10.6.2015 | 10:19
Óheildstæð hagstjórn?
Í þeim tilgangi að sporna við þenslu í hagkerfinu væri nær að beita fjármálastjórn ríkisins í gegnum skatta- og bótakerfið og útgjaldastefnu í stað vaxtahækkana, ef raunverulegur tilgangur vaxtahækkana er að verjast væntri þenslu í hagkerfinu eða tilraun til að koma í veg fyrir of mikla þenslu.
Ef eitthvað ýtir undir verðbólguvæntingar og verðbólgu þá eru það stýrivaxtahækkanir Seðlabankans, en með þeim segist hann aftur á móti leitast við að slá á verðbólgu!
Með slagkröftugum tækjum fjármálastjórnar ríkisins er hægt að minnka umsvifin í hagkerfinu með því að auka tekjur ríkisins og/eða draga úr útgjöldum þess, sem kæmi ríkissjóði beint til góða og þar með öllum almenningi óbeint til góða til örlítið lengri tíma litið þar sem ríkið gæti varið auknum fjármunum sem það hefði þá yfir að ráða t.d. til lækkunar á skuldum ríkisins.
Vaxtahækkanir koma hins vegar fyrst og fremst bankakerfinu og fjármagnseigendum beint til góða jafnframt því að draga úr ráðstöfunartekjum einstaklinga/heimila, sérstaklega skuldsettra einstaklinga, og auka kostnað skuldsettra fyrirtækja og dregur þar með úr hvata til atvinnusköpunar og eykur hættu á atvinnumissi einhverra.
Á sama degi og Seðlabankinn tilkynnir umtalsverða vaxtahækkun með þeim rökum að hún sé ætluð sem mótaðgerð við vænta þenslu í hagkerfinu birtist frétt af fjármálaráðherra, formanni Sjálfstæðisflokksins, þar sem hann viðrar hugmyndir sínar um skattalækkanir!
Með þessu móti væru stefnur Seðlabankans og fjármálaráðherra gagnverkandi. Segja mætti, með einfölduðum hætti, að sá kokteill feli í raun í sér tilfærslur á fé frá ríkinu og einstaklingum og fyrirtækjum, gegnum einkageirann, til bankakerfisins og fjármagnseigenda.
Þetta er þverstæðukennt og leiðir til spurninga um hvort slík víxlverkun sé skynsöm og réttlát hagstjórn á heildina litið fyrir þegna þessa lands.
Hækka stýrivexti bankans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Kjaramál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.