28.8.2012 | 00:01
Flokksformaðurinn leggur spilin á borðið
Í síðasta lagi í væntanlegri kosningabaráttu hlýtur Steingrímur J. Sigfússon fyrrverandi fjármálaráðherra og formaður annars stjórnarflokkanna að leggja spilin á borðið og útskýra fyrir þjóðinni hvers vegna vextir voru hækkaðir hér í hástert, 18%, fljótlega eftir hrunið 2008 og eftir að þeir höfðu þó fyrst verið lækkaðir. Augljóslega var engin ástæða til þess, eins og margoft hefur verið ítrekað og rökstutt á þessu bloggi; Ekki þurfti að leitast við að hækka vexti til að halda erlendu fjármagni í landinu þar sem gjaldeyrishöft höfðu verið sett til að koma í veg fyrir útstreymi gjaldeyris (því sem eftir var þá). Hækkun vaxta gagnaðist því fyrst og fremst þeim sem sátu fastir með fé sitt í landinu, eins og góðar "sárabætur". Innlendir fjármagnseigendur nutu einnig góðs af, meðan þeir sem síst skyldi, allir skuldarar, heimili og fyrirtæki, borguðu brúsann tilneyddir, síst aflögufærir í ástandinu.
Engar viðurkenningar á þessari staðreynd um hávaxtastefnuna bárust úr þöglu húsi Seðlabankans en þar var aftur á móti sífellt klifað á hættu á eftirspurnar-verðbólgu á ósannfærandi hátt, sem stemma þyrfti stigu við með hressilegri hækkun vaxta.
Hver hugsandi maður gat séð og ætti að sjá að ekki þurfti að hækka vexti til þess að sporna við því sem ekki var fyrir hendi, þar sem mikill slaki myndaðist strax í efnahagslífinu í kjölfar hrunsins; Eða hafa ekki allir heyrt talað um t.d. mikið atvinnuleysi og minnkandi kaupmátt almennings sem þá blasti við?
Einnig er ljóst að sérfræðingar Seðlabankans og ráðamenn þar með óbrenglaða almenna skynsemi hafa vitað betur en álíta að nauðsynlegt væri að halda vöxtum háum til að forða ofhitnun í efnahagslífinu; þar var allt hraðkólnandi og bæði heimili og eftirlifandi fyrirtæki að sligast undan vaxtaokri. Hávaxtastefnan hefur því líklega verið ákveðin og keyrð áfram af aðilum á hærri stöðum efnahagsstjórnar landsins.
Fróðlegt verður því að heyra loksins um hina raunverulegu ástæðu og gangráða hávaxta-helstefnunnar þegar fjármálaráðherrann fyrrverandi mun útskýra þá helstefnu gegn almenningi á síðustu dögum stjórnar sinnar sem brátt fara í hönd. Hann mun óhjákvæmilega koma með útskýringar á því í viðleitni sinni til að komast hjá vanþóknun og höfnun kjósenda. Spurningin er hverjir muni sitja uppi með þann Svarta-Pétur og hvort þeir muni kallast sökudólgar eða fórnarlömb.
Gjaldið betur lagt á fyrr | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
En Steingrímur komst ekki til valda fyrr en í febrúar 2009. — Hversvegna á hann þá að þurfa að skýra hækkun Geirs H Haarde og Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra á stýrivöxtum í 18% í nóvember 2008? Síðan Stengrímur tók við völdum hafa vextir ekki gert annað en að lækka og það mjög verulega og einmitt sérstaklega fyrstu tvö árin sem hann fór með völd.
Er ekki rétt að þú heimtir skýringar frá þeim sem fóru með völd og ákváðu þá háu vexti sem voru í aðdraganda hrunsins og náðu hámarki í 18% skömmu eftir hrun 2008. Þeir sem réðu þessu voru fyrst og fremst Davíð Oddsson þv seðlabankastjóra sem neitaði að láta af völdum eftir ríkisstjóranrskipti en heyrði áður undir Geir H Haarde þv forsætisráðherra.
Það er stór furðulegt er að snúa þessari spurningu um vexti ársins 2008 uppá Steingrím J SIgfússon sem kom þar hvergi nálægt, og í raun óskiljanlegt nema annaðhvort að spyrjandi sé hrópandi vitgrannur og fáfróður og viti ekki að Steingrímur varð ráðherra 2009 eftir búsáhaldabyltinguna, og að eftir það tók all verulegna tíma að koma Davíð Oddssyni seðlabankastjóra frá völdum, eða spyrjandi reynir hér dæmalausar illkvitnar blekkingar.
Helgi Jóhann Hauksson, 29.8.2012 kl. 04:23
Ekki veit ég hvað Helga Jóhanni gengur til með ósmekklegum athugasemdum sínum hér um mig sem pistilhöfund (sem ég var að taka eftir núna), en ég reyndi að útskýra fyrir honum það sem stendur og ekki síst það sem stendur ekki í pistlinum í framhaldi af athugasemdum hans við pistilinn á Facebook þar sem vitnað var í hann;
Hefur hann að því er virðist átt í vandræðum með lestur og skilning á pistlinum og farið mikinn við að túlka út úr honum eitthvað sem ekki stendur þar.
Til upplýsingar birti ég svör mín af Facebook-athugasemdaslóðinni þessu tengt (sbr. http://www.facebook.com/rakel.sigurgeirsdottir, 29.8.2012):
Helgi byrjar á að skrifa þar eftirfarandi 29.8.2012 kl.4:09am:
"EN síðan Stengrímur tók við völdum hafa vextir ekki gert annað en að lækka og það mjög verulega. — Hversvegna á hann þá að þurfa að skýra hækkun Geirs H Haarde og Davíðs Oddssonar á stýrivöxtum í 18% í nóvember 2008?"
(Fleiri lögðu þá orð í belg) ...
Ég sé þetta og svara þ. 29.8.2012, kl. 9:40pm:
"Sælt veri fólkið, þrátt fyrir allt.
Í pistli mínum sem hér er vitnað til bendi ég hvergi á hvaða aðili, öfl eða ástæður, ríkisstjórn eða ráðherrar, muni hafa staðið að baki stórhækkun stýrivaxta Seðlabankans eftir bankahrunið, heldur þvert á móti lýsi ég eftir raunsönnum útskýringum á hinum himinháu vöxtum sem lögðust sem viðbótarkostnaður á alla skuldara sem voru fyrir að sligast undan verðbótum og vöxtum ásamt öðrum venjulegum útgjöldum.
Bið ég fólk um að ætla mér ekki meiningar í því sambandi.
Það þurfti ekki að hækka vexti til að stemma stigu við eftirspurnarknúinni verðbólgu eins og Seðlabankinn hefur klifað á að hafi þurft eða til að halda innistæðum erlendra og annarra aðila í landinu samfara gjaldeyrishöftum.
Trúverðugar skýringar á hávaxtastefnunni sem rekin hefur verið eftir hrunið hafa ekki fengist enn að mínu mati og þess vegna bind ég vonir við aðstæðurnar fyrir næstu kosningar þegar ríkisstjórnin verður í upplausn; Að þá muni t.d. “Gamli Steingrímur” birtast á ný og afhjúpa hvers vegna ríkisstjórn hans og hann sem fjármálaráðherra “urðu” að undirgangast þessa stefnu, vegna þess að hún gekk beinlínis gegn hagsmunum þeirra kjósenda, almúgans, sem flokkur hans og samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn sögðust standa fyrir áður en til stjórnarsamstarfsins kom. Hefur ríkisstjórnin tíðum verið vænd um að hafa slegið margþvældri skjaldborg um allt aðra aðila en þann almenning.
Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur að vísu í umræðunni iðulega verið ásakaður um að hafa staðið að baki þessarar stefnu enda lögðu fulltrúar hans hérlendis þessa stefnu til við stjórnvöld, eins og komið hefur fram í fréttum.
Spurningin er hins vegar hvers vegna stjórnvöld, bæði núverandi ríkisstjórn og forveri hennar í broddi fylkingar, undirgengust hana í þessu mæli.
Ég vil að þessi þögn verði rofin og allt komi upp á borðið. Eða er um að ræða eitthvað svo hryllilegt að það myndi skaða þjóðarhagsmuni Íslendinga út á við ef hið sanna kæmi opinberlega í ljós?"
Þá skrifar Helgi, kl. 10:04pm:
"Kristinn, þú einfaldlega málar upp þá mynd að Steingrímur sé sökudólgur og/eða sitji uppi með Svarta-Pétur og skuldi þjóðinni skýringar á því afhverju vextir voru hækkaðir í 18% — löngu fyrir hans valdatíð.
– EN þú veist samt vel að hvorugt er rétt, hvorki það að Steingrímur beri þar nokkra ábyrgð og hafi þar komið neitt nærri með neinum hætti (það voru þeir Davíð Oddsson og Geir H Haarde) né það að hann skuldi þjóðinni neinar skýringar á því sem hann á alls engan hlut að. — Eða hvernig í ósköpunum gæti hann sem kom hvergi nálægt þeim ákvörðunum yfirhöfuð skýrt þær fyrir þjóðinni? -eða nokkru sinni verið réttur maður til að skýra ákvarðanir Davíðs Oddssonar fyrir öðrum?"
Þá svara ég enn til frekari útskýringar, kl. 11:01pm:
"Helgi Jóhann: Vinsamlegast lestu pistilinn. Það er oftúlkun hjá þér að ég segi Steingrím eða einhvern annan tiltekinn einstakling "sökudólg" varðandi hávaxtastefnuna. Það ber ekki að túlka orð mín svo og ítreka ég það hér með til að taka af allan vafa með það.
Hitt er annað að vextir voru bæði í tíð "hrunstjórnarinnar" allt of háir og allt of lengi í tíð núverandi ríkisstjórnar líka (sbr. uppl. um daglega vexti aftur í tímann á vefsetri Seðlabankans). Eins og ég útskýri nánar í athugasemd minni er ég hreinlega að vonast til þess að senn líði að því að Steingrímur komi fram með nánari útskýringar á þróun þessara mála vegna þess að hann ætti að hafa þær og hlýtur í síðasta lagi í kosningabaráttunni að leggja þær fram til að verja ráðstafanir hins opinbera í þessum málum. Eftir að þær útskýringar koma fram munu spjótin beinast að einhverjum hlutaðeigandi "Svarta-Pétri" sem þá mun ekki geta vísað á einhvern annan. Sá aðili mun e.t.v. tjá sig sem fórnarlamb aðstæðna."
Þessar útskýringar hafa vonandi dugað um innihald pistilsins og túlkanir á honum.
(tímasetningar á Facebook: am= eftir miðnætti fram að hádegi, pm=eftir hádegi og á kvöldin).
Kristinn Snævar Jónsson, 31.8.2012 kl. 14:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.