Sannfæring á fölskum forsendum

Faðir og móðir myrða táningsdóttur sína með köldu blóði á hryllilegan og hægvirkan hátt fyrir þær "sakir" að hafa "gjóað augunum á unglingspilt". Þetta gera þau að því er virðist vegna trúarsannfæringar sinnar sem þeim hefur verið innrætt í krafti trúarbragða og á vegum viðkomandi fræðara og trúarleiðtoga. Firringin kórónast síðan með því að guði er kennt um glæpinn, með því að halda því fram að  hann hafi viljað að þau dræpu barn sitt! - Hvílík rökleysa!

Þetta er ógeðfellt dæmi um það er trúarbrögð "verða ill", eins og trúarbragðafræðingurinn Charles Kimball prófessor fjallar um á skilmerkilegan hátt í bók sinni When Religion Becomes Evil: Five Warning Signs (HarperSanFrancisco 2002), m.a. um blinda hlýðni eins og hér um ræðir. Trúarleiðtogar bera  hér þunga ábyrgð vegna þess að það eru þeir sem réttlæta og viðhalda þeirri túlkun sem meðal annars er iðkuð á þennan harðneskjulega hátt.

Þessi blinda trúariðkun fyrirfinnst þó ekki aðeins í löndum eins og því sem sagt er frá hér í viðtengdri frétt.
Hún er líka til staðar í ýmsum sértrúarsöfnuðum á Vesturlöndum og ekki síður í hópum sem berjast fyrir einhverjum málefnum á veraldlegu sviði í krafti sannfæringar sem þeir hafa viðtekið og gert að sínum. Sem betur fer er þó ekki algengt að slík iðkun leiði til morða.
Nærtækt dæmi af því tagi er svokölluð "Teboðshreyfing" í Bandaríkjunum. Frá henni, baráttumálum hennar, starfsaðferðum og bakhjörlum var greint í athyglisverðum og sjokkerandi heimildarþætti, "The Billionaires' Tea Party", sem sýndur var í Sjónvarpinu/RÚV 31.10.2012. Þetta er kallað grasrótarhreyfing þar sem "venjulegt" fólk úr hópi almennings lætur sannfærast af pólitískum markmiðum undir merkjum frelsis sem í reynd eru andstæð velferð sama almennings en gagnast stórum fjölþjóðlegum fyrirtækjum sem fjármagna m.a. öflugar auglýsingaherferðir hreyfingarinnar. Dæmi um það er barátta hreyfingarinnar gegn viðleitni núverandi forseta landsins um umbætur til handa almenningi á sviði sjúkratrygginga.

Þetta eru allt dæmi um það er einstaklingar láta af hendi sjálfstæði sitt og/eða undirgangast kúgun og þöggun við skoðanamyndun um mikilvæg málefni og gera sannfæringu og/eða boð annarra að sinni sannfæringu.
Þetta gerist þó oft og  iðulega "í góðri trú" og vegna þeirrar grunnhyggni og leti eða tímaskorts að hafa ekki fyrir því að afla sér upplýsinga og þekkingar um viðkomandi málefni til að taka síðan afstöðu á gagnrýnan hátt og á eigin forsendum og í samræmi við leiðsögn eigin samvisku. Í versta falli verður persónuleg sannfæring þá mótuð á fölskum forsendum.


mbl.is Segir morð á dóttur „vilja guðs“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

PS. Á stjórnmálalegum vettvangi ættum við Íslendingar þó að líta okkur nær og allir kjósendur ættu að spyrja sig meðal annars og svara samviskusamlega hver fyrir sig hvort sá flokkur sem þeir hafa kosið hingað til hafi í reynd staðið vörð um hagsmuni kjósandans og almennings og í samræmi við kosningaloforðin sem kjósandinn hefur látið sannfærast af á sínum tíma.

Kristinn Snævar Jónsson, 5.11.2012 kl. 11:37

2 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

ok

Sleggjan og Hvellurinn, 6.11.2012 kl. 01:16

3 Smámynd: Birnuson

Ég þakka fyrir mig.

Birnuson, 6.11.2012 kl. 14:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband