Um fréttir af veiðigjöldum

Hálfsannleikur í villandi samhengi er settur fram í meðfylgjandi fréttatilkynningu um þróun veiðigjalda á fréttasíðu sem heitir T24.
Þar er upphæð veiðigjalda deilt niður á hvern íbúa á viðkomandi útgerðarstöðum. Samkvæmt fréttinni mætti ætla að veiðigjöld séu heldur betur viðbótarálögur beint á íbúana. Fjarri fer því! Það er auðvitað fjarri lagi að stilla þessu upp svona.
Það eru auðvitað útgerðirnar sem greiða veiðigjöldin en ekki íbúarnir á staðnum.
Sömuleiðis eru það útgerðirnar sem fá tekjurnar af veiðunum en ekki íbúarnir.

Það hefði mátt sýna í greinargerðinni hverjar tekjurnar voru á umræddu tímabili, en þær deilast ekki niður á hvern íbúa á staðnum þeim til úthlutunar við aflasölu frekar en veiðigjöldin.
Sömuleiðis hefði mátt birta upphæðir annarra helstu kostnaðarliða, svo sem fyrir launakostnað og olíukostnað.
Enn hefði mátt sýna hvernig fiskverð hefur þróast á sama tímabili. Þá hefði e.t.v. sést að það er ekki einungis vegna hækkunar veiðigjalda sem sumar tegundir fiskiskipa eru ekki lengur eins hagkvæmar og áður (sbr. skipasölur úr landi undanfarið), heldur er það einnig vegna olíukostnaðar og tekjulækkunar vegna lækkandi fiskverðs á erlendum mörkuðum.

Líta ber á veiðileyfagjald sem einn af útgangspunktum rekstrarkostnðar við útgerð sem gengið er út frá sem vísum fyrirfram við reksturinn en ekki sem afgangsstærð sem dregst síðast frá hagnaði eftir á.

Alveg þar fyrir utan má svo endalaust deila um hve hátt veiðileyfagjaldið á að vera, en það ætti að vera einfalt krónutölugjald pr. aflakíló, sem gæti verið mishátt eftir fisktegundum og fiskiskipategundum og jafnvel háð fleiri atriðum.
Alls ekki ætti að reikna veiðileyfagjaldið eftir á og tengja það reiknaðri rekstrarafkomu síðasta árs hverju sinni eins og fyrrverandi ríkisstjórn ætlaði að haga málum, en það er afar óskynsöm, ónákvæm og óskilvirk aðferð (og óframkvæmanleg með þeim ónákvæma hætti eins og hugmyndin var samkvæmt þeim lögum sem felld voru úr gildi).


mbl.is Veiðigjöldin nífölduðust á fjórum árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Já, en það er svona sem pólitíkin vinnur þegar þarf að gera ræningjann að píslarvotti.

Fiskveiðistjórnun okkar byggist á blekkingum sem í daglegu tali kallast reyndar lygi.

Fregnir frá Noregi og Færeyjum sýna okkur hvernig fiskistofnar í lögsögu þjóða verða að efnahagslegu kraftaverki þegar náttúran fær að ganga sína leið óáreitt í stað þess að vera læst í fjötra lyginnar.

Sérhagsmunir keyrðir af pólitískri spillingu þurfa ævinlega á blekkingum og lygi að halda. 

Árni Gunnarsson, 24.2.2014 kl. 08:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband