Frum-Gerendum í bankahruninu og Leiksoppum þeirra enn ruglað saman

Hér er enn verið að drepa sannleikanum á dreif með því að saka almenning í góðri trú um vera valdan að bankahruninu á Íslandi en ekki hina raunverulegu upphafsmenn og gerendur í þeim hildarleik. Þetta er dæmi um að hengja saklausan bakara fyrir sekan smið af hlutdrægum ástæðum. Frum-gerendur í orsök bankahrunsins og lánaóráðsíunni í aðdraganda þess eru annars vegar bankaráðsmenn og stjórnendur einkabankanna þriggja, sem féllu óhjákvæmilega og fyrir rest skyndilega vegna ákvarðana og ráðstafana þeirra, og hins vegar erlendu bankarnir sem lánuðu íslensku einkabönkunum ómældar upphæðir til að fjármagna þessa feigðarstefnu þeirra. Um það hef ég fjallað í pistli hér um gerendur í íslenska bankahruninu.

Almenningur hefði ekki "spilað með", eins og látið er liggja að í meðfylgjandi viðtali að sé frumorsök í vandræðum okkar í dag, ef hann hefði ekki haft úr þessu ótæpilega lánsfé að spila árin fram að hruni. Þótt deila megi um "sekt" stjórnvalda sem komu á því regluverki sem fjármálakerfið átti að fara eftir, sem og þeirra eftirlitsaðila sem áttu að hafa virkt eftirlit með fjármálakerfinu, þá var hvorki ríkisstjórn né fjármálaeftirlit í því að lána einstaklingum fyrir kaupum á íbúð og jeppa svo dæmi sé tekið. Það voru bankarnir sem ákváðu að gera það og gerðu það hressilega.
Það var þó aðeins brot af því sem fyrirtæki eigenda bankanna og (tengd) fyrirtæki fengu að láni hjá bönkunum til fjárfestinga m.a. erlendis.
Núna karpa svo örþreyttir Alþingismenn um það hvort íslenskir skattgreiðendur hafi í reynd verið með bakábyrgð á hluta útlána bankanna, þar sem látið hafi verið að því liggja gagnvart erlendum lánveitendum af hálfu a.m.k. eins bankanna.
Þótt bílstjórar hafi fengið ökuleyfi þá er ekki þar með sagt að þeir megi skaða sjálfa sig eða aðra í umferðinni, svo hliðstæða sé nefnd.

Ef hins vegar tala á um "klapplið" með þessum ósköpum í aðdraganda hrunsins ætti fyrst og fremst að beina spjótum að þeim aðilum sem komu þessu regluverki á og eftirlitsaðilum þess, sem báðir horfðu aðgerðalitlir eða "meðvitundarlausir" á kerfið vinda upp á sig þangað til enginn réð við neitt.
Reyndar hefur sá grunur læðst að manni að margir, ekki síst stjórnmálamenn, hafi ekki borið nægilegt skynbragð á það sem var að gerast, sem þeim var þó treyst til að sjá um, og lifað þannig í sæluástandi þekkingarleysis þangað til lánleysi bankanna og þrot kom loks fram í dagsljósið við skyndilega framlagningu ríkisstjórnarinnar á frumvarpi til neyðarlaga varðandi bankainnistæður sparifjáreigenda s.l. haust og er hæstvirtur forsætisráðherra klikkti út með því að biðja Guð að hjálpa andvaralausri íslensku þjóðinni. Þar virtust veraldlegar stofnanir ekki duga til.
Margir segja að þær dugi ekki enn fyrir almenning, aðeins fyrir "fámenning"! Kannske voru sumir á Austurvelli í dag sumpart að mótmæla þeirri stöðu mála.


mbl.is Aðsúgur að Hannesi Hólmsteini
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Agla

Afbragðs færsla!

Þú ferð mjög mjúkum orðum um ábyrgð stjórnvalda og þeirra aðila "sem komu þessu regluverki á og eftirlitsaðilum þess ", enda er það kannski framtíðin sem skiptir máli en ekki fortíðin.

"Mótmælahreyfingin" hefur vakið mikla athygli en ég held að mörg okkar skilji ekki hvaða afstöðu "hreyfingin" hefur til þeirra einstöku vandamála eða almenna vanda sem við þurfum að takast á við. Kannski telja þau það ekki innan síns verkahrings. Kannski þurfum við hin,sem mætum ekki á Austurvelli, á túlk að halda.

Það er engin furða að við séum flest ráðvilt og áttavilt og þeim mun brýnni er þörfin á framlagi eins og mér fannst þessi færsla þín vera.

Agla, 27.8.2009 kl. 22:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband