10.8.2009 | 00:22
Stemning í Skrúði og Dýrafirði
Skrúður er dásamlegur garður í mögnuðu umhverfi. Ég mæli eindregið með að ferðafólk geri lykkju á leið sína um Dýrafjörð og keyri út að Núpi, þar sem garðurinn er. Þarna eru ótrúlega margar plöntur, tré, runnar og blóm í öllum regnbogans litum. Þarna hefur verið vel hirt og nostrað við hlutina. Ekkert er sambærilegt við það að setjast niður í svona umhverfi og láta hugann reika á glöðum sumardegi innan um gróðurinn og ilminn. Þarna öðlast maður kærkomna hvíld frá glímunni við þjóðveginn, þótt ekki sé dokað lengi við.
Þá er stutt í yndislega mýrina neðan við gamla skólastjórabústaðinn að Núpi. Þar er hægt að ganga um vegarslóða, talsverðan spotta, niður í fjöru og inn að ós litlu árinnar sem þar rennur í sjóinn. (Umferð er að vísu takmörkuð yfir varptímann). Á þeirri gönguferð skiptir litlu máli hvernig veðrið er ef maður er viðeigandi klæddur. Gróðurilmurinn allsstaðar, villt blómin bærast fyrir golunni innan um puntstráin og hápunkturinn er þegar spói vellir sjóðbullandi í fjarska úti í mýrinni.
Ef farið er enn utar með ströndinni, og ekki skeytt um slæma færð, er komið í Arnarnes. Þar er nánast dulmagnað svæði, skáhallt á móti Haukadal sem er hinum megin við fjörðinn, þar sem meginvettvangur Gísla sögu Súrssonar er. Fjaran við Arnarnes er fjölskrúðug og römm. Þögult umhverfið og fallin mannvirki vitna um fyrri tíma. Ofan við rísa ógnvekjandi, þverhníptir hamrarnir.
Ef komið er við á Þingeyri er upplagt að skreppa út með ströndinni í Haukadal og ganga þar um og dálítið upp í dalinn um kindatroðninga. Það er einkar áhrifaríkt að virða fyrir sér staðháttu, hafa bókina um Gísla sögu Súrssonar meðferðis og lesa yfir kafla þar sem staðháttum er lýst og þannig nánast upplifa söguna með sögusviðið ljóslifandi fyrir augum sér. Mannlýsingar sögunnar eru krydd á dvölina þarna og fá dalinn til að lifna við. Þarna sést hóllinn þar sem bærinn stóð forðum, samkvæmt sögunni, hlíðarnar sem kotin stóðu á og seftjörnin ofan við fjöruna sem einnig er minnst á. Magnað! Þótt deila megi um sannleiksgildi sögunnar eru staðháttalýsingarnar í henni í samræmi við raunveruleikann. - Þarna er líka stutt í skemmtilegan golfvöll! Góða ferð!
Garðurinn Skrúður í Dýrafirði 100 ára | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Ferðalög, Lífstíll, Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 00:51 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.