12.11.2012 | 15:25
Það hefði hvinið í Dönum
Ég sé fyrir mér vandlætingarsama vinnufélagana í Danmörku taka bakföll af hneykslan og heilagri reiði ef þeir samfara fréttum um hækkun verðvísitölu hefðu þurft að kyngja því að skuldir þeirra hefðu hækkað samsvarandi af þeim sökum. Skiptir þá engu máli þótt ársverðbólgan mælist "aðeins" 2,3%, hvað þá heldur upp í tveggja stafa tölu.
Hérlendis var fólk orðið all-dofið gagnvart þeim íslenska veruleika og áþján að neytendalán eru tengd neysluverðsvísitölu þegar verðbólgan tók stökk upp á við snemma árs 2008 og með vaxandi hraða við bankahrunið um haustið og gerði leiftursnögga árás - eins og þungvopnuð herþota í stungu sinni að árásarmarkinu - beint á skuldum hlaðið fólkið og fyrirtæki, almenning, varnarlauan á jörðu niðri.
SKEMMST er frá því að segja að verðbólguþotan hitti gjörsamlega eins og ávallt með beinskeyttum og sértækum og skuldarasæknum verðbólguskotum sínum beint í verðtryggð mörk sín, verðtryggð lán, og tókst að tvístra fórnarlömbunum í allar áttir og skilja mörg heimili og fyrirtæki eftir í rústum. Afleiðingarnar koma æ betur í ljós eftir því sem árásarreykurinn stígur upp frá rústunum. Eldar loga þó enn og, það sem verra er, fara vaxandi en ekki minnkandi.
Því miður reynist skaðinn mun víðtækari en bjartsýnustu ríkisstjórnarmenn óraði fyrir, enda virðast röng greiningargleraugu hafa villt þeim sýn.
Ekki var gripið til ráðstafana sem blöstu við í síðasta lagi á fyrsta bankahrunsdeginum, þ.e. að frysta verðtryggingarvísitölur sökum forsendubrestsins.
Þess í stað voru þær látnar óáreittar og leyft að leika lausum hala í höfuðstól verðtryggðra lána í samræmi við gengishrun og stýrivaxtahækkanir og aðrar kostnaðarhækkanir og álögur innanlands.
Með þessu glórulausa aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar og plástursaðgerðum hennar, sem aðeins lengja í hengingaról illa staddra skuldara, hefur eyðingarbál verðtryggingar lána rústað fjárhag tugþúsunda skuldara, heimila og fyrirtækja. Og áfram er haldið á þeirri feigðarbraut meðan siðapostular verðtryggingar hrópa af fjárhaugum sínum að siðlaust væri að afnema verðtryggingu lána þar sem þá myndi sparifé brenna upp á verðbólgubálinu. Engu er líkara en að þeim sé sama þótt verðtryggingin sé á hinn bóginn að ræna viðkomandi lántakendur með hliðstæðum hætti öllum eignum þeirra, og meira en það, þar sem þeir sitja þess utan uppi með himinháar skuldir reiknaðra verðbóta þegar eiginfé þeirra er upp urið með engar eignir á móti nema von um framtíðarvinnutekjur.
Ljóst ætti að vera að hér þarf að fara bil beggja þannig að sæmileg sátt náist um þessi mál í landinu. Báðir aðilar, bæði lánveitendur og lántakar, verða að bera sameiginlega áhættuna af verðþróun á lánstíma lána. Það verður enginn friður annars.
Undanfarnir áratugir allt frá tíma óverðtryggðra lána og langvarandi verðbólgu upp á tugi prósenta á ári samhliða verðtryggðum lánum og óverðtryggðum launum hafa opinberað hina tvo eyðandi öfga tengt verðbólgu: Bruna sparifjár sparifjáreigenda fyrir tíma verðtryggingar lána annars vegar og eignabruna skuldara eftir tilkomu verðtryggðra lána hins vegar.
Löngu tímabært er að þessu stríði lánveitenda og lántakenda linni með sátt og nauðsynlegri leiðréttingu nú þegar nægilega langt aftur í tímann. Núverandi ríkisstjórn gerir sér ekki grein fyrir þessum vanda, eða aðhefst a.m.k. ekki með viðhlýtandi hætti.
Samstaða með báðum aðilum þarf að koma til.
Yfirvofandi endurnýjuð hrunstjórn S-S (Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar) er ekki líkleg til að leysa málið farsællega með ásættanlegri lausn fyrir báða aðila. Hvorugur þessara flokka gerði það í þeim ríkisstjórnum sem starfað hafa í kjölfar bankahrunsins.
Eða, er ástæða til að ætla að þeir muni hafa breytt um grundvallaráherslur í þessum málum næsta vor og taki þá sniðgenginn hluta kjósenda, skuldum þjakaðan almenning, einnig í hóp skjólstæðinga sinna?
Dregur úr verðbólgu í Danmörku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Kjaramál, Trúmál og siðferði, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:33 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.