Færsluflokkur: Vísindi og fræði
28.1.2015 | 10:41
Matarvenjur mannkyns
Á hverju halda menn og sérfræðingar á þessu sviði að börn og ungabörn hafi lifað á árdögum mannkyns og undangengnum áratugaþúsundum? Seríós, kókópöffs eða nestle-barnamat, vítamínspillum og gerilsneyddum mjólkurvörum?!
Ætli það hafi ekki verið það sem handbært var á hverjum stað og tímaskeiði auk móðurmjólkunnar. Það framleiddi, ásamt náttúru og erfðavali og félagslegum þáttum, bókstaflega þann mannslíkama sem við höfum í dag. Hvernig væri að horfa betur til þessara og slíkra þátta og draga af því ályktanir í stað þess að einblína einvörðungu á atriði í nánustu fortíð núverandi kynslóðar?
Börnin mega aftur borða allt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2013 | 13:21
Einfalt og skilvirkt veiðigjald
Ég hef bent á það sjónarmið að ein einfaldasta aðferð við skattlagningu á nýtingu sjávarauðlindar landsmanna sé að leggja á tiltekið krónugjald á hvert aflakíló. Þessi aðferð er gagnsæ og skilvirk og auðveld í framkvæmd og eftirliti.
Auk þess er slík aðferð í anda fiskihagfræði varðandi það að stuðla að hagkvæmni í útgerð (sbr. t.d. tengdar ábendingar og greiningar H. Scott Gordon, Anthony Scott og Nóbelsverðlaunahafans Vernon L. Smith, nokkurra frumkvöðla innan fiskihagfræði upp úr miðri 20. öld). Kílógjaldið gæti einnig verið mismunandi hátt eftir fisktegundum og/eða flokkum og stærðum fiskiskipa og báta, en í því fælist viðleitni til stjórnunar á samsetningu fiskiskipaflotans m.t.t. þjóðhagslegrar hagkvæmni og fleiri þátta.
Sú stefna að tengja veiðigjald við afkomu útvegsfyrirtækjanna eins og núverandi lög gera ráð fyrir er óhagkvæm, ógegnsæ, seinvirk og ónákvæm, matskennd og kostnaðarsöm aðferð og býður upp á undanbrögð af hálfu útgerðaraðila. Hún stuðlar vegna þess arna heldur ekki að hagkvæmustu samsetningu fiskiskipaflotans. Hún gerir stjórnvöldum jafnframt erfitt um vik að áætla árlegar tekjur ríkisins af veiðigjaldinu.
Þess utan er að mörgu að hyggja varðandi fiskveiðistjórnun, kerfislegar útfærslur og lög í því sambandi.
Vel hægt að leysa málin með vilja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.6.2013 | 18:12
Verðteygni og virðisaukaskattur í ferðaþjónustunni
Það mætti halda að fyrrverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sé ekki meðvitaður um það hagfræðilega fyrirbæri sem kallast teygni eftirspurnar og verðteygni ef dæma má af ummælum hans í viðhangandi fréttaviðtali um áhrifin af lækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónusu á Íslandi; Enda er það e.t.v. ekki til umfjöllunar í námi jarðfræðinga. - Eða þá að hann og þeir sem eru sama sinnis telji að eftirspurnin eftir ferðaþjónustu á Íslandi sé almennt "óteygin" (lægri en 1, sbr. neðar).
Varðandi umræðu um áform um lækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu á Íslandi er vert að benda stuttlega á eftirfarandi almennu atriði um teygni eftirspurnar:
Hugmyndin að baki verðlækkunar snýst um það að með því náist hærri velta vegna meiri magnsölu en ella.
Sé verðteygni vöru meiri en 1 myndi sölumagn vöru aukast hlutfallslega meira en sem nemur tiltekinni verðlækkun og veltan myndi þá aukast. Það á t.d. við um samkeppnisvörur og þar sem ríkir "fullkomin samkeppni".
Sé verðteygni vöru minni en 1 myndi sölumagn aukast hlutfallslega minna en tiltekin verðlækkun á vörunni og veltan því minnka, en aftur á móti myndi sölumagn þá ekki minnka hlutfallslega jafn mikið og tiltekin verðhækkun. Þetta á t.d. við um vörur sem fólk vill ógjarnan vera án á tilteknu verðbili og tímabili, svo sem tóbak og áfengi. Verðhækkun ríkisins á tóbaki og áfengi byggir m.a. á þeirri forsendu að velta muni þrátt fyrir það aukast, þ.e. að magnsalan minnki hlutfallslega minna en verðhækkuninni nemur (eftirspurnin óteygin).
Ferðaþjónustan á Íslandi býður almennt séð upp á þjónustu sem er í harðri alþjóðlegri samkeppni við hliðstæða þjónustu í öðrum löndum sem bjóða upp á valkosti fyrir ferðafólk.
Skynsemin í og rök að baki almennrar verðlækkunar á ferðaþjónustu, eins og tilfellið er með lækkun virðisaukaskatts innan þeirrar greinar, byggir því á þeirri forsendu að eftirspurnin eftir henni sé teygin, þ.e. verðteygnin hærri en 1, og að veltan og afraksturinn innan hennar (þar með talið tekjur hins opinbera í formi vsk) muni því ekki minnka við vsk-lækkunina heldur þvert á móti aukast.
PS. Formúlan fyrir útreikning á teygni eftirspurnar (e) er:
e = Hlutfallsleg breyting í magni eftirspurnar
Hlutfallsleg breyting á verði
Skuldarar fá leiðréttingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.7.2012 | 00:23
Guðseindin og "sköpun úr engu"
Hinir fornu gnóstíkear (e. gnostics) voru inni á því fyrirbæri sem þessu tengist, þ.e. "sköpun úr engu". Að vísu álitu þeir að sköpunin væri ekki úr "engu" heldur kæmi til og gerðist með ákveðnum hætti. Þeir voru þar greinilega inni á því fyrirbæri sem tengjast kenningum skammtafræði í dag um það að "efni" getur birst ýmist sem eindir (e. particles) eða tíðni (e. vibration).
Ég skoðaði þessi geysilega áhugaverðu og athyglisverðu gnóstísku fræði og tengdar mýtur í tengslum við lokaritgerð mína í guðfræði, Um huglægan sköpunarmátt að fornu og nýju, en ég fer nú ekki nánar út í þá dularfullu sálma hér! Þetta var fyrir innvígða til forna og því leynilegt.
(Hint: Þessar upplýsingar/kenningar voru settar fram af gnóstíkeum í formi mýtu að stofni til sem mönnum hefur reynst erfitt að túlka, eðli málsins samkvæmt).
Kenning kristinnar kirkju um "sköpun úr engu" á rætur að rekja til þessara gnóstísku hugmynda þótt því sé nú ekki flíkað í þeim ranni. Það finnst mér bagalegt þar sem þær varpa "skiljanlegu" ljósi á kenninguna og reyndar jafnframt aðra grundvallarkenningu kristninnar, Þrenningarkenninguna.
Vísbendingar um tilvist Guðseindarinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.4.2012 | 13:01
Grunnhyggin ályktun
Fagnandi ályktun bæjarfulltrúa Samfylkingar í Reykjanesbæ um frumvörp ríkisstjórnarinnar um stjórn fiskveiða og veiðigjöld virðist vægast sagt afar grunnhyggin og byggja á blindri trú fremur en þekkingu á grundvelli viðeigandi upplýsingaöflunar.
Þar er einungis horft til væntra tekna af veiðigjaldi og kvótaþingi samkvæmt frumvarpsdrögum um stjórnun fiskveiða og veiðigjald.
Þar er ekki hugað að forsendum fyrir útreikningi umrædds veiðigjalds og raunhæfum möguleikum útgerðarinnar til að standa undir því ásamt greiðslubyrði af núverandi skuldbindingum hennar auk raunverulegs rekstrarkosnaðar á hverjum tíma.
Veiðigjaldsfrumvarpið og greinargerð með því ber þess ekki merki að hugmyndasmiðir þess séu meðvitaðir um grundvallaratriði fiskihagfræði að því er varðar myndun auðlindarentu við nýtingu fiskiauðlindarinnar og hámörkun hennar út frá þjóðhagslegu sjónarmiði og sjálfbærni ("bionomic equilibrium"). Ef svo væri hefðu tillögurnar verið útfærðar með öðrum hætti og þar af leiðandi verið með aðrar niðurstöður.
Að því leyti er hægt að taka undir ábendingar og gagnrýni Ragnars Árnasonar prófessors í fiskihagfræði um frumvarpið (sbr. viðtal við hann í Morgunblaðinu í dag 18.4.2012 s. 12 (að hluta, en það er annað mál)).
Til dæmis má benda á að í aðferðum við útreikning á veiðigjaldsstofni er ekki miðað við raunverulegan fjármagnskostnað og afskriftir á hverjum (og fyrirsjáanlegum) tíma, heldur áætlaðan eða reiknaðan heildar-fjármunakostnað til lengri tíma litið sem innihaldi bæði ávöxtunarkröfu eigenda og notkun/fyrningu rekstrarfjármuna; Þar er sagt miðað við uppgjörsaðferðir Hagstofu Íslands í því sambandi þar sem lagt er mat á afkomu útgerðarinnar, en þær aðferðir byggja á áætluðum fjármagns- eða ávöxtunarkostnaði að hluta til.
Það ætti að gefa augaleið að slíkir útreikningar gefa allt aðrar niðurstöður um hagnað í útgerðinni en raunverulegur árlegur heildarkostnaður útgerðarinnar á hverjum tíma. Ekki er hægt að horfa fram hjá núverandi og fyrirliggjandi aðstæðum í atvinnugreininni og fjármögnun hennar; Enda hafa margir aðilar, sem tjáð hafa sig um frumvarpið, þegar bent á það atriði.
Útgerð og fiskvinnsla eflast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2012 | 16:35
Náttúruleg og manngerð eyðingaröfl
Sú spurning verðu sífellt áleitnari við fréttir af pólitískri þöggun eins og þeirri sem hér um ræðir,
auk þeirrar sem á sér stað varðandi þverrandi auðlindir jarðar og versnandi lífsskilyrði sökum hitnunar í lífhvolfinu og lífshættulegra afleiðinga hennar, sem og hnattrænnar mengunar,
hvort það sé ekkert nema mengun, náttúruhamfarir og súrefnisskortur í lífhvolfi jarðar sökum afleiðinga loftslagsbreytinga sem geti þaggað niður í órökstuddum áróðri andstæðinga þeirra vísindamanna sem vara við hættunni.
Ef svo fer getur sérhagsmunagæsla viðkomandi manngerðu eyðingarafla ekkert gert lengur til að bjarga fólkinu þar að baki né öðrum íbúum jarðar. Hversu lengi á blekkingin að líðast?
Íhaldsmenn stöðvuðu kafla um loftslagsbreytingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.1.2012 | 14:58
Andlegri getu opinberra starfsmanna hrakar - í Bretlandi
Takið eftir því að niðurstaða umræddrar rannsóknar um að andlegri getu fólks hraki eftir fertugt á einungis við um opinbera starfsmenn.
Fram kemur að rannsóknin hafi einungis tekið til opinberra starfsmanna en ekki annarra, svo sem hugsandi fólks í lífsbaráttu, frumkvöðla, einstaklinga með eiginn rekstur, verktaka og fólk almennt í einkageiranum sem er ennþá meirihluti starfandi fólks í þjóðfélaginu, listamenn og aðra hugvitsmenn sem þurfa að beita hugarafli sínu sér til uppihalds og til að komast af.
Af rannsókninni er ekki hægt að álykta að öðrum en opinberum starfsmönnum hraki andlega með hækkandi aldri eftir fertugt. Til þess þarf meiri rannsóknir.
Hitt er annað að aðrar rannsóknir hafa leitt líkur að því að eitt af því mikilvægasta sem hægt sé að gera til að seinka "eðlilegri" ellihrörnun (aldraðs) fólks andlega séð sé að halda huga þess sem mest uppteknum, t.d. með samtölum og upprifjun gamalla minninga með fjölskyldunni og hvers kyns andlegri iðju og fyrirhöfn.
Ef til vill vantar eitthvað á að huga opinberra starfsmanna í Bretlandi sé séð fyrir nægilega mikilli iðju og hugarstarfsemi við þau störf sem þeir eiga að sinna fyrir þjóðfélagið; Að það gæti e.t.v. verið hluti skýringar á báglegu ástandi starfsmannanna.
Eðlileg spurning er þá hvort þessi kvilli fyrirfinnist meðal opinberra starfsmanna í fleiri löndum þar sem þannig kann að hátta til.
Gæti t.d. aðgerðaleysi, sinnuleysi og þögn opinberra starfsmanna varðandi skilgreind hlutverk sín, þar sem slíkt kemur í ljós, verið vísbending um það?
Andlegri getu hrakar eftir fertugt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.12.2011 | 13:19
Skipulegt einelti á sviði túlkandi vísinda?
Frásögn í Morgunblaðinu 4.12.2011, s. 18-21, af málsatvikum í sambandi við ákærur og framkomu meðlima félagsskaparins Vantrúar gagnvart Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara við guðfræði- og trúarbragðafræðadeildar HÍ er með ólíkindum. Frásögn af orðbragði sem Vantrúarmenn eru sagðir hafa viðhaft vekur viðbjóð og forundran. Að þetta skuli að hluta til vera háskólamenntaðir menn og kennarar við HÍ í þokkabót gerir mál þetta enn hneykslanlegra. Svo virðist sem eitt af yfirlýstum markmiðum Vantrúarmanna hafi verið að leggja Bjarna "í einelti" með skipulegum hætti; Jafnvel hafi komið til tals að gera það gagnvart öðrum áberandi einstaklingi (s. 20), ungum og nýútskrifuðum guðfræðingi, sem er þó þessu máli óviðkomandi. Í frásögn Mbl. er þarna vitnað í umræður á innri vef Vantrúar. Hvað er eiginlega hér á seyði?
Siðanefnd HÍ virðist hafa tekið stórfurðulega á málinu og ekki verið hlutlaus, að því er virðist vegna persónulegra skoðana einhvers eða einhverra nefndarmeðlima. Formaður nefndarinnar hafi þannig m.a. "lekið" upplýsingum í Vantrúarmenn "um framgang málsins og um afstöðu hinna nefndarmanna" (s. 20). Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður, sem Bjarni fékk sér til varnar í málinu, komst svo að orði um meðferð nefndarinnar á málinu að hann hefði "aldrei séð svona illa haldið á málum eins og í þessu tilviki".
Í kjölfar sakfellandi sáttatillögu siðanefndar til guðfræði- og trúarbragðafræðideildar (á tíðum virðist óljóst hvort sakborningurinn sé deildin eða Bjarni), þegar hún spurðist út innan háskólans, tjáði hópur kennara og doktorsnema við HÍ sig um meðhöndlun siðanefndar og skrifuðu undir ályktun "þar sem vinnubrögð siðanefndarinnar eru gagnrýnd" og áréttuðu "... mikilvægi þess að Háskóli Íslands standi vörð um rannsóknarfrelsi kennara ...". Þá sagði formaður siðanefndarinnar af sér (s. 19). Eftir formannsskipti og stækkun nefndarinnar um tvo er hún samt enn neikvæð í garð Bjarna, en er sögð hafa átt erfitt með að átta sig á fyrir hvað Bjarni er kærður.
Á seinni stigum málsins tjáir forseti hugvísindasviðs, Ástráður Eysteinsson, sig um málið og bendir m.a. á að háð niðurstöðu siðanefndar geti málið snúist upp í að varða "okkur öll sem sinnum kennslu í túlkunarvísindum á háskólastigi" (s. 20).
Rannsóknarnefnd, sem loks var skipuð af hálfu Háskólaráðs, komst síðan að þeirri niðurstöðu að "siðanefnd HÍ hafi sniðgengið eigin starfsreglur sem tilgreindar eru í siðareglum háskólans" og bendir á ýmsa ágalla í málsmeðferð hennar (s. 20).
Það sætir engri furðu að rektor HÍ skuli segja aðspurð um málið að það sé "flókið", en hitt þarf meiri útskýringa við er rektor telur að nefndin hafi starfað "í góðri trú og viljað leita sátta þannig að enginn teldi á sig hallað" (sbr. Morgunblaðið 6.12.2011, s. 9).
Frásögn Morgunblaðsins um kærumálið og eineltið gegn Bjarna sem viðgengist hefur m.a. af kennurum innan HÍ, að því er virðist m.a. vegna persónulegrar lífsskoðunar þeirra sjálfra, lýsir öðrum þræði skoðanakúgun og -ofbeldi innan HÍ og brotalöm í umsýslukerfi háskólans við að taka á slíkum málum af hlutleysi og réttsýni. Þetta mál er með "endemis endemum". Maður spyr sig hvernig svona lagað getur eiginlega gerst og hvort það geti gerst aftur. Þótt rektor HÍ, sem er raunvísindamaður, tilgreini ekki neitt athugunarvert við þetta mál annað en að það hafi "kennt okkur að málsmeðferðarreglur verða að vera skýrar og ferli mála gagnsætt", þá er vonandi að Bjarni fái réttlátar úrbætur vegna þess sem hann hefur mátt þola og kosta til við að verja mannorð sitt og starfsheiður. Einnig að komið verði í veg fyrir að svona mál endurtaki sig.
Uppkoma þessa máls beinir kastljósinu einnig að forsendum kennslu á sviði túlkandi vísinda í háskólum, eins og forseti hugvísindasviðs HÍ benti á. Mun það viðgangast að beita þöggun á einhvern hátt og að vegið sé að rannsóknarfrelsi? Þar er ekki aðeins um að ræða trúarbragðafræði heldur allar greinar hugvísinda.
Hvað til dæmis um kenningar um að landnám á Íslandi sé mun eldra en gamla Íslandssagan kennir? Hvað um hinar goðum líku persónur Gunnar og Njál? Er aðild að Evrópusambandinu slæmur kostur? Eru sumar hagfræðikenningar í ætt við trúarbrögð? Voru sumar hugmyndir Freuds bull? Verður bókvitið í askana látið? Eða, eru askar ef til vill búnir til með hugviti og þekkingu, sem og maturinn sem í askana er látinn? Og svo framvegis!
Það er ekki furða, sem greint er frá í Mbl. (s. 9), að Höskuldur Þórhallsson Alþingismaður skuli sjá ástæðu til þess, eftir að hann las frásögnina í Mbl., að taka málið upp á Alþingi og að kannað verði "hvað hafi gerst innan Háskólans".
Vill að HÍ bæti mannorðstjón og kostnað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.11.2011 | 23:31
"Verði ljós!"
Bjuggu til ljós úr engu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.1.2011 | 00:52
Upplýsing háskólakennara
Ég hef áður í spurn eftir umræðu háskólakennara og viðkomandi embættismanna í bloggi og dagblöðum, um t.d. efnahagsmál landsins, velt fyrir mér hvort þögn þeirra um slík mál stafi af hræðslu þeirra við að tjá sig á opinberum vettvangi af einhverjum ástæðum. Það er afleit staða. Svona á standandi fæti koma mér einungis tveir háskólaprófessorar í hug sem hafa verið áberandi og duglegir við að viðra skoðanir sínar um landsmálin á opinberum ritvangi, hvor með sína hugmyndafræði og túlkanir að vopni. Hvað eru allir hinir að hugsa?!
Almenningur á það skilið að t.d. háskólakennarar og ekki síst fólk með doktorsgráðu marki sér tíma til að rita á skiljanlegu máli á grunni menntunar sinnar um mál sem eru ofarlega á baugi hverju sinni og leitist með því að varpa fræðilegu ljósi á umræðuna og vega og meta hina margvíslegu fleti sem iðulega eru á hverju máli á grundvelli fræða sinna.
Ég óska Bryndísi Hlöðversdóttur, hinum nýja rektor Háskólans á Bifröst, til hamingu og farsældar í brautryðjandi starfi. Hún virðist samkvæmt meðfylgjandi frétt drepa tilhlýðilega á þetta mikilvæga atriði í innsetningarræðu sinni og eru slík hvatningarorð skólayfirvalda með svo áberandi hætti löngu tímabær. Hún setur hér gott fordæmi fyrir kollega sína.
Í þessu sambandi vil ég minna "þögula" háskóladoktora og -kennara á grundvallarrit um rétt opinberra starfsmanna til að tjá sig sem sérfræðingar utan starfs síns, þ.e. ekki sem embættismenn, heldur sem einstaklingar. Það er ritgerðin "Svar við spurningunni: Hvað er upplýsing?" eftir Immanuel Kant (1724-1804), sem hann samdi í einveldisríkinu Prússlandi 1784. Ritið er til á íslensku og var birt í Skírni nr. 167, 1993, s. 379-386. Kant segir þar í upphafi greinar sinnar:
"Upplýsing er lausn mannsins úr viðjum þess ósjálfræðis sem hann á sjálfur sök á. Ósjálfræði er vanhæfni mannsins til að nota eigið rökvit án handleiðslu annarra. Maðurinn á sjálfur sök á þessu ósjálfræði þegar orsökin er ekki skortur á hyggjuviti heldur vöntun á einurð og hugrekki til að nota hyggjuvit sitt án handleiðslu annarra. Einkunnarorð upplýsingarinnar eru því "Sapere aude!", hafðu hugrekki til að nota þitt eigið hyggjuvit!".
Takið því til máls góðir heilar! Þið hafið fullan rétt á því og eigið ekki að þurfa að óttast einhverjar refsingar af yfirmönnum.
Hvað segið þið um t.d. kosti og galla aðildar Íslands að ESB, samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, og forsendur fyrir nýjum áherslum í menntunar- og atvinnumálum, og orku- og auðlindamálum Íslands svo fáein mikilvæg umræðusvið séu nefnd? Hverjar eru líklegar afleiðingar mismunandi valkosta á þessum sviðum?
Háskólafólk óttist ekki að tjá sig | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)