20.4.2009 | 16:26
Hvaða hagsmunum er verið að þjóna hér og nú með háum vöxtum?
Ég tek undir þetta atriði með Sigmundi. Jöklabréfunum er haldið föstum hérlendis með gjaldeyrishöftum. Þau fara því ekki úr landi þótt vextir væru lækkaðir hressilega og gengið veikist ekki þess vegna á meðan. Vaxtabyrði landsins vegna þeirra myndi hins vegar augljóslega léttast tilsvarandi hressilega um leið, eins og Sigmundur bendir á.
Einnig myndi vaxtaklafi hart leikinna yfirdráttarlánaskuldara léttast með væntri tilsvarandi lækkun yfirdráttarvaxta, bæði almennings og fyrirtækja.
Undanfarið hafa almenningur og fyrirtæki með yfirdráttarlán verið að sligast undan vaxtaokrinu, en það eru einmitt þeir aðilar sem létta þarf hvað mest á! Samtímis njóta innistæðueigendur og aðrir fjármagnseigendur hárra inneignarvaxta sem aldrei fyrr, þ.e. þeir einstaklingar og lögaðilar sem væntanlega þola hið slæma efnahagsástand skást! Hér virðist því að verið sé að láta almenna skuldara, þar á meðal atvinnulausa og allt atvinnulíf landsins, blæða á röngum forsendum. Þau fyrirtæki sem kost eiga á hljóta óhjákvæmilega að íhuga alvarlega að flytjast úr landi með starfsemi sína þar sem fjármagnskostnaður er lágur og viðunandi.
Talsmenn ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans, sem eru lítt öfundsverð milli steins og sleggju, benda á að verið sé að fara eftir ráðleggingum og tilmælum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (AGS). Rök AGS á sínum tíma voru þau að hinir háu stýrivextir væru til þess að styðja við gengi krónunnar. Gjaldeyrishöftin sjá jú til þess með afgerandi hætti og þess vegna þarf ekki líka að halda vöxtunum háum til þess arna. Hvað veldur því að það er samt gert undir núverandi kringumstæðum?
Stjórnmálamenn ákvarði vexti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.