Færsluflokkur: Bloggar

Réttlátara greiðsluþátttökukerfi fyrir lyfjakostnað sjúkratryggðra

Þetta er löngu tímabær lagabreyting til hins betra varðandi greiðsluþátttöku hins opinbera í lyfjakostnaði sjúkratryggðra, sem hér er fjallað um í örstuttri viðhangandi frétt.

Hið nýja fyrirkomulag, sem taka á gildi í maí n.k., leiðir til réttlátara niðurgreiðslukerfis fyrir lyf. Dregur það dám af t.d. greiðsluþátttökukerfinu í Danmörku, en reynslan af því er löng og góð.

Í gamla kerfinu var sjúklingum mismunað eftir sjúkdómum sem er fyrir neðan allar hellur.

Sjá má hvernig nýja kerfið virkar að því er varðar skiptingu lyfjakostnaðar milli sjúkratryggðra einstaklinga og Sjúkratrygginga Íslands á t.d. vefsíðu Lyfjavers (sbr. almennar upplýsingar á http://www.lyfjaver.is/greiðsluþátttökukerfi og reiknivél fyrir útreikning dæma um framvindu lyfjakostnaðar yfir árið á http://www.lyfjaver.is/reiknivel/greidsluthatttaka/reiknivel ).

Einnig má sjá dæmi um skiptingu lyfjakostnaðar milli aðila í nýja kerfinu á vef Sjúkratrygginga Íslands, sbr. http://www.sjukra.is/lyf-og-hjalpartaeki/lyf/nytt-greidsluthatttokukerfi-vegna-lyfja-i-vaentanlegt/

 


mbl.is Greiðsluþátttöku lyfja breytt í maí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bifröst á skýi minninganna

Alltaf er jafn hressandi að sjá þessa mynd af Bifröst sem hefur verið tekin áður en hryllilega spanskgrænuklessu-steinkassabyggingin var reist fyrir framan gamla skólann og útsýnið þar með tekið frá honum og umhverfinu sem hér sést í forgrunni rústað. Sömuleiðis hvarf gamla heimsýnin að Bifröst með þessa fallegu byggingu í forgrunni þegar ekið er upp Norðurárdalinn áleiðis þangað. Það var ekki einu sinni reynt að hafa nýbyggingarómyndina í sama eða svipuðum stíl og þá gömlu t.d. með hallandi þaki og sömu litum. Það er nú svo.

En, til fyrirmyndar er hjá núverandi stjórnendum skólans að leitast við að minnka sóun á pappír og bleki. Mætti ég svo minna á að e.t.v. nýtist MS Office 365 OneNote-kerfið til vistunar og flokkunar á "útprentunum" í stað þess að prenta skjöl og töflur úr Office á pappír; Og vista minnisatriði á SkyDrive, á "Skýi minninganna".

 


mbl.is Prenta 75 þúsund færri blaðsíður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært framtak á Blönduósi

Þetta eru ánægjulegar fréttir sem berast úr hvamminum fagra. Þarna er fyrrum kostnaði breytt í tekjulind. Ég er handviss um að fleiri slík tækifæri leynast ef vel er að gáð og hugsað út fyrir kassann og út fyrir gamla farið.

Gamli bærinn er alltaf flottur með gömlu kirkjuna og Helgafell í forgrunni.
PS. Ég vona að ekki sé búið að eyðileggja og farga innviðum kirkjuhússins, súlunum og milligólfinu og kórnum - né heldur prédikunarstólnum.


mbl.is Fitan auðlind en ekki vandamál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skýr skilaboð á báða bóga

Þessi nýja skoðanakönnun rennir frekari stoðum undir vísbendingar könnunar MMR um daginn að Framsóknarflokkurinn er í stórsókn með því að væntanlegir kjósendur lýsa yfir kröftugum stuðningi sínum við stefnu flokksins. Eðli málsins samkvæmt er það engin furða fremur en fyrri daginn. 
Málefnin sem þar koma fram og samþykkt voru á landsfundi flokksins nýverið eru greinilega efst á blaði í huga fólksins að öllu samantöldu.

Samtímis þessari traustsyfirlýsingu við stefnu Framsóknarflokksins fellir fólkið dóm sinn yfir kafloðinni og tortryggilegri stefnuyfirlýsingu Sjálfstæðisflokksins í þessum afgerandi málum og ýmsum þverstæðum í framboði hans eins og málin standa þar á bæ. Ýmsir áberandi þingmenn og frambjóðendur efst á blöðum þar hafa lýst yfir andstöðu sinni  við að hrófla við verðtryggingu lána án þess að hafa verið leiðréttir af yfirstjórn flokksins. Það er allrar athygli vert! Þeir og yfirstjórn flokksns virðast því ekki skynja hvað klukkan slær núna. Þetta skynjar fólk vel. -

Stefnan verður að vera skýr og afdráttarlaust og sett fram með trúverðugum og samstilltum hætti af heilindum. Það hefur Framsóknarflokkurinn og skynjað í aðdraganda landsfundar síns og í frágangi á stefnuskrá sinni þar. Undirtektir í umræddum skoðanakönnum benda greinilega til þess að þetta er það sem stór hluti kjósenda vill og enn fleiri eru að vakna til vitundar um samhljóm stefnu Framsóknarflokksins við hagsmuni fólksins í landinu núna.

Hér er um að ræða skýr skilaboð á báða bóga.


mbl.is Fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsókn í framsókn og engin furða

Engin furða er að samkvæmt þessari nýjustu könnun MMR stekkur Framsóknarflokkurinn enn hærra í fylgi og mælist nú með vel yfir 23 % fylgi samkvæmt henni.

Engin furða er að ríkisstjórnarflokkarnir og taglhnýtingar þeirra halda áfram að dala í heild og að ekki virðist enn ætla að daga hjá nýjum framboðum.

Enn er það heldur ekki furða að Sjálfstæðisflokkurinn  missir mikið fylgi, en hann er orðinn kvefaður og loðinn í yfirlýsingum sínum um afnám verðtryggingar og leiðréttingu á stökkbreyttum og forsendubrostnum lánum og fleiri atriðum til að létta "umsátursástandinu" af heimilum og fyrirtækjum landsins, eins og formaður Framsóknarflokksins skilgreindi pólitík stjórnarflokkanna á þessu kjörtímabili svo hnyttilega í stefnuræðu sinni á landsfundi flokksins fyrir viku síðan.
Sjálfstæðisflokkurinn, eða að minnsta kosti "hinn gamli og góði" kjarni hans, mun þó örugglega draga þá ályktun af þessu að þau raddbönd hans, sem tala gegn afléttingu verðtryggingar og leitast fyrst og fremst við að verja hagsmuni fjármagnseigenda á kostnað annarra, þarf að stilla svo þau verði í samhljómi við tilraunir flokksins til að ná til hugsandi almennings sem gerir sér grein fyrir að við óbreytt verðtryggingarkerfi verður ekki unað lengur.


mbl.is Framsókn bætir enn við sig fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær ræða formanns Framsóknarflokksins

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins hefur nýlokið sérlega efnismikilli, hnitmiðaðri og áhrifamikilli ræðu sinni.

Ræðuna flutti hann fumlaust og blaðlaust undir mikilli andakt viðstaddra og fjarstaddra. Hann vissi hvað hann ætlaði að segja og hvað þurfti og þarf að segja við flokkssystkini sín og íslensku þjóðina núna þar sem hún húkir undir úrræðaleysi núverandi ríkisstjórnar á mörgum sviðum.

Sigmundur benti rökfastur á hvar núverandi ríkisstjórn hefur mistekist hrapallega við stjórn landsmálanna og kastað dýrmætum tækifærum á glæ á kjörtímabilinu. - (Tækifæri sem segja líkja má við síldardauðann í Kolgrafarfirði nýverið þar sem vannýtt síldiin liggur dauð og eins og hráviði í fjöruborðinu. - aths. ritara)

Sigmundur benti einnig og ekki síður á hvað þarf að gera í stöðunni til að rétta kúrsinn af og hvaða viðhorf þarf að blása þjóðinni allri í brjóst, sem er að trúa á sjálfa sig og framtíð sína, fremur en hið gagnstæða sem líðandi úrtölutímabil hefur einkennst af. 

Þetta er sannkallaður málflutningur til framsóknar fyrir íslenskt efnahagslíf og íslenska þjóð. Heyr! 

 


mbl.is „Skjaldborgin sneri öfugt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veiða síldina?

Af hverju er síldin ekki veidd áður en hún fer sér að voða í veiðigildrunni í Kolgrafarfirði?

Lítil er spurningin, en er eitthvað um stórgóð svör? (önnur en að það sé ekki hægt!)


mbl.is Keppst við að bjarga verðmætum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Persónulegur smekkur um Eurovision-úrslit

Í Eurovision-forkeppninni í Svíþjóð 1973 fóru tveir ljóshærðir og stæðilegir piltar með meðalsítt hár með nauman sigur af hólmi með hæg-þungu og væmnu ballöðu-lagi "Sommaren ..." (eitthvað svoleiðis). 

Ég var þvílíkt svekktur yfir þessum úrslitum fyrir mína hönd og Svíþjóðar og það kom (mér) mjög á óvart að þeir og lag þeirra var valið fram yfir fjörugt lag sem maður greip strax við fyrstu hlustun, en það var lagið "Ring, ring" flutt af tveimur óþekktum piltum og tveimur stúlkum (a.m.k. í Danmörku þar sem ég dvaldist þá og fylgdist vel með hinum vikulegu Top 20 með Jörgen Mylius og Dansktoppen í DR). Önnur stúlkan, síð-ljóshærð, var kasólétt, en það hefur e.t.v. ekki skipt máli. Hvað um það, að ári liðnu (1974) sigruðu þau fjórmenningarnir síðan sömu keppni verðskuldað með lagi sínu "Waterloo", efld að afli. Aðalkeppnina tóku þau svo með húð, klæðnaði og hári, þar sem þau komu, sungu og sigruðu. Flestir ættu að skilja hvers vegna. Þetta var smella-hópurinn ABBA! 

Þessi lagasaga hvarflaði að mér þegar óvænt úrslitin voru kunngerð í gærkveldi um sigurlag Íslands sem framlag til Eurovision-keppninnar í ár. Þau finnast mér furðuleg (auðvitað bara smekksatriði hjá mér) í ljósi þess að mér finnst keppinauturinn á lokasprettinum, lagið "Ég syng", margfalt líflegra og meira grípandi en hitt og ekki eins leiðigjarnt. (Burtséð frá ýmsum fleiri flutningslegum atriðum sem vissulega skipta máli). Hliðstæðan við sigur keimlíkrar einsskiptis ballöðu sænsku piltanna yfir langlífu stuðlagi ABBA 1973 finnst mér sláandi.
Einnig get ég ekki stillt mig um að taka fram að ég átti allt eins von á því að hið mikla og gæsahúðarmagnaða lag Birgittu Haukdal, "Meðal andanna", kæmist í úrslitin og þaðan af lengra ef "fönnið" í laginu "Ég syng" yrði ekki ofan á. Ég hefði verið mjög sáttur við það, enn talandi út frá algjörlega persónulegum smekk auðvitað og að hinum lögunum ólöstuðum.
Það kæmi mér ekki á óvart að "fön"-lagið "Ég syng" og "Meðal andanna" verði langlífari en það sem valið var (af einhverjum) til aðalkeppninnar í vor, en það verður önnur lagasaga.

Sænsku piltarnir tveir frá Svíþjóð sem framar er getið náðu reyndar, furðulegt nokk, 5. sæti í Eurovision-keppninni það ár með enskum texta á lagi sínu, "You are summer", en þá sigraði Luxemborg með "Tu te reconnaîtras" og Cliff Richard var í 3. sæti með "Power to all our friends". (Man ekki einhver eftir því fjöruga stuð-lagi með Cliff? Ég man hins vegar ekkert eftir sigurlaginu sem var hæggengt, dapur-angurvært og dramatískt í dæmigerðum "Mið-Eurovískum" stíl þess tíma en flutt af góð-kröftugri söngkonu í rauðum síðum kjól. Cliff var reyndar líka í rauðri skyrtu!).
Það er því ekki með öllu vonlaust að hæægvirk sykurlöððrandi ballaðan frá Íslandi komist í efri hluta úrslitalistans í Eurovision á sænskri grundu í vor.  

En, að sjálfsögðu óska ég sigurlaginu nú velfarnaðar og aðstandendum þess og góð-kröftugum söngvara þess til hamingju. Það er ekki spurning. Það er næsta víst að söngvarinn á gott sönglíf framundan. 


mbl.is „Ég á líf“ verður framlag Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við orustulok

Guðni Ágústsson, hinn dyggi framsóknarmaður, lætur mörg sannleikskornin falla í nokkrum athugasemdum í grein sinni í Morgunblaðinu í dag (s. 25) í tilefni þess að erlendir aðilar segja nú Ísland hafa sparað sér um 335 milljarða ISK við að vinna dómsmálið um Icesave-deiluna. Þar fá óvæntir aðilar hrós og væntir minna hrós.

Það var góð von á því að Guðni skyldi minnast á þetta þar sem það munar um minni upphæð en þessa. Harla vel reyndist því að fylgja ráðum réttsýnna og þjóðhollra baráttumanna landsins í Icesave-deilunni sem sáu hvar hagsmunir Íslands lágu og liggja, þótt heillum horfnir ríkisstjórnarflokkarnir sem slíkir ásamt forystuliði þeirra virðast ekki hafa gert það lengi vel meðan bardaginn stóð við erlent vald sem þeir töldu ofurefli.
Berja sumir málsvarar þeirra jafnvel enn höfði við þann úrtölustein sér til réttlætingar og svo mikið hafa þeir rifið klæði sín af vandlætingu sinni út í mótþróalýðinn og forsetann allan tímann að þeir standa nú næsta klæðalitlir í kosningamonsúninum sem er að skella á.
Það verður þó að segjast, þeim til mikilla málsbóta og hugrekki þeirra til hróss, að í síðustu orustunni, undirbúningi landsins fyrir réttarhöldin fyrir EFTA-dómstólnum, stóðu þeir ekki í vegi fyrir vörn Íslands heldur tóku upp gifturíkt samstarf við baráttufólkið og -félögin gegn Icesave-samningunum og góð og höggþétt rök þeirra. Góðu heilli!

Í fremstu víglínu í stríðinu fyrir land og þjóð var baráttuviljugt ungt fólk í nýrri framvarðarsveit Framsóknarflokksins og grasrótarfélög á vegum hans og fleiri sjálfstæðishugsandi aðila í reynd, stutt af forseta Íslands og þegar kvatt var til lokaorustu um síðustu samningslögin um Icesave 60% þjóðarinnar. Þeim sé öllum virðuleg þökk. 

En, saman förum við, íslenska þjóðin 100%, sterkari á vit léttbærari framtíðar. Það er gott.


mbl.is 336 milljarðar eru miklir peningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki kominn Tími til?

Jú, það er sko kominn tími til?

Að fá umsagnir um sannleikann frá fleiri sjónarhornum er hið besta mál, enda getur verið hið versta mál að finna út hver sannleikurinn er á hinu pólitíska sviði.

Þá er e.t.v. hægt að vænta fleiri gullkorna frá Guðna Ágústssyni framsóknarmanni á prenti.

Í því sambandi má benda á að Guðni lætur mörg sannleikskornin falla í nokkrum athugasemdum í grein sinni í Morgunblaðinu í dag (s. 25) í tilefni þess að erlendir aðilar segja nú Ísland hafa sparað sér um 335 milljarða ISK við að vinna dómsmálið um Icesave-deiluna. Sjálfsagt verður að vanda deilt um þau korn.


mbl.is Tíminn endurvakinn á netinu og kemur á pappír aðra hverja viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband