26.7.2009 | 22:44
Engan Icesave-samning í blindni!
Kristinn Pétursson tók saman nokkrar ábendingar lögfróðra manna á bloggi sínu þ. 24.7.2009, Engin þjóð beygir sig ..., sem birst hafa undanfarið um Icesavemálið.
Hann bendir m.a. á grein Dr. Herdísar Þorgeirsdóttur í Fréttablaðinu þ. 20. júní s.l., en sú grein fannst mér þá afar athygliverð þegar umræðan um Icesave hafði legið í furðulegum dvala. Þar er góða og skiljanlega greinargerð að finna um atriði sem mæla gegn samþykkt á fyrirliggjandi samningi um Icesave-málið, sem allir ættu að geta skilið. Ef svo ólíklega vill til að einhverjir alþingismenn hafi ekki lesið þessa grein mæli ég með því að þeir geri það nú þegar.
Ég furða mig því á því hvað lítið virðist fara fyrir þessum álitsgerðum og umsögnum umræddra sérfræðinga í almennum umræðum, og eftir fréttum að dæma á hinum háa Alþingi. Það er með ólíkindum! Á hvaða grundvelli fer umræðan í Alþingi fram eiginlega? Það mætti halda að hún fari eftir aukaatriðum og í vitlausri röð!
Það virðist koma æ betur í ljós hve mikil mistök það hafa verið að fara ekki með Icesave-málið fyrir rétt þar sem úr þvi yrði skorið hvort Íslenska ríkinu beri að greiða Icesave-skuldirnar sem um ræðir og þá að hvaða marki. Áður en fyrirliggjandi nauðungarsamningur yrði samþykktur þarf greiðsluskylda ríkisins að sjálfsögðu að liggja fyrir. Það ætti að vera morgunljóst.
Ætla svo alþingismenn stjórnarflokkanna og/eða aðrir já-menn með þeim þrátt fyrir það að fara að samþykkja þennan "Versalasamning" í blindni? - Í guðanna bænum, skoðið málið betur gott fólk!
Þegar íslenskir ráðherrar eru nú í standandi vandræðum með að skera niður í ráðuneytum sínum um "litla" ca. 50 milljarða á ári, hvernig verður þá ástandið þegar annað eins bætist við niðurskurðinn vegna svipaðrar upphæðar sem árlega þarf að sjá af í vexti og afborganir vegna Icesave-nauðungarsamningsins ef bjartsýnustu getgátur stjórnarinnar um lægri greiðslubyrði af þeim gengur ekki eftir þegar þar að kemur?
Getið þið séð fyrir ykkur hvernig umhorfs yrði hér á landi þá, ef sá niðurskurður sem áformaður er hjá hinu opinbera hérlendis næsta árið yrði tvöföld sú upphæð?! Núna!
Látum tímafjarlægðina í fyrstu afborgunina samkvæmt fyrirliggjandi nauðungarsamningi ekki villa um fyrir okkur né heldur teljum okkur trú um að þetta reddist allt í millitíðinni.
Þetta er ótækt, kæra þjóð!
Alþingismenn! Gerið ekki Alþingishús Íslendinga að vesælum lestarvagni við Versali!
PS. Það er athyglivert að Ísland skuli ekki fá samúðar- og stuðningsyfirlýsingu frá Þjóðverjum og Frökkum, sem ættu þó að skilja vel þessa stöðu sem Íslenska ríkið og Alþingi er sett í, þegar slíkur Versalasamningur er annars vegar! Hvað veldur?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.