13.5.2015 | 12:09
Ætlar launþegaforystan hamfaraleið með almenning?
Erfitt er að skilja á hvaða vegferð forystufólk launþega er þegar það er að teyma umbjóðendur sína út í forað öfgakenndra víxlhækkana launa og verðlags, sem er þrautreynd hamfaraleið fyrir almenning um áratuga skeið. Ekki síst skuldara verðtryggðra lána, bæði heimili og fyrirtæki.
Ég get tekið undir orð aðalhagfræðings Seðlabankans þar sem hann segir hið augljósa um afleiðingar innistæðulausra almennra ofur-kauphækkana, og launþegaforystan ætti að skilja og verður að skilja og gaumgæfa. Hann segir:
Þeir sem koma verst út úr þessu eru þeir sem eru með lág laun vegna þess að þeir verða fyrstir til þess að missa vinnuna. Ég skil ekki hvaða hagsmuni er verið að verja í þessari baráttu.
Ekki er nema von að spurt sé.
Þeir sem eru með lág "laun" eru þeir lægst launuðu sem hafa þó atvinnu, en ekki síst það fólk sem er atvinnulaust eða á bótum eða félagsaðstoð, öryrkjar og lífeyrisþegar.
Þetta fólk verður um leið verst úti vegna beinna áhrifa hækkandi verðlags. Þeir sem þar að auki skulda verðtryggð lán fá svo í "kaupbæti" neikvæðan "bónus" í formi stórhækkaðs lánskostnaðar. Hvernig í ósköpunum færi fyrir þessu fólki? Og hefur það nú erfitt í lífsbaráttunni eins og er.
Atvinnulífið fær sinn skerf af verðbólgunni í formi hærri rekstrarkostnaðar sem auk launahækkana verður að einhverju eða öllu leyti velt út í verðlagið. Þetta verkar þar að auki hamlandi á atvinnuframboð.
Þetta er gjörþekkt sviðsmynd hérlendis af reynslunni af undangengnum verðbólguáratugum. Að hámenntað og vel greint fólk ætli að fara þessa vitfirringslegu leið með almenning og efnahagslíf er óskiljanlegt og nær engri átt.
Fólk í hópi samningsaðila sannar ekki hæfni sína með óábyrgri heift í skugga verkfallshótana sem leiðir til þekktrar kollsteypu, heldur með skynsemi sem stuðlar að viðvarandi og vaxandi kaupmætti.
Hvaða hagsmuni er verið að verja? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Í viðtali í hádegisfréttum RÚV í dag (13.5.2015) ítrekar Már Guðmundsson seðlabankastjóri mikilvægi þess að aðilar vinnumarkaðarins fari ekki þá kollsteypuleið sem yrði afleiðing af öfgakenndum víxlhækkunum launa og verðlagssíðan.
Bendir hann þess í stað á nauðsyn þess að fara leið hógværra almennra kauphækkana til að forðast þá kollsteypu, en rétta hlut hinna tekjulægstu og annarra með þeim ýmsu leiðum til tekjudreifingar sem ríkisvaldið hefur gegnum skattakerfi og bótakerfi. - Við skulum vona að ríkisstjórnin slái ekki slíkar leiðir út af borðinu.
Kristinn Snævar Jónsson, 13.5.2015 kl. 12:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.