25.3.2016 | 13:10
Hugleiðingar á föstudaginn langa
Séra dr. Gunnar Kristjánsson flutti að mínu mati stórmerkilega og upplýsandi prédikun í messu í Brautarholtskirkju sem útvarpað var á Rás1 á föstudaginn langa 18. apríl 2014. Hér neðar er vitnað orðrétt í nokkra staði í prédikun hans, en að sjálfsögðu er best að heyra hana og lesa í heild sinni til að meðtaka allan boðskap hennar á öllum forsendum hennar.
Gunnar kemur m.a. inn á trúarhugtakið eins og hann túlkar það að einu leyti (mínar leturbreytingar):
... Lúther sagði að aðeins með því að horfa til reynslu mannsins yrði guðfræðingurinn góður guðfræðingur, það á einnig við um trúna, reynslan staðfestir trúna, hún opnar nýja vídd, þar sem maðurinn skynjar návist Guðs. Trúin snýst ekki um trúarkenningar eða trúarjátningar, heldur ekki um trúarlegt atferli. Hún snýst um reynslu mannsins, trúin er málefni mannsins, hún varðveitir þrá hans og löngun til Hans sem gefur honum hugrekki til að lifa og kjark til að vera manneskja. ...
Um hlutverk kirkjunnar í þessu samhengi segir séra Gunnar:
Sú kirkja sem kennir sig við hinn krossfesta hlýtur að tala mál líðandi stundar, hún hlýtur að fást við reynslu mannsins og tilfinningar hans, spurningar hans um eigin tilvist. Í orðræðu trúarinnar býr sannleikur hennar, inntak og merking. Og sannleikur trúarinnar birtist svo ég vitni í franska félagsheimspekinginn Bruno Latour í því að hún vekur okkur að nýju, hún kemur til móts við tilfinningu okkar fyrir merkingu þess að vera manneskja, merkingu þess að vera til. Með öðrum orðum: ekki eins og ég-laus múgurinn við krossinn, heldur eins og Hann sem gaf allt vegna þess sem er gott, fagurt og satt, vegna þeirrar heilögu þrenningar sem hvert mannsbarn þráir innst í hjarta sínu.
Í hinni trúarlegu orðræðu komum við orðum að því sem skiptir okkur mestu máli, já: öllu máli. Við notum trúarlega orðræðu um það dýrmætasta, um mannréttindi sem eru heilög, um virðingu mannsins sem er heilög, um ástina sem er heilög. Síðasta vígi mennskunnar er í hinu heilaga, þar sem maðurinn er óskráður, þar er hann án kennitölu, þar nær enginn til hans nema inn Heilagi, þar finnur hann sér borgið í faðmi hans, í trúnni er mennsku okkar borgið. ...
Séra Gunnar leggur áherslu á að greina merkingu krossins og þýðingu hans í samtímanum og segir hér m.a. í því sambandi:
Hvers vegna er mynd hins krossfesta svo ágeng? Er það ekki vegna þess að hann er maðurinn sem við viljum líkjast, sem við viljum að móti þennan heim. Í mynd hins krossfesta birtist ímynd mennskunnar og mannúðarinnar sem á erindi til allra tíma og allra manna.
Við getum deilt um trúarkenningar og trúfræði en gegnir ekki öðru máli um þá sem sýna með lífi sínu og dauða hvers eðlis trúarreynslan er, sú reynsla sem gefur lífi mannsins djúpa merkingu. Er það ekki spurning um hvað er satt sem skiptir máli, hvað er gott og hvað er fagurt?
Allt birtist okkur í honum sem lifði og dó eins og lífið hefði óendanlega dýrmætan tilgang. Sú vitund og sú reynsla afhjúpar ekki vonsku mannsins heldur þá von sem honum er gefin, og það er einmitt í voninni, ástinni og í trúnni sem hin góðu gildi verða að veruleika í lífi mannsins og setja í gang vellíðunarhvatana sem gefa honum löngun til að lifa skapandi og gefandi lífi. Það kostaði Jesúm lífið að koma þeim skilaboðum áleiðis.
Dr. Gunnar Kristjánsson var, þá er hann flutti ofangreinda prédikun, sóknarprestur í Reynivallaprestakalli í Kjós og prófastur Kjalarnessprófastsdæmis, en lét af störfum á fyrri hluta árs 2015 fyrir aldurs sakir. Þykir mér þar mikið skarð fyrir skildi, vegna þess að Þjóðkirkja Íslands hefur að mínu mati mikla þörf fyrir kennimenn, uppfræðara og prédikara með túlkandi nálgun sem er hliðstæð þeirri sem séra Gunnar hefur viðhaft bæði í ræðum og ritum um þau efni, eigi hún að kallast þjóðkirkja með réttu eins og það hugtak var upphaflega skilgreint af föður þjóðkirkjunnar Friedrich Schleiermacher snemma á 19. öld og sporgöngumönnum hans. Annars er hætt við að íslenska Þjóðkirkjan verði ekki raunveruleg þjóðkirkja í þeim skilningi, heldur eins og hver annar sértrúarsöfnuður með einstrengingslegar trúarjátningar sínar og trúarkenningar úr fornu samhengi.
Þjóðkirkjufólki fækkar hraðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Trúmál | Breytt s.d. kl. 13:21 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Kristinn!
Er hægt að þjóna tveimur herrum?
Hvoru megin telur þú þig vera á skákborði lífsins í dag?
http://thjodarskutan.blog.is/blog/thjodarskutan/entry/2147396/
Jón Þórhallsson, 25.3.2016 kl. 13:34
Jón Þ.: Vitaskuld er ekki hægt að þjóna tveimur gagnstæðum herrum samtímis, eðli málsins samkvæmt.
Ég er ekki viss um að ég skilji háfleyga spurningu þína rétt, enda mætti túlka hana á narga vegu. Ef þú átt við spurninguna um þjónustu við hið góða eða hið illa, þá leitast ég við að þjóna hinu góða og í þágu almannaheilla, en ekki hinu gagnstæða.
Kristinn Snævar Jónsson, 25.3.2016 kl. 14:50
Spurningin snýst um það hvort að þú STYÐJIR BIBLÍUNA / HEILAGA RITNINGU og hafnir hjónaböndum samkynhneygðra.
eða
Hvort að þú sérst öfugu megin/ svörtu megin/ á skákborðinu og blessir hjónbönd samkynhneyðra.
Jón Þórhallsson, 25.3.2016 kl. 14:57
Ég aðhyllist hugmyndina um Guð, æðri mátt, í samræmi við eigin innsæislegu innri rök og reynslu, "trúi á Guð" eins og það er yfirleitt orðað. Hins vegar trúi ég ekki bókstaflega á allar mannasetningar eða trúarsetningar eins og margt sem rithöfundar og ritstjórar Biblíunnar hafa ritað þar á sínum tíma og í samhengi þess samfélags til forna sem þeir lifðu og hrærðust í. Útskúfun samkynhneigðra er af þeim toga og byggir að grunni til á ritum hebresku Biblíunnar, Gamla testamentisins svokallaða, sem innihélt trúarleg lög Gyðinga til forna. Vel að merkja, ríki þeirra byggðist á guðveldi (teókratíi/klerkaveldi) og lög þeirra fólust í þessum ritum þeirra, "lögmálinu" samkvæmt Mósebókunum fimm. Ekki síst ritningarstaðir um fordæmingu á samkynhneigð hefur m.a. verið túlkað sem liður í viðleitni Gyðinga til að afmarka sig frá öðrum þjóðum, "heiðnum", sem sérstaka þjóð í tilvistarlegri baráttu sinni meðal annarra þjóðarbrota. Það sem fram kemur í Nýja testamentinu (NT) í svokölluðum Pálsbréfum um samkynhneigð og einnig hefur verið túlkað í anda bókstafshyggju sem fordæming á henni ber ekki endilega að túlka sem svo heldur sem upptalningaratriði í röksemdafærslu í öðru samhengi.
Rit Biblíunnar endurspegla öðrum þræði hina fornu samfélagsmynd og karlaveldi sem þá var ríkjandi. Í lýðræðislegum samfélagögum nútímans, eins og þess íslenska og annarra Vesturlanda, ríkja ekki trúarlög og trúarrit eru ekki lagabókstafur réttarríkisins. Hins vegar ríkja "veraldleg" lög (sem að vísu byggja á ýmsum siðrænum atriðum sem samræmast vel kennisetningum og viðhorfum í Biblíunni) og þar á meðal eru lög sem varða almenn mannréttindi. Útskúfun á samkynhneigð og samkynhneigðu fólki er einfaldlega mannréttindabrot í okkar samfélagi og slíka útskúfun ber þess vegna ekki að líða. Þeir sem telja sig kristna og sem lesa guðlega fordæmingu á samkynhneigð út úr trúarritum sínum og vilja fara eftir kristnum boðskap samkvæmt guðspjöllunum ættu að íhuga þann boðskap sem lagður er í munn Jesú t.d. í Jóhannesarguðspjalli þar sem segir: "34Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan. 35Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars." (Jh 13.34-35). "12Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður." (Jh 15.12). "17Þetta býð ég yður, að þér elskið hver annan." (Jh 15.17). Þetta er hið eina "boðorð" sem Jesú boðaði fylgjendum sínum, samkvæmt guðspjöllunum. Hann tók sér stöðu með lítilmagnanum og fólki á jaðri samfélagsins félagslega séð. Hann fordæmdi það ekki. Þetta tel ég "trompa" allt annað varðandi siðaboðskap í NT.
Ég samsama mig ekki við þann dilkadrátt sem þú vilt viðhafa með því að segja suma "öfugu eða svörtu megin á skákborðinu" varðandi viðhorf til samkynhneigðar. Hann er ekki í samræmi við tilvitnuð vers í Jóhannesarguðspjalli né viðhorf og gjörðir Jesú samkvæmt guðspjöllunum ef út í það er farið. Ég styð boðskap Jesú í þessum versum eins og ég túlka hann þar, en ekki bókstafslegar túlkanir sumra manna og sértrúarsafnaða sem guðlegar fordæmingar og sem þar að auki fela í sér mannréttindabrot í samfélagi samtímans.
Kristinn Snævar Jónsson, 25.3.2016 kl. 16:02
Ég lít svo á að þegar að KRISTUR talar um að við eigum "að elska náungann"
að þá sé það í raun sama merking og hjá bangsa-pappanum í Hálsa-skóginum.
=Að allir skuli vera vinir=Ekki að beita ofbeldi.
----------------------------------------------------------------
En í mínum huga kemur algveg skírt fram í
NÝJA-TESTAMENTINU/málgagni KRISTINNA MANNA að hverskyns kynvilla sé ekki í náðinni
hjá "HINU ÆÐRA".
"Samkynhneigðir munu ekki GUÐSRÍKI erfa".
(Nýja-Testamenntið 1.Korintubréf 6.9).
Jón Þórhallsson, 25.3.2016 kl. 16:21
Af hverju heldur þú að syndaflóðið hafi komið eða af hverju eyddi "GUÐ" Sódómu?
Að það geti verið að gay-pride-gangan ,síns tíma, hafi verið orðin of stór?
Jón Þórhallsson, 25.3.2016 kl. 16:31
JÞ: Þarna ert þú kominn út í þröngar bókstafslegar túlkanir sem ég vík að ofar; á einhverjum tilteknum og afmörkuðum versum og ritningarstöðum sem út af fyrir sig tjá ekki allt sem þar hangir á spýtunni.
Kristinn Snævar Jónsson, 25.3.2016 kl. 17:12
Kristinn Snævar, gætirðu nokkuð útskýrt hvað þú átt við þegar þú talar um að einhver túlkun sé "bókstafleg"?
Hjalti Rúnar Ómarsson, 25.3.2016 kl. 18:15
Eru BOÐORÐIN 10 of bókstafleg eða eru þau sígild og einföld framsetning /vegvísir /skilaboð/ frá einhverju okkur æðra til jarðarbúa?
Jón Þórhallsson, 25.3.2016 kl. 18:36
JÞ: "Boðorðin tíu" eru ágætt dæmi um reglur eða forsendur sem m.a. Gyðingar hafa fundið út í tímans rás að séu nauðsynlegar til þess að friðsamlegt samfélag manna gæti þrifist í sæmilegri sátt og samlyndi.
Kristinn Snævar Jónsson, 25.3.2016 kl. 18:49
HRÓ (ad. 8): Á ég að skilja spurningu þína: (1) „bókstaflega“ <eins og ég les hana, þessi tilteknu orð út af fyrir sig>, EÐA (2) býr eitthvað meira undir henni þótt þú orðir hana svona einfaldlega og sem kallar þá á annað eða ýtarlegra svar? - sem ég gæti þá reynt að túlka út frá mínum forsendum og meintum forsendum og tilgangi þínum og þannig lagst út í túlkanir á hvað þú meinar raunverulega og þá svarað tilsvarandi? - Íhugaðu þetta og þá ættirðu að hafa einfalt svar við spurningu þinni.
Kristinn Snævar Jónsson, 26.3.2016 kl. 17:25
Sæll. Mér sýnist þú vera að flokka 1. sem bókstaflegan skilning og 2. þá sem e.k. ekki-bókstaflegan skilning.
Gætirðu ekki bara komið með einfaldara svar, svo ég þurfi ekki að rembast við að reyna að lesa það úr þessu svari þínu?Mér sýnist t.d. að þú teljir að "bókstafleg túlkun" þýði að það sé ekki lesið í samhengi og ekki gert ráð fyrir forsendum höfundar. Er það rétt ágiskun hjá mér? Þarf eitthvað meira?
Hjalti Rúnar Ómarsson, 26.3.2016 kl. 23:45
Hvaða skoðun hefur þú Jón, á að sá tveim tegundum af korni í sama akur eða ganga í fötum ofnum úr tveim efnum eða fleirum? Biblían er mjög skýr hvað þetta varðar, og fyrst verið er að andskotast úr í samkynhneigð hljóta hin atriðin að vega jafn þungt hjá "sannkristnum". Hvað með að konur tjái sig á samkomum? Ekki ertu hræsnari sem finnur bara réttlætingu á eigin fordómum í biflíunni?
Reputo, 28.3.2016 kl. 16:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.