17.3.2010 | 23:20
Hundalógík hávaxtastefnunnar
Já, vissulega er svigrúm til frekari vaxtalækkunar. Það sem meira er, þá er hægt að skapa þær forsendur, en Seðlabankinn vill ekki viðurkenna þann möguleika sökum trúfesti sinnar við ídealiseruð hagfræðilíkön sem byggja á tilsvarandi ídealiseruðum forsendum. Þær forsendur eiga ekki við þær aðstæður sem eru í efnahagskerfi Íslands núna. Hér eru í gildi gjaldeyrishöft og gengi krónunnar er ekki ákvarðað á fullkomnum markaði framboðs og eftirspurnar. Auk þess eru hendur þorra almennings þrælbundnar með skuldafjötrum þannig að flestir geta sig lítið hrært í neyslu og fjárfestingum nema til daglegra nauðsynja; sumir alls ekki neitt! Hér er því ekki fyrirliggjandi hætta á ofþenslu með tilheyrandi verðbólguhvata, nema síður sé. Á þetta hafa margir bent, margsinnis, en það er eins og að tala við dauðan svartan stein.
Það er bráðnauðsynlegt að skera á þann Gordionshnút hávaxtastefnu sem Seðlabankinn hefur rígbundið efnahagskerfi landsins í, atvinnulífi og heimilum til óbóta. Hún er varin með óviðeigandi rökum sem hvíla á forsendum sem ekki eiga við í íslensku atvinnulífi núna. Það er ekki mikil hætta á að efnahagskerfið snöggræsist og þjóti í ofþenslu við hressilega vaxtalækkun niður í svipað stig og er í viðskiptalöndum Íslands.
Hvernig væri að menn ryfjuðu upp það dæmi þegar verðbólgu hérlendis var nánast kippt úr tveggja stafa tölu, er hún snarlækkaði við það að tekin var ákvörðun um að lækka vexti í 5% ? Þar var minnkuð verðbólga afleiðing af snarlækkuðu vaxtastigi og væntingum um að það héldist lágt.
Í dag virðist Seðlabankinn hins vegar alfarið vinna eftir þeirri hugmynd að verðbólguvæntingar eigi að stjórna vaxtaákvörðunum. Miðað við íslenskar aðstæður núna og undanfarið ár eru hér höfð endaskipti á hlutunum.
Ekki er furða að hægt gangi að koma þessu hvorutveggja niður á við, verðbólguvæntingunum og vöxtunum, meðan svona "hundalógík" ræður ríkjum.
Svigrúm til frekari lækkunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Kjaramál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:37 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.