14.2.2011 | 15:10
Einsleitt tónlistarofríki útvarpsstöðva
Ég tek heilshugar undir með Jóhanni G. Jóhannssyni, hinum dugmikla og færa tónlistarmanni og lagahöfundi, þar sem hann segir um álit sitt á einhæfri tónlistar- og spilunarstefnu á Bylgjunni, 365:
"Þetta fyrirkomulag hefur stuðlað að einhæfu tónlistarvali, sérstaklega á nýrri íslenskri tónlist, ásamt ofspilun ákveðinna laga sem á endanum gengur af þeim dauðum. Ég fullyrði að þetta fælir burt tónlistarunnendur sem hafa annað viðhorf til tónlistar en að hún sé uppfyllingarefni á milli auglýsinga. Tónlistarmenn hafa lengi verið ósáttir við hvernig þessum málum er háttað á Bylgjunni, þó það hafi ekki farið mjög hátt, enda ekki gott að fá tónlistarráðið upp á móti sér."
Hin einhæfa tónlistarstefna á Bylgjunni, sem lýsir sér m.a. í tiltölulega þröngu vali íslenskra tónlistarmanna, er pirrandi og umfram allt það leiðigjörn til lengdar að maður hlustar ekki á Bylgjuna. Þessi stefna ætti fyrir löngu að hafa kafsiglt Bylgjuna fjárhagslega séð ef allt væri með eðlilegum hætti, skyldi maður ætla. En, það er endalaust "dokað við" hið gamalkunna, ofspilaða og væmna.
Það er svo sem allt í lagi út af fyrir sig, þar sem útvarpsstöðin ræður vissulega lagavali sínu, Guði sé lof fyrir tjáningarfrelsið! Stöðin gerir greinilega út á meintan hóp hugsanlegra áheyrenda sem líkar það lagaval. Virðist stöðin jafnframt telja að sá hópur sé tónlistarlega séð staðnaður og vilji ekkert annað og tekur af honum það ómak að þurfa að ákveða að prófa eitthvað nýtt og þroska smekk sinn. En, svar óánægðra hlustenda, sem vita af fjölbreyttri tónlist annars staðar, er einfalt. Þetta er því ekkert vandamál ef framboð á útvarpsstöðvum er nægilegt. Þar stendur hnífurinn þó í kúnni.
Ábendingum Jóhanns G. til Bylgjunnar/365-miðla ætti hins vegar að vera tekið fagnandi þar á þeim bæ þar sem þau sjónarmið sem hann viðrar henta umfram allt til þess að auka líkur á hlustun á hinni oft á tíðum væmnu Bylgju með útvíkkuðum sjóndeildarhring.
Hitt er annað, að dagskrárgerðarmenn á RÚV ættu líka að hugsa sinn gang í þessu sambandi, þar sem allt of oft ber á einsleitri spilun þar líka. Sumir gamalgrónir tónlistarmenn sem mega muna sinn fífil fegri og frumlegri virðast eiga þar endalausa heimkomu og spilun á hverju sem gengur í tímans rás, meðan aragrúi nýrra listamanna með fersk lög og flutning eiga ekki upp á tónlistarborðið þar, hvað þá plötuspilarann.
Það mun koma að því að þessa tónlistarmenn bresti langlundargeð, undirlægjuhátt og minnimáttarkennd og krefjist þess að almennri jafnræðisreglu verði beitt á þessu sviði og allir sitji við sama borð varðandi möguleika á spilun í útvarpi allra landsmanna.
Bannar Bylgjunni að spila lög sín | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Tónlist | Facebook
Athugasemdir
Er Bylgjan ekki sjálfráð af því hvaða tónlist hún spilar? Bylgjan stendur og fellur með því efni sem hún flytur, ef engin er hlustunin verða engar auglýsingar, engar tekjur, það vita þeir á Bylgjunni örugglega manna best.
Ef lagaval Bylgjunnar fellur ekki að smekk ykkar Jóhanns er ekki annað að gera en stilla á aðra stöð. Einhverjir virðast hafa smekk fyrir tónlistina, ef marka má þá hlustun sem Bylgjan virðist hafa.
Ég er þess fullviss að Jóhann G. Jóhannsson væri ekki í fýlu, væri það hans tónlist sem væri "ofspiluð", um það eitt snýst málið en hefur ekkert með smekk að gera.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 14.2.2011 kl. 15:31
Getur einhver haft smekk fyrir þessari síbylju Bylgjunar ??
Efast um að nokkur sé að hlusta á milli 9-16 á daginn nema kanski æsifréttirnar í hádeginu. Ég er löngu búinn að slökkva á Bylgjunni á þessum tíma. Nenni hreinlega ekki að láta troða í mig keyptum auglýsingum " Líklegt til vinsælda " blaðrinu hjá þessari útvarpsstöð. Sammála Jóhanni með flest og heyri þetta einnig hjá tónlistarmönnum sem hafa ekki rándýrar útgáfur til að bakka sig upp. Þarna eru lög líklega keypt inn og önnur út. Vinsældarlistinn endurspeglar ekki hlustendahóp Bylgjunar þ.a.l
GAZZI11, 14.2.2011 kl. 15:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.