Ímyndaðu þér!

Friðarsúlan sem Yoko Ono ásamt öðrum gekkst fyrir að reist yrði í Viðey til minningar um friðarbaráttu-skáldið og -aðgerðasinnann John Lennon, sem var í hljómsveit allra tíma, The Beatles, er stórkostlegt uppátæki.
Nú þegar dimma tekur að hausti er það tilhlökkunarefni að kveikt er á henni. Þá má sjá bjarma af henni þar sem bláhvítir ljósgeislarnir teygja sig upp til himins eins og í hljóðri beinskeyttri bæn. Ekki skiptir máli hvar maður er staddur á höfuðborgarsvæðinu, hún sést alls staðar að. Það er snilldin við gerð hennar, samanborið við hefðbundnar steinstyttur á stalli sem enginn sér nema fara á staðinn. Enginn kemst hins vegar hjá því að taka eftir friðarsúlunni.

Allir borgarbúar og aðrir í margra kílómetra radíus sjá hana oft á dag og kveldi þegar kveikt er á henni. Hvað skyldi þeim þá detta í hug? Eitthvað um Lennon? Einhver hending úr lögum hans? “Imagine”? Eitthvað um friðarboðskap hans?
“Já, þarna er friðarsúlan hans Lennons!”
Í hvert sinn, mörg hundruð þúsund sinnum alls á dag eða oftar, kviknar þá væntanlega jákvæð hugsun um frið eða gleðjandi laglínu sem hefur þann magnaða kraft að koma manni í betra skap og til að bæta heiminn. Gleyma stund og stað, skammdeginu, nokkur augnablik. Ímyndaðu þér!

Á undraverðan hátt skapar ljóssúlan borginni okkar einhvern veginn fyllingu og rými, festu og festingu sem maður greindi ekki fyrr. Tengingu við himinn og heim, sem tengir okkur um leið og fyllir friðsæld. Með öflugum sprota sínum rýfur hún einangrunina hér norður í Atlantshafi og kveikir bjartar og hlýjar tilfinningar með von um friðsamlegri og betri heim, fjær og nær, og bendir á að við erum ekki ein. Ímyndaðu þér! – Takk fyrir friðarsúluna!

Ég bið konur og ég bið menn
og allar þjóðir skilja,
að klikkuð stríð má kæfa enn
með kærleika og vilja.

Hin nærtæka, en að því er virðist erfiða, aðferð við það gæti verið eftirfarandi:

Gefið grið
og græðið kalið hjarta.
Við viljum frið
og von um framtíð bjarta
.

         (Höf: Kristinn Snævar Jónsson.
         Úr textanum "Við viljum frið" á plötunni "Lífsins gangur", á gogoyoko.com)
 

Pistill þessi birtist í Morgunblaðinu 12. október 2008, s. 36, en hér með nokkrum einkunnarorðum til viðbótar um hugvekjandann John Lennon.


mbl.is Leyfi frá almættinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband