29.7.2011 | 17:55
Augljósar ástæður
Það sem haft er hér eftir Lilju Mósesdóttur um orsök viðvarandi kreppuástands hérlendis í kjölfar bankahrunsins 2008 er augljóst: Háir vextir og tilsvarandi kolröng efnahagsstefna. Um rök fyrir þeirri skoðun hefur einnig verið fjallað áður á þessu bloggi.
"Rökstuðningur" Seðlabanka Íslands fyrir hávaxtastefnunni undanfarin ár er marklaus og vitnar fremur um þekkingarleysi og dómgreindarleysi fræðinganna þar á bæ, í ljósi ríkjandi gjaldeyrishafta hér, eða makalausan undirlægjuhátt þeirra gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eða ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar, augljósra umboðsmanna sjóðsins hérlendis í reynd.
Þrátt fyrir ítrekaða gagnrýni ýmissa aðila á þessa stefnu, ekki síst Lilju, fást ekki haldbær svör við ríkjandi landeyðingarstefnu stjórnvalda. Það er eins og að berja höfði við svartan marmarasteininn í Seðlabankahúsinu.
"Gamli Steingrímur" hefði sjálfur fyrir löngu verið búinn að tala sig upp úr þingsal Alþingis og út fyrir dálka fjölmiðla í gagnrýni sinni á stefnuna ef hann hefði verið í stjórnarandstöðu, enda er ekki ólíklegt að honum hefði fundist málflutningur sinn skiljanlegri þá en nú.
Vert er að benda á í þessu sambandi að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins fjallar um ýmis atriði sem mátt hefðu fara betur í efnahagsstjórninni í grein sinni í Morgunblaðinu í dag.
Fyrir löngu síðan hefur sá hræðilegi grunur læðst að að núverandi stjórnvöld hafi ekki tilskilið vit á grundvallaratriðum efnahagsstjórnar, fremur en hrunstjórnin á sinn hátt, enda hafa margir þingmenn ekki einu sinni komið að rekstri smáfyrirtækis hvað þá meira, né byggja þeir á tilhlýðilegri menntun til landsstjórnar. Það er ekki von á góðu úr slíkum efnivið.
Ráðherrar tala í afdönkuðum pólitískum frösum og geta í dúr við það ekki hafist handa á skapandi hátt við skapandi framkvæmdir til að vinna þjóðina út úr vanda athafna- og atvinnuleysis. Þar að auki fer aðalkrafturinn hjá núverandi ríkisstjórn að því er virðist í kolrangar áherslur um brennandi víti í Evrópu og að bjarga fjármálafyrirtækjum eins og Lilja bendir á, og uppákomur og þjark í sífelldri pattstöðu mála.
Skuldaþjökuð heimili og fyrirtæki horfa vondaufum augum á þessa fjarstæðu og koma ekki svo mikið sem einu auga á skjaldborg sína í villumistrinu. Kosningaloforð stjórnarflokkanna eru nú gríni líkust.
Nú verður ríkisstjórn alþýðunnar að fara að aðhafast eitthvað af viti fyrir kjósendur sína og þjóðina alla eða að boða til kosninga að öðrum kosti. Eða, er valdaseta meginmarkmið ríkisstjórnarinnar, eins og margir væna hana um?
Fjárfestar fældir frá með háum vöxtum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.7.2011 kl. 00:30 | Facebook
Athugasemdir
Sjónarhornið er rétt með augum leiguliða á Íslandi. Hinvegar má líta á málið frá Heildar langtíma hagsmunum hæfs meirihluta bak við Commission Brussell. Þetta er spurnig um hagsmunni milljóna neytenda sem hlýtur að vega þungt. Íslenskir leiguliðar virðast bara hugsa um sjálfa sig, ekki taka tákrænu stjórnsýsluna hér til fyrirmyndar og græða á því að þóknast þeim hæfustu.
Júlíus Björnsson, 31.7.2011 kl. 17:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.