Færsluflokkur: Pepsi-deildin
19.11.2013 | 17:40
Við ætlum að vinna!
Já, ekki dugir að segjast og hugsa sér að "gera sitt besta" vegna þess að í því felst fyrirfram afsökun á að ná ekki markmiðinu.
Réttara viðhorf er að ætla sér að vinna, að ásetja sér það að ná markmiðinu og einblína á það. Í því er ekki gefinn neinn afsláttur. Á þessari vegferð er maður þó yfirleitt ekki einn, sem betur fer, til dæmis ekki fótboltalið.
Um þetta fjallar textinn við samnefnt lag mitt "Við ætlum að vinna", sem hægt er að hlusta á hér í spilaranum mínum (næst-neðsta lagið í röðinni); Helst með góðum hátölurum.
Gangi ykkur vel við að ná góðum og jákvæðum markmiðum ykkar!
Texti lagsins er eftirfarandi:
Við ætlum að vinna
ISRC: IS-V44-08-06714, á plötunni Lífsins gangur á gogoyoko.com
Höf. (c) Kristinn Snævar Jónsson
Við erum hér á óralangri leið,
sem ekki verður talin bein og greið.
Á henni hljóta óteljandi ör
allir þeir sem þangað beina för.
En hugurinn og viljinn veita styrk
á veginum þótt glætan sé oft myrk.
Og fókusinn er festur markið á,
að fullkomna sitt verk og sigri ná.
Við ætlum að vinna og engu að sinna,
öðru en því, en að vinna á ný.
Það er svo gaman að sigra allt saman
og svo koma heim í fagnandi geim.
Í lífsins mörgu þrautum enginn er
alveg hjálparlaus sem betur fer.
Því fjölskyldan og fornvinirnir sjá
fyrir því sem orð og hvatning tjá.
::Við ætlum að vinna og engu að sinna,
öðru en því, en að vinna á ný.
Það er svo gaman að sigra allt saman
:: og svo koma heim í fagnandi geim.:: ::
:: Og koma svo heim í fagnandi geim.::
Eiður og Birkir byrja í Zagreb | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2009 | 14:00
Björgunarhringur Ólafs Ragnars Grímssonar forseta
Ólafi Ragnari Grímssyni hefur verið réttur björgunarhringur sem honum veitist til að rétta hlut sinn frammi fyrir hneykslaðri þjóðinni, vonsviknum aðdáendum og kjósendum, og glaðhlakkalegum fjandmönnum og úrtöluliði.
Sá björgunarhringur felst í hlutverki hans sem forseta með því að neita að skrifa undir Icesave-lögin sem flestir úr stjórnarflokkunum samþykktu þ. 30.12.2009, þeim örlagaþrungna degi. Með því uppfyllir hann óskir og vilja meirihluta þjóðarinnar, ef marka má niðurstöður skoðanakannana nýverið, um að málið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sá meirihluti Þjóðarinnar óskar eftir því að fá að segja álit sitt á málinu með þeim hætti. Það þykir liður í viðleitni til eflingar á lýðræði landsins og minnkun á óþolandi þöggun í þjóðfélaginu.
Í ljósi forsögunnar á ferli Ólafs Ragnars Grímssonar í embætti mun þessi björgunarhringur vera líklegur til þess að brúa gjána sem myndaðist milli hans og þjóðarinnar við afhjúpun á innistæðulausum "sigrum" banka- og fjármálaforkólfa sem við fjárglæfraiðju sína höfðu sólundað reiðufé innistæðueigenda, sem treystu þeim fyrir fé sínu, í skjóli svokallaðs eftirlitsnets embættis- og ráðamanna sem reyndist harla götótt.
Ef Ólafur Ragnar Grímsson nýtir sér ekki þennan björgunarhring sem í því felst að neita að undirrita Icesave-lögin er augljóst að hann yrði ekki lengur glæsilegur forseti meiri hluta þjóðarinnar eins og áður var, þess meirihluta í ofangreindum skoðanakönnunum sem vill þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Þá yrði væntanlega fokið í flest skjól og ekki landsýn.
Forseti tekur sér frest | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt 1.1.2010 kl. 14:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)