Færsluflokkur: Tónlist

Takk fyrir tónlist Bítlanna

Gleðilegt ár. Það er við hæfi að hefja blogg á nýju ári með athugasemdum um gleðiefni.

Ég vil benda fólki á að hljómsveitin The Beatles átti hvorki meira né minna en 27 lög númer eitt, efst, á helstu vinsældalistum tónlistar í Bretlandi (Reord Retailer) og Bandaríkjunum (Billboard), sbr. plötuhulstur á geisladisknum The Beatles 1, útg. 2000. Geri aðrir betur!!!
Hvað segir það um gæði laganna, útsetningar og flutning, en fyrst og fremst að öllu samantöldu skemmtigildi að mati almennra hlustenda í þessum löndum og þótt víðar væri leitað um heim allan?
Þessi lög og flest önnur með Bítlunum hafa þannig fallið gjörsamlega að tónlistarsmekk meirihluta hlustenda er þau voru gefin út og þar í framhaldi.

Hverjir komast ekki í gott skap og hverjum líður ekki betur á einhvern hátt við að hlusta á t.d. þessi vinsælustu lög Bítlanna? 

Mér sýnist að þeir tónlistarsérvitringar sem hafa tónlistarsmekk í algjörri andstöðu við almenna hlustendur og ofangreinda vinsældalista og tjá sig í þá veru (sbr. nokkrar athugasemdir á bloggi Ómars Ragnarssonar um þessa frétt) megi telja í hópi með hinum mistæka tónlistarspekúlanti Decca sem kom ekki auga á það sem fólst í Bítlunum. Þetta er þeirra persónulega álit og smekkur og sitja þeir uppi með það.

Sem betur fer hafði snillingurinn George Martin upptökustjóri Parlophone og Brian Epstein umboðsmaður, sem "uppgötvuðu" Bítlana eftir að þeir komu bónleiðir en bjartsýnir frá Decca, annan tónlistarsmekk og sem var/er í meira samræmi við vinsældalíkur tónlistar og flytjenda meðal almennings.

Aðdáendur Bítlanna og ómetanlegrar og óviðjafnanlegrar tónlistar þeirra um framtíð alla eru þeim vægast sagt afar þakklátir.


mbl.is „Maðurinn sem hafnaði Bítlunum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfélagsmeðvitaðar stjörnur

Þetta er eitt af því frábæra við Bítlana, fyrir utan tónlist þeirra. Á miðjum ferlinum (kringum 1965) eru þeir orðnir sér vel meðvitaðir um áhrifamátt sinn. Þeir ná til fólks á heimsvísu með verkfærum sínum, hrífandi tónlistinni og mannbætandi og -frelsandi viðhorfum í hnyttnum textum.

Í stað texta um "hvolpaást", eins og Bítlafræðarinn Ingólfur Margeirsson kallaði texta fyrstu ára Bítlanna í frábærum útvarpsþáttum á RÚV, fóru að koma textar með mikilvægum fullyrðingum um samfélagið (sbr. Bítlarnir: Sagan ótrúlega. Mark Hertsgaard, Iðunn 1995, s. 135).

Hér hafa þeir greinilega beint kastljósi sínu að aðskilnaðarstefnu kynþátta sem enn var útbreidd í Bandaríkjunum og víða um heim á þessum árum og með því móti vakið athygli á henni svo eftir var tekið og í henni pælt.
Þetta er um þremur árum áður en King heldur hina eftirminnilegu ræðu sína um draum sinn um lausn fólks úr álögum samborgara sinna.


mbl.is Bítlasamningur á 2,6 milljónir króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjarnakona talar - Og með Lennon og Ingólfi á Rás eitt

Kjarnakonan og Íslandsvinurinn Yoko Ono bendir hér hinum kjarnorkuvædda heimi á dæmi þar sem Ísland og ráðsmenn þess og ábúendur geti verið gott fordæmi á jákvæðan hátt, en væntanlega ef skynsamlega er að verki staðið. Hafi hún þakkir fyrir það.

Það er mikið gleðiefni að nú skuli vera hafin útsending á þáttum Ingólfs Margeirssonar heitins og Bítlaaðdáanda á Rás 1 í Ríkisútvarpinu um tónlist og texta og boðskap bónda hennar og fyrrverandi Bítils, John Lennon. Þar fjallar Ingólfur um feril Lennons eftir að Bítlarnir hættu saman sem hljómsveit um 1970 og hann fór á vit örlaga sinna vestur um haf með konu sinni og sálufélaga, Yoko. Þar fléttast inn í þáttur hennar og sameiginleg og ódauðleg og hughraust barátta þeirra beggja fyrir friði í heiminum. Þá, ekki síður en nú, var á brattann að sækja í þeim efnum.

Ímyndið ykkur hina djúpu visku um forsendur friðar sem kemur fram í lagi hans Imagine. "Hugsa sér frið"!, eins og Þórarinn Eldjárn túlkaði inntak textans í tengslum við friðarsúluna í Viðey.


mbl.is Hvetur Japani til að horfa til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðulegt við fyrstu sýn! - Og hlustun?

Manni, sem hefur vit á gæðum hljómburðar tónlistarhúsa, er vísað á dyr af hörku úr Hörpu við fyrstu formlegu hljóðprufu Sinfóníuhljómsveitarinnar þar; Tónlistarhúsi allra landsmanna! Hvað er hér á seyði?
Ég sé ekki betur en að þetta sé í ofanálag einn af sérfræðingunum í sígildri tónlist sem stóð sig frábærlega vel og gat sér og Íslandi gott orð í hinum frábæra sjónvarpsþætti Kontrapunkti Norðurlanda hér um árið.
Það hlýtur að vera ofboðslega góð ástæða hjá tónlistarstjóra Hörpu að neita Ríkharði um að vera viðstaddur, en hver hún er verður fróðlegt að heyra.
Vonandi er ekki hætta á að eitthvað hafi klúðrast í innréttingum tónlistarsala hússins eins og í útréttingum þess!
En, hvað um það. Spennandi er að heyra hvernig hljómburðurinn reynist vera á opnunartónleikunum.

PS. Nokkru síðar eftir birtingu þessarar smellnu "stórfréttar" á mbl.is kom viðbótar frétt með þeirri útskýringu á útkastinu að það hafi verið til komið sökum krafna frá erlenda fyrirtækinu sem hannaði hljómburð hússins. Þetta hafi aðeins verið hljóðprufa til að "stilla salinn", ekki til að gera hljómburðarlega úttekt á honum. Í viðbótarfréttinni segir m.a.:

"Steinunn [tónlistarstjórinn] segir að öllum fjölmiðlum hafi verið vísað burt þegar hljóðprufan hófst, ekki bara gagnrýnendum."

Þar höfum við það! Furðulega að PR-málum tónlistarhússins staðið? Það gæti hljómað þannig. Þarf e.t.v. fínstillingu!


mbl.is Vísað úr Hörpu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einsleitt tónlistarofríki útvarpsstöðva

Ég tek heilshugar undir með Jóhanni G. Jóhannssyni, hinum dugmikla og færa tónlistarmanni og lagahöfundi, þar sem hann segir um álit sitt á einhæfri tónlistar- og spilunarstefnu á Bylgjunni, 365:

"Þetta fyrirkomulag hefur stuðlað að einhæfu tónlistarvali, sérstaklega á nýrri íslenskri tónlist, ásamt ofspilun ákveðinna laga sem á endanum gengur af þeim dauðum. Ég fullyrði að þetta fælir burt tónlistarunnendur sem hafa annað viðhorf til tónlistar en að hún sé uppfyllingarefni á milli auglýsinga. Tónlistarmenn hafa lengi verið ósáttir við hvernig þessum málum er háttað á Bylgjunni, þó það hafi ekki farið mjög hátt, enda ekki gott að fá tónlistarráðið upp á móti sér."

Hin einhæfa tónlistarstefna á Bylgjunni, sem lýsir sér m.a. í tiltölulega þröngu vali íslenskra tónlistarmanna, er pirrandi og umfram allt það leiðigjörn til lengdar að maður hlustar ekki á Bylgjuna. Þessi stefna ætti fyrir löngu að hafa kafsiglt Bylgjuna fjárhagslega séð ef allt væri með eðlilegum hætti, skyldi maður ætla. En, það er endalaust "dokað við" hið gamalkunna, ofspilaða og væmna.
Það er svo sem allt í lagi út af fyrir sig, þar sem útvarpsstöðin ræður vissulega lagavali sínu, Guði sé lof fyrir tjáningarfrelsið! Stöðin gerir greinilega út á meintan hóp hugsanlegra áheyrenda sem líkar það lagaval. Virðist stöðin jafnframt telja að sá hópur sé tónlistarlega séð staðnaður og vilji ekkert annað og tekur af honum það ómak að þurfa að ákveða að prófa eitthvað nýtt og þroska smekk sinn. En, svar óánægðra hlustenda, sem vita af fjölbreyttri tónlist annars staðar, er einfalt. Þetta er því ekkert vandamál ef framboð á útvarpsstöðvum er nægilegt. Þar stendur hnífurinn þó í kúnni.

Ábendingum Jóhanns G. til Bylgjunnar/365-miðla ætti hins vegar að vera tekið fagnandi þar á þeim bæ þar sem þau sjónarmið sem hann viðrar henta umfram allt til þess að auka líkur á hlustun á hinni oft á tíðum væmnu Bylgju með útvíkkuðum sjóndeildarhring.

Hitt er annað, að dagskrárgerðarmenn á RÚV ættu líka að hugsa sinn gang í þessu sambandi, þar sem allt of oft ber á einsleitri spilun þar líka. Sumir gamalgrónir tónlistarmenn sem mega muna sinn fífil fegri og frumlegri virðast eiga þar endalausa heimkomu og spilun á hverju sem gengur í tímans rás, meðan aragrúi nýrra listamanna með fersk lög og flutning eiga ekki upp á tónlistarborðið þar, hvað þá plötuspilarann.
Það mun koma að því að þessa tónlistarmenn bresti langlundargeð, undirlægjuhátt og minnimáttarkennd og krefjist þess að almennri jafnræðisreglu verði beitt á þessu sviði og allir sitji við sama borð varðandi möguleika á spilun í útvarpi allra landsmanna.


mbl.is Bannar Bylgjunni að spila lög sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við ætlum að vinna

Eitt sinn hugleiddi ég það í sambandi við þátttöku íslenska handboltaliðsins í fjölþjóðlegri keppni í Evrópu að ekki væri nóg að ætla að "gera sitt besta", eins og tönnlast er á í vinsælu lagi.
Slík yfirlýsing felur nefnilega einnig í sér afsökun fyrir tapi ef illa fer.

Það sem þarf til að höndla réttan og markvissan vinningsanda og -vilja er einbeittur ásetningur um að vinna sigra. Menn þurfa því að gera það upp við sig og setja sér það mark að ætla að vinna, en ekki "bara" að "gera sitt besta". Slíkt viðhorf á náttúrulega við um hvaða fyrirtæki, uppátæki eða áætlun sem er. Hér er hins vegar ekki verið að viðra hroka.
Þessar pælingar urðu mér að yrkisefni og gerði ég texta við eigið lag um baráttuanda liðsheildar eins og íslenska handboltaliðsins í keppni eins og HM.

"Einka"-útgáfu af laginu er að finna hér á tónlistarspilaranum mínum.
Nafn þess er að sjálfsögðu "Við ætlum að vinna", en það er einnig að finna í sömu útsetningu á rafrænni útgáfu af "plötu" minni Lífsins gangur, sem ég setti á gogoyoko-tónlistarvefinn 2009.

Slóðin á lagasafn mitt á gogoyoko er hér:

http://www.gogoyoko.com/#/artist/KrisJons

Við landslið okkar í handbolta segi ég: Til hamingju með sigrana og baráttuandann. Sú kveðja nær einnig til fjölskyldna þeirra og vina sem að baki búa!


mbl.is Ekkert annað en sigur gegn Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

John Lennon skrifar í skýin

Bókin Skywriting by Word of Mouth eftir John Lennon inniheldur efni sem hann skrifaði eftir hendinni þegar andinn blés honum það í brjóst, aðallega á áttunda áratug 20. aldar eftir að hljómsveit þeirra Bítlanna, The Beatles, hætti.
Í bókinni eru alls kyns athugasemdir Lennons um menn og málefni og samskipti hans við umheiminn, smásögur, dæmisögur og pælingar, sem oft eru kaldhæðnislegar og hnittnar í dæmigerðum “Lennon-anda”.
Á einum stað ræðir hann um listræna andagift og heldur því fram að miklir andans menn eins og Albert Einstein, Pýþagóras og Ísak Newton hafi verið dulhyggjumenn (e. mystics) að vissu leyti. Bendir hann í því sambandi á þá aðferð sem hér um ræði (og sperri nú allir skapandi menn og konur augu og eyru!). Lennon skrifar:

“But the main point I was getting at was the fact that in order to receive the “wholly spirit”, i.e. creative inspiration (whether you are labelled an artist, scientist, mystic, psychic, etc.), the main “problem” was emptying the mind. ... You can’t paint a picture on dirty paper; you need a clean sheet.”

Tekur hann sláandi og sorglegt dæmi til útskýringar á því, en segir svo:

“It’s the same with the Christians (so called). They’re so busy condemning themselves and others, or preaching at people, or worse, still killing for Christ. None of them understanding, or trying in the least, to behave like a Christ.”

Sbr. tilvitnanir í  John Lennon Skywriting by Word of Mouth 2010 [1986], s. 33-35. New York, NY: HarperCollins Publishers (It Books).

Blessuð sé minning John Lennon. Gott er að hafa friðarsúluna í Viðey kærleiksboðskap hans til vitnisburðar og minningar.


mbl.is Lennons víða minnst í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ímyndaðu þér!

Friðarsúlan sem Yoko Ono ásamt öðrum gekkst fyrir að reist yrði í Viðey til minningar um friðarbaráttu-skáldið og -aðgerðasinnann John Lennon, sem var í hljómsveit allra tíma, The Beatles, er stórkostlegt uppátæki.
Nú þegar dimma tekur að hausti er það tilhlökkunarefni að kveikt er á henni. Þá má sjá bjarma af henni þar sem bláhvítir ljósgeislarnir teygja sig upp til himins eins og í hljóðri beinskeyttri bæn. Ekki skiptir máli hvar maður er staddur á höfuðborgarsvæðinu, hún sést alls staðar að. Það er snilldin við gerð hennar, samanborið við hefðbundnar steinstyttur á stalli sem enginn sér nema fara á staðinn. Enginn kemst hins vegar hjá því að taka eftir friðarsúlunni.

Allir borgarbúar og aðrir í margra kílómetra radíus sjá hana oft á dag og kveldi þegar kveikt er á henni. Hvað skyldi þeim þá detta í hug? Eitthvað um Lennon? Einhver hending úr lögum hans? “Imagine”? Eitthvað um friðarboðskap hans?
“Já, þarna er friðarsúlan hans Lennons!”
Í hvert sinn, mörg hundruð þúsund sinnum alls á dag eða oftar, kviknar þá væntanlega jákvæð hugsun um frið eða gleðjandi laglínu sem hefur þann magnaða kraft að koma manni í betra skap og til að bæta heiminn. Gleyma stund og stað, skammdeginu, nokkur augnablik. Ímyndaðu þér!

Á undraverðan hátt skapar ljóssúlan borginni okkar einhvern veginn fyllingu og rými, festu og festingu sem maður greindi ekki fyrr. Tengingu við himinn og heim, sem tengir okkur um leið og fyllir friðsæld. Með öflugum sprota sínum rýfur hún einangrunina hér norður í Atlantshafi og kveikir bjartar og hlýjar tilfinningar með von um friðsamlegri og betri heim, fjær og nær, og bendir á að við erum ekki ein. Ímyndaðu þér! – Takk fyrir friðarsúluna!

Ég bið konur og ég bið menn
og allar þjóðir skilja,
að klikkuð stríð má kæfa enn
með kærleika og vilja.

Hin nærtæka, en að því er virðist erfiða, aðferð við það gæti verið eftirfarandi:

Gefið grið
og græðið kalið hjarta.
Við viljum frið
og von um framtíð bjarta
.

         (Höf: Kristinn Snævar Jónsson.
         Úr textanum "Við viljum frið" á plötunni "Lífsins gangur", á gogoyoko.com)
 

Pistill þessi birtist í Morgunblaðinu 12. október 2008, s. 36, en hér með nokkrum einkunnarorðum til viðbótar um hugvekjandann John Lennon.


mbl.is Leyfi frá almættinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt jákvætt tón-fréttastef í Sjónvarpinu

Ég vonaði að kynnt yrði nýtt fréttastef í Sjónvarpinu á ársafmæli hrunsins. Sú von brást - í bili. Þess vegna vek ég athygli á eftirfarandi atriðum og legg fram tillögu til úrbóta, fólkinu í landinu til heilla.

Ástæðan er sú að mér finnst þetta drungalega, ömurlega og niðurdrepandi dómsdagsstef vera samnefnari og boðberi hrollvekjandi tíðinda í hvert einasta sinn sem það heyrist á undan fréttatímum í Sjónvarpinu. Sérstaklega endastefið með dimmmmmmmu hamarshöggunum-mmmm á lágu bassanótunum á píanóinu.
Þetta varð einhvern veginn samofið kvíðvænlegum fréttum oft á dag við hrunið síðasta haust. Í hvert sinn sem það heyrist í aðdraganda fréttatíma taka magavöðvarnir kipp, skrokkurinn stífnar, köldum svita slær út um allan líkamann og stjarfir eða titrandi og á nálum setjast sjónvarpsáhorfendur sem negldir fyrir framan tæki sín eins og fórnarlömb sem bíða dómsins. Þetta er ekki uppbyggilegt fyrir fólk og mál og þörf að linni.

Núna erum við búin að hafa þennan ömurlega og ógnvekjandi drungatón hamrandi í eyrunum í heilt ár sem sífelldan boðbera óheillavænlegra og neikvæðra frétta. Nú er nóg komið. Nú eru tímamót.
Nú þarf að breyta til og skipta yfir í jákvæðari, uppbyggilegri og glaðlegri tón sem vekur bjartsýni og eykur kraft og dug.
Nú þurfum við boðbera góðra frétta klingjandi í eyrunum daglega, oft á dag, sem boðar og undirstrikar nýja,  batnandi og betri tíma. Tíð uppbyggingar.

Undir öllum kringumstæðum er þjóðþrifamál að breyta um tónstef hið snarasta og segja þar með skilið við þetta stikkorðs-ígildi hrunsins.

Væri til of mikils mælst, kæra rúv, að hugleiða málið og fá snjalla tónstefjahöfunda til að framleiða skemmtileg stef í jákvæðum og glaðværum anda í ljósi ofangreindra atriða og taka það í notkun eins fljótt og mögulegt er? Stefin mega gjarnan vera fleiri en eitt, til að hafa til skiptis eftir tilefni.

Hvernig væri til dæmis að efna til samkeppni um svona fréttastef og láta þjóðina síðan kjósa sín stef með því að velja á milli frambærilegra tillagna?

PS. Ég tek það fram, að fyrst þegar umrætt tónstef var tekið upp í Sjónvarpinu fannst mér stefið mjög flott og töff og viðeigandi inngangsstef fyrir fréttatíma, enda er það frábært út af fyrir sig sem slíkt og höfundi sínum til sóma; það er ekki málið. Ég er einungis að benda á að nú finnst mér þetta magnaða stef orðið svo samgróið öllum hinum neikvæðu tilfinningum í tengslum við hrunið, hliðstætt því er góð kvikmyndatónlist nær að magna upp hughrif undir dramatískum og óhugnanlegum atburðum í viðkomandi kvikmyndaratriðum.


Enginn veit

...hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Höldum því friðinn!

Öfund né við illskuþrætu
okkar gjörðir miðum.
Stríð þá aldrei staðið gætu
stór né smá í sniðum.
. . .
Ég bið konur og ég bið menn
og allar þjóðir skilja:
Klikkuð stríð má kæfa enn
með kærleika og vilja.
          (Kristinn Snævar Jónsson; úr textum á plötunni "Lífsins gangur" (C) )

Lifi fagnaðarerindi John Lennon við áheyrendur sína um kærleika og frið: "All you need is love"; .."living life in peace".


mbl.is Yoko Ono blæs til tónleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband