3.2.2013 | 13:39
Persónulegur smekkur um Eurovision-úrslit
Í Eurovision-forkeppninni í Svíþjóð 1973 fóru tveir ljóshærðir og stæðilegir piltar með meðalsítt hár með nauman sigur af hólmi með hæg-þungu og væmnu ballöðu-lagi "Sommaren ..." (eitthvað svoleiðis).
Ég var þvílíkt svekktur yfir þessum úrslitum fyrir mína hönd og Svíþjóðar og það kom (mér) mjög á óvart að þeir og lag þeirra var valið fram yfir fjörugt lag sem maður greip strax við fyrstu hlustun, en það var lagið "Ring, ring" flutt af tveimur óþekktum piltum og tveimur stúlkum (a.m.k. í Danmörku þar sem ég dvaldist þá og fylgdist vel með hinum vikulegu Top 20 með Jörgen Mylius og Dansktoppen í DR). Önnur stúlkan, síð-ljóshærð, var kasólétt, en það hefur e.t.v. ekki skipt máli. Hvað um það, að ári liðnu (1974) sigruðu þau fjórmenningarnir síðan sömu keppni verðskuldað með lagi sínu "Waterloo", efld að afli. Aðalkeppnina tóku þau svo með húð, klæðnaði og hári, þar sem þau komu, sungu og sigruðu. Flestir ættu að skilja hvers vegna. Þetta var smella-hópurinn ABBA!
Þessi lagasaga hvarflaði að mér þegar óvænt úrslitin voru kunngerð í gærkveldi um sigurlag Íslands sem framlag til Eurovision-keppninnar í ár. Þau finnast mér furðuleg (auðvitað bara smekksatriði hjá mér) í ljósi þess að mér finnst keppinauturinn á lokasprettinum, lagið "Ég syng", margfalt líflegra og meira grípandi en hitt og ekki eins leiðigjarnt. (Burtséð frá ýmsum fleiri flutningslegum atriðum sem vissulega skipta máli). Hliðstæðan við sigur keimlíkrar einsskiptis ballöðu sænsku piltanna yfir langlífu stuðlagi ABBA 1973 finnst mér sláandi.
Einnig get ég ekki stillt mig um að taka fram að ég átti allt eins von á því að hið mikla og gæsahúðarmagnaða lag Birgittu Haukdal, "Meðal andanna", kæmist í úrslitin og þaðan af lengra ef "fönnið" í laginu "Ég syng" yrði ekki ofan á. Ég hefði verið mjög sáttur við það, enn talandi út frá algjörlega persónulegum smekk auðvitað og að hinum lögunum ólöstuðum.
Það kæmi mér ekki á óvart að "fön"-lagið "Ég syng" og "Meðal andanna" verði langlífari en það sem valið var (af einhverjum) til aðalkeppninnar í vor, en það verður önnur lagasaga.
Sænsku piltarnir tveir frá Svíþjóð sem framar er getið náðu reyndar, furðulegt nokk, 5. sæti í Eurovision-keppninni það ár með enskum texta á lagi sínu, "You are summer", en þá sigraði Luxemborg með "Tu te reconnaîtras" og Cliff Richard var í 3. sæti með "Power to all our friends". (Man ekki einhver eftir því fjöruga stuð-lagi með Cliff? Ég man hins vegar ekkert eftir sigurlaginu sem var hæggengt, dapur-angurvært og dramatískt í dæmigerðum "Mið-Eurovískum" stíl þess tíma en flutt af góð-kröftugri söngkonu í rauðum síðum kjól. Cliff var reyndar líka í rauðri skyrtu!).
Það er því ekki með öllu vonlaust að hæægvirk sykurlöððrandi ballaðan frá Íslandi komist í efri hluta úrslitalistans í Eurovision á sænskri grundu í vor.
En, að sjálfsögðu óska ég sigurlaginu nú velfarnaðar og aðstandendum þess og góð-kröftugum söngvara þess til hamingju. Það er ekki spurning. Það er næsta víst að söngvarinn á gott sönglíf framundan.
Ég á líf verður framlag Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Tónlist | Breytt s.d. kl. 14:44 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.