21.2.2021 | 08:50
Umræddur léttist en dó ekki, skv. fréttinni
Í fyrirsögn mbl.is í viðtengdri frétt er bagaleg stafsetningarvilla og þar af leiðandi merkingarvilla. Villan felst í rangri stafsetningu/beygingu á sögninni að "léttast" í lýsingarhætti þátíðar. Eins og hún er rituð ranglega er merkingin að viðkomandi hafi látist, þ.e. eins og sögnin væri rituð í þátíð, sbr. "hann lést" (brottfall á t), en það er ekki um það að ræða í fréttinni - sem betur fer.
Í fyrirsögninni ætti að standa "Elton John hefur létst" en ekki "...lést". Stofn sagnarinnar er "að léttast". Í lh.þt verður einnig brottfall þannig að annað t-ið fellur út og við bætist endingin st. Fyrir lagasetningu um að hætta að nota z í íslensku ritmáli (var það ekki árið 1974 eða þar um bil?) hefði stafsetningin verið "létzt", sem sýnir glögglega hvar brottfallið á t er og að í stað þess og -st kemur z. Seinna t-ið og s-ið í st er þar einfaldað í stafnum z. - Og hana nú! - Eða, er formlega búið að breyta rithætti svona "..tt.."-sagna?
Fréttaritari mbl.is athugar þetta ef til vill og leiðréttir ef hann sér ástæðu til?
Elton John hefur lést | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þykkur náungi fór til heimilislæknis . Meðal annars átti hann við hrotuvandamál að stríða. Læknirinn skrifaði smá greinagerð á blað fyrir hann. Þar stóð „Hroturnar gætu minnkað ef þú létist.“
Hörður Halldórsson, 21.2.2021 kl. 11:16
Ég leyfi mér alltaf að nota z-u þurfi eg að skrifa álika frétt sem birtist á vefmiðlum.En talandi um lýsingarorð finnst mér afar hvimleitt að sjá hæð einhvers í efstastigi mjög oft skrifaða hæðstur.Ég held að menn ætli orðið komið af hæð-sem er no.-- "Turninn á Hallgrímskirkju er hæstur í Rvk" Þarna er hæstur lýsingarorð og mjög auðvelt að sjá að Ð á þar ekki heima: Stofn lýsingarorða finnst í kvk,eintölu,nefnifalli= hún er há.- - En manni verður oft á í messunni sérstaklega ypsilonin,sem eru oft sótt í dönsku,en gaman væri að halda islenskunni við....
Helga Kristjánsdóttir, 22.2.2021 kl. 03:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.