Hinir illa stæðu styrkja hina vel stæðu í hruninu

Ótrúlegt, en þannig er það einfaldlega. Gallinn er hins vegar sá að þeir geta það ekki til lengdar þótt þeir fegnir vildu af gæsku sinni gagnvart landi og lýð!

Hinir ofurháu vextir sem nú tíðkast valda því að þeir sem skulda, bæði einstaklingar og fyrirtæki, greiða af veikum mætti þeim sem eiga skuldakröfur og peninga í banka há laun í formi okurvaxta og verðbóta. Viðbrögð í fjármálakerfinu, sem stjórnað er af opinberum aðilum og sem greidd eru laun sem þjónum almennings af almenningi, hafa verið að þessu leyti öfugsnúin og almenningi andstæð.

Mörg rök eru tínd til til að verja hávaxtastefnuna, oft með fræðilegu ívafi, sem almenningur skilur ekki. Slíkum málflutningi fylgir oft hroki sem gerir lítið úr almenningi þannig að honum er orða vant. Almenningi er talin trú um að það sé eðlilegt að hann borgi viðbótarálögur á þessum grunni sem í raun eru óréttlátar.

Það sem upp úr stendur er að hávaxtastefnan er að drepa í dróma þá sem skulda, sem er drjúgur hluti þjóðarinnar og flest fyrirtæki landsins. Með þessum hætti er þeim gert ómögulegt að standa við upphaflegar skuldbindingar sínar er til lengdar lætur; Í staðinn er byrðin sífellt þyngd á grundvelli brostinna forsendna varðandi verðtryggingar.
Upphaflegar skuldbindingar kváðu ekki á um að skuldarar tækju á sig afleiðingar hruns á bankakerfi landsins. Nú er því ekki sanngjarnt að skuldir skuldaranna snögghækki um það sem nemur gengisfalli krónunnar vegna bankahrunsins og þar af leiddri verðbólgu og að eignir kröfueigendanna snögghækki á móti sem því svarar.
Þar að auki var peningainnistæðum þeirra einstaklinga sem áttu sparifé í bönkum bjargað með lagasetningu þannig að þeir töpuðu ekki fé sínu. Hvers vegna eiga skuldararnir einir hins vegar að taka á sig afleiðingar rosaverðbólgu með þessum hætti?

Ég endurtek: Hávaxtastefnan er að saxa niður efnahagslíf Íslendinga með því að bæta sífellt í skuldavafningana um einstaklinga og fyrirtæki. Það er sama hversu "góð" rökin eru fyrir þessari stefnu. Þetta er einfaldlega það sem blasir við. Ef fram fer sem horfir þá mun á endanum enginn vera hér eftir af íslenskum skattgreiðendum til að greiða laun þeirra sem halda þessari stefnu til streitu.
Ef framleiðslukerfi landsins lamast þá verða peningainnistæður fjármagnseigenda ekkert annað en tölur í tölvu og kröfur skuldaeigenda verðlausir pappírar eins og hlutabréf í gjaldþrota fyrirtækjum. Hvað gera stjórnvöld og þeir þá? - Er ekki augljóst að komast þarf hjá slíku ástandi?

Ísland er að öðlast mikilvægari sess en það hefur nokkurn tímann haft vegna legu sinnar og auðlinda, enda bíður fjöldi ríkja allt umhverfis landið sem hugsa sér gott til glóðarinnar að komast til áhrifa á Íslandi með einum eða öðrum hætti.
Það er ógæfa Íslands ef stjórnmálamenn landsins átta sig ekki á því en láti í staðinn blekkjast til að trúa því að samningsstaða Íslands sé slæm. Við þurfum á fleira fólki að halda sem hugsar eins og Einar þveræingur forðum. Ætli allir Alþingismenn hafi heyrt um framsýni og visku hans?
Skurnin á fjöreggi íslensku þjóðarinnar er orðin óhugnanlega þunn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband