30.6.2016 | 10:59
Hagvöxtur og mannfjölgunarvandi heimsins
Er óheftur hagvöxtur á heimsvísu lausn alls?
Í frétt á mbl.is 6. júní 2016 með yfirskriftinni Þrjú börn að minnsta kosti er greint frá því að Tyrklandsforseti hafi eindregið hvatt þegna sína og trúbræður til barneigna. Haft er eftir honum að engir múslimar ættu að íhuga að nota getnaðarvarnir og að hann hafi hvatt konur til þess að eignast að minnsta kosti þrjú börn. Við munum margfalda afkomendur okkar er haft eftir honum.
Þessi frétt ber með sér að þar fari saman hvatningar íslamsks þjóðhöfðingja, í anda íslam, og kaþólsku kirkjunnar um aukningu barneigna og gegn notkun getnaðarvarna. Fátt er sterkara en hvatningar og trúarleg "lög" og kennisetningar á grunni trúarbragða og hvers kyns innræting um breytni fólks á þeim grunni.
Með slíkum innrætingarhvatningum er skellt skollaeyrum við fólksfjölgunarvanda heimsins sem er ein af frumorsökum ágangs á auðlindir Jarðar og staðbundinnar og hnattrænnar mengunar. Hvað trúboð og áróður, ef ekki valdboð, umrædds forseta varðar í krafti síns embættis sem leiðtoga lands síns hefur það væntanlega einnig einhver áhrif á alla landa hans og trúbræður þeirra hvar sem þeir eru, líka í öðrum löndum Evrópu þar sem þeir eru fjölmennir.
Páfinn ásamt öðrum kaþólskum trúarleiðtogum hefur hliðstæð trúarleg hvetjandi áhrif innan kaþólsku kirkjunnar, hvar í heimi sem hún teygir anga sína.
Spurning er hvernig hægt er að bregðast við þessari hvatningastefnu um barneignir í nafni trúarbragða, ekki síst ofangreindra, áður en fólksfjölgunin og fólksfjöldinn í heiminum verður til slíkrar eyðingar á gæðum Jarðar að skaðinn verði óafturkallanlegur með tilheyrandi hörmungum fyrir allt líf í vistkerfi okkar, Flóru og Fánu.
Reyndar hafa þær skoðanir verið viðraðar fyrir áratugum síðan af fræðimönnum og fólki, sem lætur sig þessi vandamál varða, að í óefni stefni og jafnvel að þegar hafi verið farið yfir mörk hnattrænnar sjálfbærni til lengri tíma litið. Í tímamótaskýrslu á vegum Rómarklúbbsins, The Limits to Growth frá 1972 eftir Dennis L. Meadows o.fl. (í danskri þýðingin Grænser for vækst, Gyldendal 1974), voru dregnar upp dökkar horfur í þessum efnum ef fram færi eins og horfði þá. Sbr. einnig bókin Mankind at the Turning Point eftir Mesarovic & Pestel (í danskri þýðingu Hvilke grænser for vækst?, Gyldendal 1975). Mannfjöldinn í heiminum hefur vaxið með veldisvexti og heldur enn áfram á þeirri braut. Það gengur náttúrulega ekki til lengdar endalaust án hörmulegra afleiðinga.
Lítið raunhæft umfram umræður og ráðstefnur er samt aðhafst í alþjóðasamfélaginu til að stemma stigu við þessari óheillavænlegu þróun.
Fulltrúar þjóðríkja tala á alþjóðlegum ráðstefnum um hnattræn vandamál en ekki virðist þar komist nægilega beinskeytt að rótum þessa vanda, sem er offjölgunarvandamál mannkyns. Lýsandi dæmi um þetta er til dæmis alþjóðleg ráðstefna um sjálfbæra þróun á vegum einnar deildar Sameinuðu þjóðanna, The Third International Conference on Financing for Development, sem haldin var í Addis Ababa 13.-16. júlí 2015. Þar voru sett fram 17 stefnumið og þar undir 169 markmið, Sustainable Development Goals, sem meðlimalöndin myndu stefna að varðandi velferð Jarðarbúa og sjálfbæra þróun á mörgum sviðum, sbr. The Addis Ababa Action Agenda (AAAA, A/RES/69/313). Þessi markmið voru einnig sundurliðuð í sér skjali þar sem tiltekin áform um tilsvarandi aðferðir og aðgerðir eru tengd við hvert markmið um sig. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fylgdi niðurstöðum ráðstefnunnar eftir með meðal annars ályktun 22. desember 2015.
Fljótt á litið er þó í þessum gögnum því miður hvergi minnst berum orðum á undirliggjandi offjölgunarvanda mannkyns eða sérstök viðbrögð við honum; eins og hann sé ekki til staðar.
Í viðtalsþætti Sjónvarpsins 14. júní 2016 við umhverfissérfræðinginn dr. Jane Godall kom fram hjá henni að ef allir íbúar Jarðar nytu sömu lífskjara og viðhefðu sama lífsstíl og við Evrópubúar nú þyrfti um fjórar til fimm plánetur á við Jörð til að standa undir og viðhalda þeirri neyslu og auðlindanýtingu. (birt 18.6.2016 á Sarpinum á RÚV).
Til samanburðar sýna útreikningar Global Footprint Network á vistspori (Ecological Footprint) mannkyns á Jörðu að núverandi notkun auðlinda og losun koltvísýrings krefst ígildis 1,6 Jarða til að viðhalda sjálfbærni. Þar sem við höfum vitanlega einungis eina Jörð sést að í mikið óefni er komið og virkra aðgerða er þörf.
Að hvetja stóran hluta mannkyns til enn hraðari fjölgunar, eins og leiðtogar og fylgjendur ofangreindra trúarbragða gera, þegar þörf er á hinu gagnstæða, er augljóslega óábyrg og veruleikafirrt stefna sem bætir á vanda mannkyns að öðru óbreyttu. Ábyrgð allra þeirra þjóða og alþjóðlegra stofnana sem aðhafast ekki með virkum aðferðum til að stemma stigu við fólksfjölgunarvanda mannkyns er mikil og meiri en orð fá lýst.
Í ofangreindu ljósi ber að huga að nýjum lausnum fyrir vegferð og velferð mannkyns heldur en áframhaldandi óheftum hagvexti á heimsvísu meðan stætt er, en sú feigðarstefna endar að óbreyttu með hörmungum fyrir alla.
Nú er spurning hvort m.a. afleiðingar af Brexit með tilkomandi endurskipulagningu efnahagskerfa landanna geti beint þjóðríkjum heims inn á farsælli brautir í þessum efnum.
Obama: Brexit ógnar hagvexti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.