja til um það hver orsökin fyrir þessu ófremdarástandi er hjá Grikkjum eða hvort þeir hafi haldið að þeir gætu lifað letilífi í skuldasöfnun um ókomin ár. Sumar fréttir hafa þó hintað að furðulegri ranghugsun þar í landi og grautfúinni og útblásinni kunningjastjórnsýslu.
Sé það rétt bendir það til þess að þeir hafi ekki hugað að samkeppnishæfni sinni né gert nægilega bitastætt í þeim málum á heildina litið.
Þá loks að þeir neyðast til að horfast í augu við það í fjármögnunarvanda sínum núna þá reka þeir sig illilega á lélega samkeppnishæfni sína á þeim mörkuðum sem þeir hafa einhverja útflutningsvöru fram að bjóða. Þar rekast þeir á fastan vegg evrugengisins.
Eina leiðin til að auka samkeppnishæfni sína varðandi verð er að lækka laun í útflutningsgreinum og innflutningssparandi greinum og það smitar síðan yfir á hliðargreinarnar. Sú leið er afskaplega torfarin og kostar mikið ströggl og átök á vinnumarkaði, félagslega kerfinu og þjóðfélaginu öllu þar sem þetta er svo víðtækur vandi.
Gengisfelling myndi jafna þessum byrðum á þegnana og verðlækkun á framleiðsluvörum og þjónustu landsins gagnvart útlöndum og ferðafólki kæmi samstundis fram þannig að fyrr væri tekið á vandanum.
Báðar leiðir kalla hins vegar á hliðstæð viðbrögð af hálfu þegna og fyrirtækja landsins: Eina bitastæða leiðin út úr vandanum til lengri tíma litið er að auka framleiðslu heima fyrir.
Í þessu tilfelli væri gengisfelling neyðarúrræði eins og við hrunið hér.
Kristinn Snævar Jónsson, 11.5.2012 kl. 01:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.