Afstaða með hinu góða gegn hinu illa

Kolbrún Bergþórsdóttir ritar góðan og síþarfan pistil í Morgunblaðið í dag, 20.12.2012 s. 24, sem ber yfirskriftina "Trúin og blóm við dómkirkju". Þar bendir hún m.a. á nauðsyn þess að standa með hinu góða og hafna því illa, sérstaklega þegar áföll dynja yfir, svo sem hryðjuverk af manna völdum eins og í Noregi í fyrra og í Bandaríkjunum nýverið. Fólk bregðist við á mismunandi hátt og hafi mismunandi aðferðir við það. Sumir sæki í trú sína og finni þar huggun í trúarskoðunum sínum. Annað vel innrætt fólk sýni einfaldlega jákvæð viðbrögð og samhygð af því að það er því eðlilegt. Það hafi jákvæða afstöðu til lífsins og trúi "á góð öfl í tilverunni og vilji standa með þeim"; Þrátt fyrir úrtöluraddir samtaka sem sé "í nöp við kristna trú og kirkju", en þau eigi ekki upp á pallborðið hjá fólki sem sé einfaldlega gott og leggi t.d. blóm við kirkju til að sýna samhug með þolendum voðaverka í verki og gegn illskunni.
- Þetta eru spekiorð sem Kolbrún fer hér með.

Menn geta endalaust deilt um trú og trúarbrögð og sannleika í því sambandi, enda fer sú umræða oft fram á röngum forsendum.
Hitt er annað að heiðarlega iðkuð trúarbrögð sem er einnig heiðarlega stjórnað eru eitt sterkasta og áhrifaríkasta "tækið" eða aðferðin til að móta siðferðislega, jákvæða og uppbyggilega afstöðu einstaklinga gagnvart hver öðrum í mannlegu samfélagi til að viðhalda sátt og friði. Á þetta hafa félagsfræðingar eins og Emile Durkheim (1858-1917) bent. Landslög um siðferðisleg málefni þurfa þó vissulega einnig að vera til staðar, þeim til leiðsagnar, eftirbreytni og ögunar sem siðblindir eru. Um það ritaði t.d. Lúter (1483-1546) á sínum tíma, en það ætti að vera augljóst öllum mönnum í dag.

Sem betur fer gerir þorri fólks sér grein fyrir muninum á góðu og illu og tekur afstöðu með hinu góða og gegn hinu illa eða illskuverkum. Það virðist því dálítið öfugsnúin afstaða hjá afmörkuðum trúarandstæðum hópum eða öðrum sem segjast hafa uppbyggilega og jákvæða siðmenningu að leiðarljósi að berjast gegn stórum hópum trúaðra í stað þess einfaldlega að leggjast á árarnar með þeim sem liðsmenn hins góða í altækri baráttunni gegn hinu illa; Hver eftir sinni leið að sama marki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband