Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
24.7.2009 | 22:53
Eru lífeyrissjóðsiðgjöld launafólks skattlagning í reynd?
Marta B. Helgadóttir ritaði athygliverðan pistil í bloggi sínu þ. 21.7.2009, sem hún kallaði "Nýr ríkiskassi - lífeyrissjóðirnir". Fjallar hún þar m.a. um hvort iðgjöld til lífeyrissjóða séu í raun skattlagning hins opinbera fremur en sparnaður launþeganna sjálfra, þar eð iðgjöldin þeirra eru í reynd ekki þeirra séreign.
Þar sem ég hef líka velt þessum málum fyrir mér hripaði ég niður nokkrar athugasemdir við pistilinn og fara þær hér á eftir:
Það er margt sem rökstyður það að iðgjöld launafólks lífeyrissjóði sé í reynd "dulbúin" skattlagning. Helstu rökin sem tína má til um það eru m.a. eftirfarandi:
- Launþegarnir, þeir sem vinna hörðum höndum fyrir laununum, verðmætaskapendurnir, hafa ekki fullan ráðstöfunarrétt á peningunum eftir að þeir eru inntir af hendi til lífeyrissjóðanna. Flestir sparendurnir deyja áður en þeir hafa fengið allt fé sitt til baka aftur.
- Launþegar geta ekki tekið út þennan sparnað sinn þegar þeim hentar sjálfum. Það er háð lögum sem gilda um lífeyrissjóði. Þeim er reyndar hægt að breyta eins og gerðist í vor varðandi séreignasparnaðinn.
- Launþegarnir hafa í reynd afar takmarkað vald yfir ráðstöfun sparnaðarins meðan hann er (stóran hluta ævi hvers launþega) í vörslu lífeyrissjóðanna. Þeir hafa ekki hver fyrir sig bein áhrif á hvernig sjóðirnir eru ávaxtaðir og hvernig þeir eru reknir. Hins vegar hafa atvinnurekendur og samtök þeirra (!) mikil ítök í stjórn lífeyrissjóðanna; Takið eftir: í sjóðum launþega!
- Dæmið sem upp kom varðandi fulltrúa lífeyrissjóðs VR í gamla Kaupþingi s.l. vetur sýnir að fulltrúar lífeyrissjóðanna í stjórnum fyrirtækja (sem lífeyrsjóðirnir hafa fjárfest í) verja atkvæði umbjóðanda síns með hætti sem markast af fleiru en algjörum hagsmunum eigenda fjárins í sjóðunum. Hvernig stendur á því?
- Lífeyrissjóðirnir eru að miklu leyti nokkurs konar fjárfestingasjóður ríkisins og atvinnulífsins, en að nafninu til í eigu launþega. Þeir eru líka á ábyrgð launþega, þótt þeir hafi takmörkuð óbein áhrif á stjórn þeirra, þar sem launþegar tapa ef sjóðirnir ávaxta fé þeirra illa. Slíkt tap birtist í skerðingu lífeyrisréttinda sjóðsfélaga, eins og dæmin sanna.
Það er til lítils að kallast eigandi að einhverju sem maður ræður ekki yfir! Sá sem ræður yfir því og stjórnar á það í raun og veru til lengri tíma litið. Í þessu tilviki ríkið og atvinnurekendur.
Það er í raun og veru fráleitt að launþegar þurfi að una því að geta ekki lagt allan sinn sparnað í séreignasjóði sem þeir eigi að fullu sjálfir hver fyrir sig.
Þeir sem höfðu lagt til hliðar í viðbótarsparnað umfram skyldusparnað sinn áttu svo sannarlega varasjóð sem þeir gátu grípið til við áfall eins og dunið hefur yfir okkur frá því s.l. haust. Opinberi viðbótarsparnaðurinn er hins vegar fastur nema að hluta til. Eins og er getur fólk sem hefur safnað upp slíkum sjóði aðeins tekið út upp undir eina milljón kr. Slíkt þak ætti ekki að líðast. En, ástæðan er einfaldlega sú að féð er tiltölulega fast í langtímafjárfestingum sjóðanna og ekki handbært nema að takmörkuðu leyti. Það þarf einhvern tíma til að losa um það.
Það er fráleitt að þeir sem eiga slíkan viðbótarsparnað erlendis skuli ekki geta tekið hann allan út núna og yfirfært han heim til gjaldeyrissoltins Íslands einmitt nú!
Ég legg eindregið til að fólk fái heimild til að losa hann allan út núna!
Í raun og veru er hinn erlendi sparnaður ígildi útflutnings, en útflytjendurnir, þeir sem spöruðu í erlendum sjóðum, fá bara ekki að flytja útflutningstekjur sínar heim!
Útflutningsfyrirtæki geta hins vegar yfirfært útflutningstekjur sínar strax heim, eins og vera ber! (Á sama tíma eru opinberir aðilar, og fleiri, að hneykslast á því að útflutningsfyrirtæki flytji ekki allan gjaldeyri sinn strax heim, enda er sárt fyrir almenning að þola slíkt brask fyrirtækja).
Þetta er ekki jafnræði milli einstaklinga og fyrirtækja, þ.e. milli einstaklinga sem eru launþegar og einstaklinga sem eiga útflutningsfyrirtækin. Er það réttlátt?
Á ofangreindan rakalista hjá mér um að lífeyrissjóðsiðgjöld eru í reynd ekki að fullu eign launþeganna, heldur skattheimta ríkisins, má einnig bæta eftirfarandi atriðum:
Á meira en 20 undanförnum árum hefur svokallað mótframlag atvinnurekenda hækkað úr 6% í 8% af launum launþega, og munar um minna, þannig að að viðbættu iðgjaldi launþega, 4%, eru mánaðarleg lífeyrissjóðsiðgjöld nú alls 12% af launum.
Einnig er athyglivert að áður hét mótframlagið launaskattur!
Í kjarasamningum launþega og atvinnurekenda hefur hækkun mótframlags atvinnurekenda gjarnan verið liður í launahækkunum þannig að vegna hækkunar á mótframlaginu virðast launþegasamtök hafa fallist á að bein laun hækkuðu þá minna en ella.
Þetta er sýndar-launahækkun, sem skilar sér seint og illa, ef nokkurn tímann, til launþeganna sjálfra. Þegar þannig er í pottinn búið eru lífeyrisjóðsgjöld í formi mótframlags atvinnurekenda fyrst og fremst hækkun ráðstöfunarfjár lífeyrissjóða, sem þar með hafa úr meiru að spila til fjárfestinga. Fyrir hverja? Að vísu að hluta til lána til sjóðsfélaga, en að öðrum hluta til fjárfestinga í atvinnulífinu (sem að vísu gagnast launþegum í formi meiri atvinnu og/eða hærri launa eða launaskriðs). Hvað verður síðan um lán sjóðanna til sjóðsfélaga? Þeir fjárfesta væntanlega að mestu í íbúðarhúsnæði, sem jú byggt er af atvinnurekundum og efnisaðföng til húsbygginga eru seld af atvinnurekendum. (Og allt í lagi með það út af fyrir sig).
Til viðbótar við mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð bætast við allt að um 2,18% af launum í formi ýmissa svokallaðra launatengdra gjalda eða atvinnurekendagjalda.
Heiti þeirra gjaldaliða bera með sér að eiga að vera í þágu launþega, þ.e. Sjúkrasjóður, Orlofsheimilasjóður, Starfsmenntasjóður, Endurhæfingarsjóður, Kjaramálagjald og Félagsheimilasjóður. Hver launþegi getur svo spurt sig að því að hve miklu leyti þessi gjöld, sem stofnað er til til að gagnast honum, skili sér í reynd til hans.
Alls geta því sparnaðar- og gjaldaliðir sem tengjast launum launþega, lífeyrisjóðsiðgjöld og launatengd gjöld, nú numið allt að a.m.k. 14,18% (það er reyndar mismunandi eftir eðli rekstrar og lífeyrissjóðum hvaða launatengdu gjöld eiga við og geta þau verið lægri en umrædd 2,18% alls í samræmi við það).
Þetta er ekki svo lítill stofn fyrir "fjárfestingasjóð ríkisins og atvinnulífsins", sem ég nefndi svo hér ofar; 14,18% af launum landsmanna!
Ég endurtek síðan tillögu mína til ríkisstjórnarinnar, sem ég hef sett fram hér i öðrum bloggfærslum:
Veitið því fólki sem lagði viðbótar-lífeyrissparnað inn á erlenda ávöxtunarsjóði heimild til að taka hann allan út og flytja til landsins hið fyrsta. Það styrkir íslensku krónuna jafnframt því að gefa fólkinu kost á því að njóta hins háa kaupgengis við sölu gjaldeyris. Það léttir einnig lóði af vogarskál verðbóta og gengistaps lántakenda.
Er hið síðast nefnda ekki einmitt eitt af yfirlýstum markmiðum ríkisstjórnarinnar til hjálpar skuldsettum heimilum og fyrirtækjum landsins?
Viðskipti og fjármál | Breytt 26.7.2009 kl. 01:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.5.2009 | 02:44
Erlenda séreignarsparnaðar-gjaldeyrinn heim!
Ég legg til að það þak sem sett var á innlausn á séreignarsparnaði verði fjarlægt varðandi þann sparnað sem fólk á erlendis, svo að þeir sem hann eiga geti flutt sparnað sinn hingað heim.
Ég hygg að sé miklu meiri þörf fyrir hann hér en þar, ágæta ríkisstjórn, bæði fyrir fólk og ríki!
Ég segi: Séreignarsparnaðar-gjaldeyrinn heim!
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2009 | 17:44
Eiga (háir) stýrivextir við á Íslandi í dag?
Pistill þessi er tilkominn sem viðbrögð við góðu uppleggi um vaxtamál sem Már Wolfgang Mixa ritar á bloggi sínu 25.5.2009. Már spyr þar hvort stýrivextir séu úrelt fyrirbæri sem standi í vegi fyrir vaxtalækkunum.
Í stuttu máli gæti svarið falist í eftirfarandi einfaldaða dæmi: EF framboð af sparnaði og eftirspurn eftir lánsfé væru látin ráða vaxtastigi, innlendur lánsfjármarkaður væri lokaður (eins og nú er með gjaldeyrishöftum) og gengisáhætta vegna erlendra lána þar með ekki með í dæminu, þá reynir ekki mikið á stýrivexti Seðlabankans. Málið snýst um hvort opið sé fyrir lánsfé inn í hagkerfið til banka og almennings, eða ekki. Ef hagkerfið (og lánsfjármarkaðurinn) er lokað og magn útlána banka þá alfarið háð innlánum eða sparnaði sparifjáreigenda og fyrirtækja, og vaxtastig látið ráðast af framboði sparifjár og eftirspurn eftir lánsfé þá spila stýrivextir Seðlabankans ekki stórt hlutverk. Í eðlilegum rekstri undir þeim forsendum myndu bankarnir þá ekki þurfa að notfæra sér lán í Seðlabankanum nema til að hlaupa undir bagga tímabundið hverju sinni með lausafé. Vaxtakostnaður banka vegna slíkra skyndilána í Seðlabankanum myndu þá ekki vega þungt í kostnaði þeirra. Þar liggur hundurinn (lánabólu)grafinn.
Dæmi um svona aðstæður að nokkru leyti er sparisjóður úti á landi sem var í sjónvarpsfréttum rúv s.l. vetur, sem ekki varð fyrir barðinu á bankahruninu vegna þess að hann hagaði sér eins og ábyrgur og varfærinn sparisjóður á sínu svæði: tók á móti sparnaði viðskiptavina og ávaxtaði hann með varfærinni útlánastefnu á starfssvæði sínu sem tók mið af arðsemi fjárfestingarvalkosta og greiðsluhæfi lántakenda.
Í stuttu máli vil ég benda á að við "eðlilegar" aðstæður ættu framboð og eftirspurn að ráða vaxtastigi á innlendum markaði, eins og hér hefur komið fram. Annað eru í reynd falskir vextir, m.ö.o. rangt kaupverð á afnotarétti lánsfjár séð frá sjónarhorni lántakenda og rangt söluverð á afnotum á sparnaði séð frá sjónarhorni lánveitenda/sparenda. Þetta verð, vextirnir, ættu ennfremur, ef eðlilegt er, að fara eftir endurgreiðsluhæfni lántakandans og/eða því hvernig lánsfénu er varið. Er því t.d. varið í fjárfestingar á eignum eða atvinnutækifærum sem væntanlega hækka að verðgildi eða bera góðan arð og stendur því væntanlega undir sér sjálft? Eða er lánsfénu varið í neyslu sem skapar lántakandanum ekki beint eignir né verðmæti sem gefa af sér beinan arð? Þá reynir á greiðsluhæfi lántakandans, s.s. núverandi og væntar tekjur og fyrirliggjandi eignir, þ.e. lánshæfi lántakandans.
Við þessar aðstæður, og ef í bili er ekki með í dæminu að bankakerfi og lánastofnanir landsins hafi aðgang að erlendu lánsfé, þá gæti vaxtastigið í reynd verið hvað sem er, háð eftirspurn og framboði, en myndi þó í reynd ráðast af viðhorfum aðila á þessum markaði til annarra hagrænna valkosta. Maður myndi ekki taka lán fyrir "óendanlega" háa vexti og fjármagnseigandi myndi varla lána fé sitt fyrir ekki neitt. Fyrr er hugað að öðrum leiðum í lífinu og fólk endurmetur t.d. óþolinmæði gagnvart eignamyndun.
Bankar og aðrir lánveitendur gætu ekki lánað út nema það sem nemur sparnaði almennings og fyrirtækja á hverjum tíma í hagkerfinu. Þeir yrðu eðli málsins samkvæmt að hafa útlánavexti sína einhverjum prósentustigum hærri en á innlánsvöxtum til að geta staðið undir rekstri sínum. (Sá vaxtamunur er hins vegar umdeildur og af mörgum talinn óþarflega hár hérlendis). Ef útlánahegðun banka og lánastofnana tæki alfarið mið af sparnaðinum með þessum hætti myndi ekki skipta máli þótt seðlabanki landsins (hér Seðlabanki Íslands) ákveði svokallaða stýrivexti sína með öðrum hætti og í ósamræmi við gildandi jafnvægisvexti samkvæmt ofangreindum aðstæðum á markaði í því augnamiði að hafa áhrif á vaxtastigið í umræddu hagkerfi. Þannig setur seðlabankinn ýmist háa stýrivexti (þ.e. hærri en ríkjandi jafnvægisvexti á markaðnum) í þeirri viðleitni að draga úr útlánum innan hagkerfisins eða lága stýrivexti til að örva atvinnulíf og fjárfestingar (og neyslu).
Slík inngrip myndu ekki hafa nein áhrif á lánsfjármarkaðinn í ofangreindu dæmi um lokað hagkerfi þar sem stýrivextirnir hafa ekki áhrif á magn lánsfjárins sem er í umferð. Að vísu þurfa bankar að geta aukið tímabundið lausafé sitt, svo sem í þeim tilvikum er sparifjáreigendur taka út fé sitt sem þá hefur verið bundið í útlánum á vegum bankans til ávöxtunar. Í þeim tilvikum þarf bankinn e.t.v. að leita til seðlabankans um tímabundið lán og það þarf hann að greiða fyrir með stýrivöxtum seðlabankans. Ef þeir eru hærri en ríkjandi útlánssvextir bankans til sinna viðskiptavina myndi bankinn tapa á því láni, en ekki ef stýrivextirnir eru lægri en útlánavextir bankans, til skamms tíma litið. Þetta er í lagi fyrir bankann ef ekki er mikið um að hann þurfi að grípa til þessa úrræðis og að meðaltali myndi vaxamunur bankans, munurinn á innlánsvöxtum og útlánsvöxtum hans, væntanlega vera sniðinn að teknu tilliti til þessa.
Hins vegar skapast vandamál ef bankinn í dæminu hagar útlánum sínum þannig að ekki verður eðlilegt jafnvægi á milli innlána og útlána hjá honum, þ.e. ef hann lánar út of mikið eða bindur of mikið fé þannig að hann þurfi viðvarandi að taka lán hjá seðlabankanum til að verða ekki uppiskroppa með lausafé (gjaldþrota). Þá væri bankinn orðinn háður seðlabankanum og þeim vöxtum sem þar bjóðast, þ.e. ef stýrivextirnir væru hærri en útlánavextir bankans (tekjur hans). Við þær aðstæður þarf bankinn að fara að taka tillit til stýrivaxtanna og hækka útlánsvexti sína með hliðsjón af þeim.
Þetta á vel að merkja við um lokaðan lánsfjármarkað þar sem ekki er um annað viðvarandi utanaðkomandi lánsfé að ræða fyrir innlenda bankakerfið, fyrir utan hinn innlenda sparnað. Þegar möguleikar opnast fyrir að erlent lánsfé flæði inn í hið fyrrum lokaða hagkerfi, þannig að magn lánsfjár eykst (mikið) og með lægri vöxtum en fyrir voru, þá skipta stýrivextir seðlabankans litlu máli. Þegar lokast skyndilega fyrir flæði erlends lánsfjár inn í hagkerfið þá verða innlendu bankarnir jafn skyndilega algjörlega háðir innlenda seðlabankanum og stýrivöxtum hans og vaxtastefnu. Þá virka stýrivextirnir svo sannarlega, en þá er skaðinn skeður. Lántakendur sitja þá uppi með erlend lán sem borga þarf af. Það sem verra er, er að ef innlendi seðlabankinn hefur ekki fyrirliggjandi fjármagn (gjaldeyrisvarasjóð), til að lána innlendu bönkunum til að standa skil á afborgunum á erlendu lánunum sem eru í gangi, þá kemur upp staða hliðstæð þeirri og varð við svokallað bankahrun á Íslandi um mánaðarmótin september og október 2008. Bankarnir verða gjaldþrota.
Í dæminu um hinn íslenska lánsfjármarkað undanfarin ár, er fyrirtækjum og almenningi bauðst að taka erlend lán á lágum vöxtum þá sáu þeir hinir sömu lántakendur ekki fyrir sér raunverulegan vaxtakostnað er þeir skrifuðu undir lántökuna. Þeir horfðu fyrst og fremst á hina girnilega lágu vaxtaprósentu á erlenda láninu en hugðu lítt eða ekki að því hvort gengið á íslensku krónuninni gæti veikst t.d. um meira en 100%! Ef þeir hefðu hugað að því sem líklegum möguleika og skoðað málið þannig að þeir væru að skrifa undir lán með yfir 100% vöxtum, jafnvel mörg hundruð prósent vöxtum, þá er ólíklegt að þeir hefðu tekið lánið.
Þar með beinast sjónir að genginu og spurningunni um það hvort það hafi í raun verið snarvitlaust á þessum tíma, eins og lítill kompás innan um stór segulstál. Það er ekki laust við það. Á þessum tíma voru einar mestu fjárfestingar Íslandssögunnar í gangi með tilheyrandi innflæði erlends fjármagns, þ.e. vegna virkjunarframkvæmda. Jafnhliða því var opnað fyrir lánveitingar íslensku bankanna til almennings vegna fasteignakaupa og tilheyrandi innflæði erlends fjármagns í tengslum við það. Eigendur hins erlenda fjármagns höfðu áhuga á því vegna þess að hér voru vextir miklu hærri en erlendis. Af einhverjum ástæðum fengu stjórnendur íslensku bankanna að skuldsetja sig upp á meira en tífalda upphæð landsframleiðslu Íslands óáreittir, en það er enn önnur saga.
Það er líka spurning út af fyrir sig hvers vegna hinir erlendu fjármagnseigendur, erlendu bankarnir, héldu áfram að lána hinum íslensku einkabönkum fé þrátt fyrir hina fáránlega háu skuldsetningu! Þeir með sína sérfræðinga gátu séð, eins og aðrir íslenskir embættismenn og sérfræðingar sem það skoðuðu og áttu að greina, í hvað stefndi. Erlendu aðilarnir tóku samt þá viðskiptalegu áhættu gagnvart einkabönkunum íslensku. Úr því að þau viðskipti þessara aðila gengu ekki getum við spurt á hvaða forsendum aðrir en þeir viðskiptaaðilar, erlendu bankarnir og þrotabú íslensku bankanna, ættu að koma að því uppgjöri. Gerendur í þeim viðskiptum voru íslensku bankarnir (bankaráðin) og hinir erlendu lánveitendur. Ekki íslenskir skattgreiðendur.
PS. Ef þær aðstæður skapast að enginn vill taka lán gæti fjármagnseigandinn jafnvel þurft að greiða einhverjum fyrir að geyma fjármagnið ef engir fýsilegir fjárfestingarvalkostir bjóðast honum. Það er önnur saga og tek ég það fyrir í öðrum sérstökum pistli.
Viðskipti og fjármál | Breytt 19.8.2009 kl. 12:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.4.2009 | 12:43
Hver GRÆÐIR á Ranglátu VaxtaOKRI á Fjölskyldum og Fyrirtækjum?
Undanfarið hafa almenningur og fyrirtæki með yfirdráttarlán ásamt öðrum lánum verið að sligast undan vaxtaokrinu sem hér er við lýði, en það eru einmitt þeir aðilar sem létta þarf hvað mest á til að auka líkur á að þeir komist af!
Samtímis njóta innistæðueigendur og aðrir fjármagnseigendur hárra inneignarvaxta sem aldrei fyrr, þ.e. þeir einstaklingar og lögaðilar sem væntanlega þola hið slæma efnahagsástand skást!
Hér virðist því að verið sé að láta almenna skuldara, þar á meðal atvinnulausa og allt atvinnulíf landsins, blæða á óréttlátum forsendum.
Talsmenn ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans, sem eru lítt öfundsverð milli steins og sleggju, benda á að verið sé að fara eftir ráðleggingum og tilmælum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (AGS). Rök AGS á sínum tíma voru þau að hinir háu stýrivextir væru til þess að styðja við gengi krónunnar.
Núverandi gjaldeyrishöft sjá þó til þess með afgerandi hætti og þess vegna þarf ekki líka að halda vöxtunum háum til þess arna.
Hvað veldur því að það er samt gert undir núverandi kringumstæðum?
Jöklabréfunum svokölluðu er haldið föstum hérlendis með gjaldeyrishöftum. Þau fara því ekki úr landi þótt vextir væru lækkaðir hressilega og gengið veikist ekki þess vegna á meðan.
Vaxtabyrði landsins vegna þeirra myndi hins vegar augljóslega léttast tilsvarandi hressilega um leið, eins og bent hefur verið á í umræðunni.
Einnig myndi vaxtaklafi hart leikinna yfirdráttarlánaskuldara léttast með væntri tilsvarandi lækkun yfirdráttarvaxta, bæði almennings og fyrirtækja.
Þrýstingur á hækkanir vöruverðs vegna fjármagnskostnaðar myndi þar af leiðandi minnka.
- Þetta er augljóst!
Hvers vegna heldur vaxtaokrið samt áfram?