22.2.2011 | 13:34
Lýsandi dæmi um launastefnu
Innihald meðfylgjandi fréttar um stefnu í kjaramálum og skiljanlegt og réttmætt andóf forystumanna Verkalýðsfélags Akraness er lýsandi dæmi um það sem ég fjallaði stuttlega um nýlega um að hugsunarháttur og viðhorf í kjarabaráttu þarf að breytast í grundvallaratriðum hér á landi, sbr. pistil minn "Hugarfarsbreytingar er þörf um kjarasamninga".
Komast þarf út úr þeim vítahring hugarfarsins að ekki sé hægt eða ekki megi hækka laun eða bæta kjör með öðrum hætti hjá tilteknum hópi launþega nema það sama gangi eftir fyrir alla aðra samtímis. Slík sjónarmið, og sem hafa verið ríkjandi hérlendis undanfarna áratugi, halda í reynd launum allra niðri til lengri tíma litið miðað við það sem þau gætu verið.
Þannig kerfi er við haldið með allsherjar samtökum atvinnurekenda og launþega þar sem stefnan virðist vera að semja um einhvers konar "meðal-samninga". Þar er gjarnan tekið mið af lægstu mögulegu kjarabótum sem byggja og taka mið af lélegustu rekstrargreinum á hverjum tíma; því sem sú atvinnugrein sem verst stendur er sögð geta "varla" staðið undir.
Í þessu skjóli skáka síðan atvinnugreinarnar og fyrirtækin með bestu afkomuna sem sleppa þar með við að hækka laun og bæta kjör í samræmi við getu sína. Þannig virðist hátta með sjávarútvegsfyrirtækin núna. Ekki er nema von að launþegar og starfsmenn þeirra fyrirtækja telji sig órétti beitta.
Í næstu umferð gæti dæmið síðan hafa snúist við afkomulega séð meðal atvinnugreina og fyrirtækja.
Þannig fengju launþegar í hverri grein, stað eða fyrirtæki, kjarabætur sínar á mismunandi tímum í misstórum stökkum. Nákvæmlega þarna liggur nauðsynin á breyttu hugarfari til kjarasamninga.
Afleiðingin er augljóslega sú að í heildarsamningum eins og hér hafa tíðkast er tilhneiging til þess að kjarabætur taki ávallt mið af lélegustu greinunum hverju sinni.
Hættan við þessa stefnu er ennfremur sú að ef samtökum launþega tekst að herja í gegn t.d. meiri launahækkanir en t.d. helmingur atvinnulífsins getur staðið undir einhverju sinni leiðir það óhjákvæmilega til ófarnaðar og kreppu og í versta falli gjaldþrots þeirra fyrirtækja. Sú afleiðing er ekki góð fyrir launþega, a.m.k. til skamms tíma litið.
Niðurstaðan af þessum vangaveltum er augljóslega sú að taka ber tillit til rekstraraðstæðna og afkomuhorfa í hverri atvinnugrein, stað eða fyrirtæki, fyrir sig við kjarasamninga.
Afleiðingin er eðlilega sú að heildarsamtök og heildarsamningar eiga ekki við, sé markmarkið að hámarka kjör launþega til lengri tíma litið og þannig að fyrirtækin lifi af til frambúðar þrátt fyrir það.
Aftur á móti er annað mál að í heildarsamtökum felst mikill samtakamáttur, að sagt er.
Það er tvíbent fullyrðing. Hún er það í orði, en er hún það á borði? Hvað sýnir reynslan undanfarið? Skynsamir launþegar á hverjum stað sjá það í hendi sér að ekki er viturlegt að herja í gegn launahækkanir sem þeir sjá að fyrirtæki þeirra getur ekki með sanngjörnum hætti staðið undir til frambúðar. Þess vegna halda þeir að sér höndum þegar þannig háttar, trúir hagsmunum sínum og fyrirtækis síns sem þeir starfa hjá.
Á hinn bóginn ber þeim hinum sömu ekki sömuleiðis að halda að sér höndum í launakröfum sínum þegar betur og vel árar hjá fyrirtæki þeirra, "vegna þess að illa árar í atvinnulífinu almennt"! Að fara fram á það er ekki réttlátt.
Mýtan eða goðsögnin sem felst í slagorðinu um samtakamátt sem tæki í kjarabaráttu hefur undanfarið snúist upp í andhverfu sína þar sem sá samtakamáttur hefur stuðlað að því að halda niðri launum launþega til lengri tíma litið og rústa þeim óburðugri fyrirtækjum sem hafa ekki getað staðið undir þeim (lágu) meðaltalskjarabótum sem þó eru herjaðar út hverju sinni. Það er því bæði launþegum og atvinnurekendum, sérstaklega hinum smærri, í hag að semja á grundvelli aðstæðna í hverju tilviki. Heildarsamtök launþega þurfa í því samhengi að fylgjast með, afla upplýsinga um atvinnugreinar og fyrirtæki og styðja við bakið á staðbundnum launþegasamtökum að því leyti með ráðum og dáð og hafa eftirlit með því að réttindi launþega og möguleikar séu ekki fótum troðnir. Áherslur þurfa þannig að breytast á vettvangi heildarsamtakanna, en með markvissum hætti.
Stefna sem tekur mið af rekstrargrundvelli fyrirtækja á hverjum "stað" er lífvænlegri til lengri tíma litið, bæði fyrir fyrirtækin í heild og launþega í heild.
Í slíkri stefnu eiga litlu fyrirtækin eða þau sem ekki eru fjárhagslega sterk betri framtíðarhorfur en í núverandi "miðjumoðs"-stefnu þar sem sterkari fyrirtækin ráða för og halda á pálmanum þegar upp er staðið og til lengri tíma litið. Kennitöluflakk fyrirtækja sem umtalað er hérlendis er ef til vill að nokkru leyti ein afleiðing af þeirri allsherjar miðjumoðs-launastefnu.
Við erum hér að tala um upplýstar og skynsamar og réttlátar ákvarðanir, bæði fyrir alla launþega og alla atvinnurekendur á hverjum tíma til lengri tíma litið.
Vilhjálmur hótar úrsögn úr ASÍ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Kjaramál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Þetta er nokkuð góð grein hjá þér og í anda þess málflutnings sem Vilhjálmur hefur haldið uppi. Hann hefur alla tíð sagt að sýna þurfi þeim fyrirtækjum skilning sem illa standa, að ekki þíði neitt að sækja háar launakröfur til fyrirtækja nema þau hafi innistöðu fyrir henni.
Hvað varðar stóriðjuna eru sjónarmiðin þau sömu. Starfsmenn Elkem hafa ti dæmis oft samþykkt skerðingu launa, tímabundið og til frambúðar, þegar illa hefur árað hjá fyrirtækinu og komið þannig til móts við það. Í hinu svokallaða "góðæri" var almennur launamarkaður yfirborgaður langt umfram taxta. Á þeim tíma fengu starfsmenn stóriðjunnar engar yfirborganir, urðu að sætta sig laun samkvæmt kjarasamningi. Nú vill þetta fólk fá umbun, enda geta fyrirtækjanna meira en góð til þess.
Gunnar Heiðarsson, 22.2.2011 kl. 13:49
Takk Gunnar. Hér bendir þú á góð dæmi um uppbyggileg og ábyrg viðhorf launafólks um afkomu sína og síns fyrirtækis.
Svona staðbundin stefna sem við erum að ræða hér þarf að byggja á gagnkvæmu trausti og virðingu þannig að einmitt núna þegar betur árar hjá útflutningsgreinum að þær minnist uppbyggilegrar afstöðu starfsfólks síns á erfiðu rekstrarárunum og launi þeim tilhlýðilega fyrir núna þegar þau eru ofur vel fær um það. Þá mega þau ekki falla í miðjumoðs-gryfjuna og halda því fram að það hefði "slæmt fordæmi fyrir allt atvinnulífið í landinu". Það er einmitt sá hugsunarháttur sem þarf að breytast. Launþegar mega ekki vera svo skammsýnir og þröngsýnir að þeir af misskilinni öfund hamli því að aðrir launþegar fái verðskuldaðar kjarabætur einhverju sinni eftir. Þau fyrirtæki sem vilja umbuna starfsfólki sínu vel þegar þau geta og hafa forsendur til verða að "mega" það án þess að aðrir launþegar eða atvinnurekendur komi í veg fyrir það.
Kristinn Snævar Jónsson, 22.2.2011 kl. 14:04
Það sorglega í þessu máli öllu er að þetta fyrirtæki er vel meðvitað um sína sögu og vill umbuna sínum starfsmönnum, nú þegar vel gengur, en er fær ekki leyfi SA fyrir því.
Þetta átti einnig við um bræðslurnar, þær voru tilbúnar að ganga að tillögu um eingreiðslu til sinna starfsmanna, gegn frestun verkfalls. Þessi greiðsla hefði kostað stæðsta útgerðarfyrirtækið HB Granda 2 - 3 miljónir króna, smáaurar miðað við það tap sem hefði orðið af verkfalli. SA stöðvaði þetta einnig. Það var svo framkvæmdastjóri Afls á austurlandi sem upp á sitt einsdæmi afboðaði verkfallið eftir að hann var settur í miðstjórn ASÍ að morgni þess dags er verkfall átti að hefjast. Hann bar því við að tvær bræðslur ætluðu ekki í verkfall og því tilgangslaust að halda því til streitu. Þetta var eins langt frá raunveruleikanum og hugsast gat. Bræðslan í Helguvík er lítil og afköst hennar um einn og hálfur sólahringur á skip og fyrir norðan voru bræðslumenn búnir að gefa út að þeir tækju einungis við sínum föstu skipum. Það er líklegra að innkoma framkvæmdastjóra Afls inn í miðstjórn hafi ráðið meiru þarna. Með þessu útspili sínu gerði hann út um að starfsmenn í bræðslum geti fengið sanngjarna launahækkun, hann hrifsaði vopnin úr höndum sinna umbjóðenda og færði SA á silfurfati!!
Nú er staðan sú að launafólk fær ekki að semja vegna þess að ASÍ bannar þeim það og fyrirtæki fá ekki að semja vegna þess að SA bannar þeim það!! Undarleg staða!!
Þeir félagar Gylfi Arnbjörnsson og Vilhjálmur Egilsson hafa nefnilega komist að þeiiri niðurstöðu að launafólki sé fullgott að fá 2,5% launahækkun!!
Gunnar Heiðarsson, 22.2.2011 kl. 20:28
Þetta er nú eins og ævintýraleg lýsing á bandarískum raunveruleikakrimma úr hugarheimum í Hollywood!
Sé þetta eins og mál gengu fyrir sig er þetta bókstafleg raungerving á því sem ég viðra í pælingunum í inngangspistlinum, en samt öllu verra. Mér hafði ekki hugkvæmst að þetta gæti verið svona beinskeytt og opinskátt, hörkulegt og kinnroðalaust, beint framan í umbjóðendurna, launamenn.
Sé hið minnsta fiskibein í hinum staðbundnu launþegasamtökum sem hér um ræðir hljóta þau að yfirgefa samflotið undir "verndandi" hendi landssamtakanna hið bráðasta. Ef ekki, þá er einhver maðkur í mysunni, einhvers staðar og víðar.
Minnst á fiskibein: Það er líklega til staðar, en bara ekki í nefinu á "talsmönnum" launþega heldur illilega fast í kokinu á þeim þannig að þeir geta ekki talað máli þeirra. Stóra spurningin er hver kom þessu beini og talmeini þar fyrir.
Kristinn Snævar Jónsson, 22.2.2011 kl. 23:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.