18.11.2013 | 11:36
Landið sem lengi var
Ómar Ragnarsson bendir á það á bloggsíðu sinni í sambandi við óvarkárt bruðl á náttúruauðlindum að við skulum ekki gleyma því að við höfum aðeins eina jörð.
Hegðun þjóða heims í þeim efnum gæti þó fremur bent til að litið væri á auðlindirnar sem óþrjótandi.
Það er hins vegar sannarlega svo að við höfum aðeins þessa einu undursamlegu Jörð til að lifa á og af. Þó hefur hún bókstaflega verið fótum troðin og aldrei eins og nú, af um fjórtán milljörðum fótum manna sem fer enn ört fjölgandi. Þá eru ótaldir fætur dýranna og landnýtingarvélar og farartæki mannanna og síétandi munnar milljarða manna og dýra. Þetta getur ekki gengið til langframa með sama hætti og hingað til.
Vandamálin sem blasa við eru þverrandi auðlindir sem nauðsynlegar eru mannkyni (og dýrum) til lífsviðurværis, landeyðing og mengun lífrýmisins á landi, í lofti og höfum. Þessu veldur, eðli málsins samkvæmt, sívaxandi mannfjöldi og nánast stjórnlaus mannfjölgun og ósjálfbærir lifnaðarhættir og rányrkja.
Skýrsla Rómarklúbbsins svonefnda frá 1972, sem fram kemur í bókinni The Limits to Growth (Meadows o.fl.; Hjá Gyldendal 1974 Grænser for vækst) olli ýmsum léttu sjokki á sínum tíma, þar á meðal mér sem ásamt fleiru hefur haft varanleg áhrif á mig í þessum efnum.
Það var ekki síst vegna þess að í kjölfar hennar skall á svokölluð olíukreppa í Evrópu 1973 vegna tímabundinnar minnkunar á framboði á olíu meðal OPEC-ríkjanna sem vildu fá meira fyrir sinn snúð. Þá varð t.d. í Danmörku að grípa til skömmtunar á olíu og bensíni og takmörkunar á raforkunotkun. Á Íslandi varð fólk að vísu ekki mikið vart við þetta ástand vegna þess að olía rann þangað óhindrað annars staðar frá (Rússlandi) eftir sem áður.
Ég var þá við nám í Kaupmannahöfn á þessum tíma og þar var olía til húshitunar skömmtuð veturinn 1973-74 og sömuleiðis eldsneyti á bíla. Íbúðir voru því án miðstöðvarhitunar meirihluta vikunnar og einungis kalt vatn úr krönum og sturtum samhliða því og rafmagn þurfti að spara eins og mögulegt var.
Þetta ástand sýndi svart á hvítu, beint í æð, hvers gæti verið að vænta er auðlindir eins og olía væru raunverulega orðnar af skornum skammti.
Árið 1998 gaf ég út plötuna Kveikjur (CD) með eigin efni flutt af landsliði tónlistarmanna, sem inniheldur m.a. nokkur lög með textum með náttúrulegum hugvekjum, en þá stóðu deilur um fyrirhugaða Eyjabakkavirkjun sem hæst og vildi ég með þessum hætti leggja lóð á vogarskálar. Þar á meðal er lagið Landið sem lengi var, þar sem varpað er fram nokkrum sviðsmyndum um þessi efni. Hægt er að hlusta á það hér í spilaranum mínum.
Textinn við lagið er eftirfarandi:
Landið sem lengi var
(Á Kveikjur 1998. © Höf. Kristinn Snævar Jónsson)
Hve yndisleg sýnir sig okkar Jörð,
þar sem ósnortin náttúran rís.
Um árþúsundir hafa erjað svörð:
Eldur, vatn, vindur og ís.
Og fallega hefur svo flóran klætt
fjöll og merkur í snilldarlegt skrúð.
En öllu þessu er orðið mjög hætt,
ef ekki er betur að hlúð.
(Viðlag):
Því landið, sem svo lengi var;
laust við mannanna umrót og þrengingar.
Það er svo viðkvæmt og auðveld bráð;
öllu umturnað verður ef ekki - að er gáð.
Grandað er lífi, af gróðri sneitt,
og geigvænleg mengun er leyfð.
Rist er í jörð og regnskógum eytt,
við rányrkju spornað með deyfð.
(Viðlag)
Þá börnunum okkar við bjóðum stað,
þar sem bergmálar aldanna kyrrð.
Þeim ómetanlegt er að upplifa það,
sem ósnortið kom úr ára firð.
Galið að eyða helíum í partíblöðrur? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Lífstíll, Umhverfismál, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.