Farsinn um Fjármálaeftirlitið

Sífellt tekur farsinn um Fjármálaeftirlitið á sig ótrúlegri myndir.

Því miður held ég að starsmenn FME, a.m.k. þeir sem voru sagðir starfa þar og stjórna fyrir bankahrun, haldi að meint mannekla og tímaleysi hjá þeim séu haldbær rök sem afsaki þá af öllum yfirsjónum sínum og syndum.
Með þessari frétt er enn að koma á daginn að það sem fram fór innan FME fyrir bankahrunið hafi einmitt verið ekkert annað en yfirsjón.
Allir læsir menn sjá strax á lögunum um bann við gjaldeyristengingu lána að slík tenging er ólögleg, þótt til þess settir embættismenn og ráðuneytisfólk hafi ekki kunnað eða kært sig um að lesa þau rétt. Meira að segja alþingismennirnir sem settu þó lögin virðast hafa steingleymt því eða ekki skilið hvað þeir voru að samþykkja árið 2001 og ekki fattað hvaða lögleysu bankarnir voru að framkvæma fyrir opnum tjöldum varðandi gjaldeyristengd bílalán.

Það hlýtur að hafa verið og vera algjör lágmarkskrafa að starfsmenn FME væru og séu kunnugir þeim lagagrunni sem eftirlitið átti og á að starfa eftir.
Það hefði ekki verið nema dagsverk fyrir sæmilega greindan mann þar innan veggja að rita greinargerð um lögbrot bankanna í þessum efnum og leggja inn opinbera kæru. Eða senda viðskiptaráðherra ábendingu um málið úr því að hann/hún gerði ekkert í málinu af eigin frumkvæði eins og ráðherra ber þó að gera.
Ástæðan fyrir því að starfsmenn FME gerðu það ekki getur því ekki verið önnur en sú að þeir hafi alls ekki sinnt starfi sínu og komist upp með það, eða verið bannað að gera það, ef við útilokum að þetta hafi verið helberir heimskingjar sem vissu ekki til hvers þeir voru á launum hjá eftirlitinu.

Almenningur á Íslandi sem nú geldur fyrir yfirsjónir Fjármálaeftirlitsins, eins og það var mannað fram yfir bankahrunið, á greinilega margt vantalað við þá sem þar réðu málum.

Reyndar er spurning hvers vegna Fjármálaeftirlitið eins og það er mannað núna tók heldur ekki upp þráðinn um þetta tiltekna mál.
Vantar ennþá réttan kompás fyrir starfsemina?
Hvaða stakk hefur núverandi viðskiptaráðherra sniðið starfseminni? Hann virðist síðustu daga ekki yfir sig hrifinn af dómi Hæstaréttar í málinu og er það afar athyglivert fyrir almenning að íhuga ástæður þess, sem ekki hafa verið útskýrðar með tölulegum rökum sem skyldi hingað til.
Ræður e.t.v. hræðsla um hugsanlegar geigvænlegar afleiðingar uppljóstrana Fjármálaeftirlitsins um brot á reglum í fjármálaheimi Íslands því hvað eftirlitið aðhefst eða öllu heldur aðhefst ekki?


mbl.is FME skoðaði aldrei gengislánin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það liggur fyrir í gögnum frá Fjármálaeftirlitinu frá 2007 að SP Fjármögnun hafði hvorki starfsleyfi til að versla með gjaldeyri eða gengistryggð verðbréf, né heldur framvirka samninga sem fyrirtækið fjármagnaði sig með, engu að síður aðhafðist stofnunin aldrei neitt gegn fyrirtækinu. Þegar þetta uppgötvaðist af óháðum aðilum í fyrra og byrjað var að kalla eftir skýringum frá stofnuninni, þá brást hún við með því að fjarlægja umrædd gögn af vefsíðu sinni. Frekari umleitan skilaði sér svo í sífellt meiri undanbrögðum, útúrsnúningum og beinlínis feluleik af hálfu stofnunarinnar. Það er spikfeitur og slímugur maðkur í mysunni þarna!

Guðmundur Ásgeirsson, 26.6.2010 kl. 23:19

2 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Ja, sei, sei, vei og vei.

Óskaplegt er að heyra þetta. Þetta hljómar eins og lygasaga!
Er svona virkilega að gerast enn þann dag í dag, á "Nýja Íslandi"?! - Og það undir "stjórn fólksins" í landinu!

Þú baðar söguna í svo ferlegum umbúðum um ógeðslega maðka í mysunni að það fer hrollur um mann allan, jafnt milli skinns og hörunds sem annars staðar. Maður þorir varla að snerta á þessu eða ræða um það af ótta við að verða gírugur um hendurnar.

Hvernig ætli standi á því að stjórn fólksins viti ekki af þessu? Hún væri annars búin að kippa þessu í liðinn og koma á heiðarlegum og réttsýnum vinnubrögðum.
Er e.t.v. einhver einkastjórn í viðskipta- og efnahagsráðuneytinu, þeim Jóhönnu og ekki síst Steingrími óviðkomandi? Utanþingsmanni sem fer eigin leiðir eftir einhverjum öðrum markmiðum en stjórnast af hagsmunum almennings?

Hvað er eiginlega á seiði/seyði?

Kristinn Snævar Jónsson, 27.6.2010 kl. 15:15

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Já þetta hljómar vissulega lygilega, en fyrir þessari frásögn eru til sönnunargögn. Ég vil benda þér á eftirfarandi grein: Nótulaus viðskipti án starfsleyfis, þar sem þetta er útskýrt betur og hægt að skoða umrædd fylgiskjöl.

"Stjórn fólksins" veit vel af þessu, það er fyrir þónokkru síðan búið að senda ábendingar um málið til FME, efnahagsbrotadeildar, sérstaks saksóknara, forsætisráðherra, fjármálaráðherra, viðskiptaráðherra o.fl. Enginn þessara aðila hefur aðhafst svo vitað sé vegna þessara stórfelldu og skýlausu brota á lögum og reglum um starfsemi fjármálafyrirtækja.

Það sem mér finnst samt sorglegast við þetta er að brotamennirnir skuli ennþá sitja að störfum sínum í skjóli stjórnvalda, á meðan hellingur af heiðarlegu og vel gefnu fólki gengur atvinnulaust og á sumt ekki til hnífs og skeiðar.

Guðmundur Ásgeirsson, 27.6.2010 kl. 23:45

4 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Það ber þá að skilja það svo að "stjórn fólksins" með baráttumann almennings númer eitt, formann Vinstri grænna, núverandi fjármálaráðherra, í broddi fylkingar ásamt "samfylkingu fólksins" í landinu, Steingrímur og Jóhanna, láti þetta afskiptalaust þrátt fyrir vitneskju um þessi mál?!Þau og þeirra lið sem hefur talið almenningi trú um að þau séu að vinna fyrir sama almenning í landinu?!

Það kemur skýrt fram í yfirliti Fjármálaeftirlitsins pr. 19.3.2007 að ekki er Já-merkt við eftirfarandi liði varðandi SP-Fjármögnun, en hins vegar hjá Lýsingu:

1. Móttaka endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi:
   b. Skuldaviðurkenningar.
2. Veiting útlána sem fjármögnuð eru með endurgreiðanlegum fjármunum frá
almenningi.
..

7. Viðskipti fyrir eigin reikning eða fyrir viðskiptavini með: 
a. Greiðsluskjöl á peningamarkaði (ávísanir, víxla, önnur sambærilega
greiðsluskjöl o.s.frv.).
b. Erlendan gjaldeyri.
c. Framvirka samninga og skiptirétt (vilnanir).
d. Gengisbundin bréf og vaxtabréf.
e. Verðbréf.

13. Upplýsingar um lánstraust (lánshæfi).

-

Ja hérna hér!

Kristinn Snævar Jónsson, 28.6.2010 kl. 12:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband