27.6.2011 | 13:16
Hvað þarf kúgunin að ganga langt?
Það er með ólíkindum hve heilu þjóðirnar láta kúgast lengi og mikið áður en þær rísa upp sér til varnar og kollvarpa kúgurum sínum.
Það er með ólíkindum hve blekkingar yfirvalda geta gengið langt og lengi áður en nægilega margir þora að andæfa með viðeigandi hætti og afhjúpa blekkingarnar og blekkingarmeistarana.
Það er með ólíkindum hve hermenn láta leiða sig langt gegn eigin þjóð, gegn eigin ættum og eigin fjölskyldu og eigin börnum áður en þeir beina vopnum sínum að kúgurunum í staðinn og varpa hinum mergsjúgandi afætum af sér.
Kúgaðar og arðrændar og langþjáðar arabaþjóðir kringum Miðjarðarhaf eru loks nú að uppgötva hvað kúgarar þeirra, harðstjórnarnir sem kalla sig þjóðhöfðingja, fursta og kónga viðkomandi landa, hafa verið að aðhafast í áratugi gegn eigin þjóðum: Arðrán, kúgun og þjóðarmorð.
Vonandi tekst þeim öllum að varpa kúgurunum af höndum sér og forðast að harðstjórnarsögurnar endurtaki sig.
Allan tímann hefur restin af heiminum staðið hjá án þess að aðhafast marktækt gegn kúgurunum og ógnarstjórnum þeirra. Sum vestræn ríki hafa meira að segja kynt undir harðstjórunum með viðskiptum við þá án þess að láta sig neinu skipta að arðurinn af viðskiptunum með þjóðarauðlindir landanna renni fyrst og fremst til harðstjórnanna sjálfra, einkahers þeirra og fjölskyldna; til að viðhalda kúguninni.
En, upp birtir um síðir; Það er óhjákvæmilegt. Þótt allt of seint sé eru nú loks að komast á lokastig réttarhöld yfir morðóðri og viti firrtri ógnarstjórn Pol Pots og félaga. Aðrir harðstjórar og þjóðníðingar, þjóðarmorðingjar með sverði eða hrokagikkir með penna, geta bara beðið fyrir sér.
Hungur sverfur að Norður-Kóreumönnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 13:22 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.