29.7.2012 | 22:33
"Hjátrú", "aðaltrú" og sálfræði við efnahagsáföllum
Í viðtengdri frétt segir að "hjátrú" hafi aukist eftir hrun, samkvæmt viðtali við Fjólu Dögg Helgadóttur sálfræðing um samanburðarrannsóknir hennar á "hjátrú" milli landa.
Því miður kemur ekki fram nákvæm útskýring á skilgreiningu sálfræðingsins á þessu hugtaki "hjátrú", utan nokkurra dæma, og hvernig hann aðgreinir hana frá því sem þá hlýtur að vera miðað við, þ.e. "aðaltrú". Þegar talað er um "hjátrú" hvað er þá "aðaltrú" eða "rétttrúnaður"? Hvaða munur er á aðaltrú og hjátrú í þeim skilningi?
Hvernig hefur þróunin verið á fjölda fólks sem aðhyllist "aðaltrú" samanborið við "hjátrú" á umræddu tímabili? Er ekki samhengi þar á milli? Hvað með heildarfjölda þeirra sem aðhyllist einhvers konar átrúnað? Trúa þeir sem aðhyllast "hjátrú" jafnframt á tilvist guðs? Ef ekki, hvers vegna?
Er sams konar skilningur á hugtökunum "hjátrú" og "aðaltrú" eða átrúnaði almennt í samanburðarlöndunum? Ef ekki, hver er munurinn? Að hvaða leyti skýrir þá sá munur mun á stigi "hjátrúar" milli landanna?
Í greininni er bent á gagnrýna hugsun sem andstæðu við "hjátrúna", en hvar staðsetur sálfræðingurinn "aðaltrúna" í því samhengi? Hvar telur hann mörkin vera milli sálfræði og trúar í víðum skilningi að því er varðar til dæmis atferlisgreiningu og hugræna atferlismeðferð?
Í þessu ljósi eru umræddar rannsóknarniðurstöður afar ónákvæmar, a.m.k. fréttagreinin um þær, og erfitt að sjá hverju þær svara í reynd. Mér virðst það til dæmis afar mikil einföldun að ætla sér að byggja einhverjar vísindalegar kenningar um ráð og/eða aðferðir við persónulegum áföllum einstaklinga, eins og bankahruninu hérlendis, einungis með því að greina stig "hjátrúar" hjá fólki.
Hins vegar væri fróðlegt að sjá hvort og í hve miklu mæli einhvers konar trú, átrúnaður eða "huglægt haldreipi" gagnist einstaklingnum til að kljást við persónuleg áföll sín tengt efnahagskreppu þótt það í sjálfu sér leysi e.t.v. ekki fjárhagsleg atriði út af fyrir sig.
Hvernig svo sem tekst til með þá hlið mála skiptir meginmáli fyrir einstaklinginn í því samhengi og þar með þjóðina í heild hvernig honum tekst að komast í gegnum slíka erfiðleika. Varast skyldi að gera grín að "hjátrú" fólks, sérstaklega ef hún (í víðum skilningi) gagnast sem tæki til þess meðal annarra aðferða.
Í þessu samhengi greini ég á milli þess sem kalla mætti "trúarlega trú" eða átrúnað/trúarsetningar og "árangursmiðaða trú" eða viðhorf (sbr. sjálfstraust og því að hafa trú á markmiði eða niðurstöðu o.þ.h).
Gott væri að sálfræðingar kæmu upp með eitthvað virkilega bitastætt og skilvirkt í því sambandi sem leggja mætti vísindalega blessun yfir ef önnur blessun þykir ekki duga formlega séð.
Á meðan stjórnvöldum tekst ekki að leysa efnahagsvandamál einstaklinga og þjóðar með sjálfbærum hætti í bráð og lengd þarf fólkið sem er í vandræðum á öllum jákvæðum ráðum að halda til að komast af með einhverju móti sem manneskjur; Og náttúrulega til framtíðar líka.
Aukin hjátrú eftir hrun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Trúmál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Heill og sæll Kristinn Snævar Jónsson.
Í þessu ljósi eru umræddar rannsóknarniðurstöður afar ónákvæmar, a.m.k. fréttagreinin um þær, og erfitt að sjá hverju þær svara í reynd
Tilgangur þess að birta fréttir um rannsóknir er að fá sem flesta til að leyfa almenningi að heyra um hvað er að gerast í vísindaheimum. Enginn vísindamaður sem ég veit um ætlast til þess að frétta tilkynningar séu nákvæm umfjöllun um rannsóknir. Ritrýndar vísindagreinar gegna þessu hlutverki. Hér er því hlekkur þar sem þú getur fundið link í greinina sem rætt er um í þessari frétt:
http://drfjola.com/publications.html
Hér er einnig hlekkur í vísindagrein sem hefur eitthvað bitastætt um aðaltrúarrannsóknir:
https://twitter.com/drfjola/status/162515867844886528
Bestu kveðjur
Fjóla
Fjóla Dögg Helgadóttir, 30.7.2012 kl. 08:40
Sæl Fjóla og þakka þér kærlega fyrir viðbrögðin og tilvísanirnar.
Þú ert til fyrirmyndar fyrir fræðimannasamfélagið að tjá þig opinberlega um fræðisvið þín og svara athugasemdum eins og í þessum bloggpistli. Því miður er allt of lítið um það meðal fræðimanna og sérfræðinga á Íslandi, bæði í ranni háskóla og opinberrar stjórnsýslu. Ekki skal ég fullyrða um hvort fræðimenn nenni því hreinlega ekki og hafi ekki hvata til að viðra sérþekkingu sína í umfjöllun mikilvægra málefna sem eru til umræðu á vettvangi þjóðmála hverju sinni eða hvort það sé merki einhvers konar þöggunar. Hefur mér blöskrað þögnin og ritað pistil hér til að hvetja fólk til að tjá sig opinberlega á málefnalegan hátt, í anda hvatningar Kants í grein hans "Hvað er upplýsing?".
Einnig vil ég nota tækifærið hér og óska þér hjartanlega til hamingju með internetkerfið þitt (sbr. www.AI-Therapy.com) fyrir hugræna atferlismeðferð (CBT) m.m. Það hygg ég að sé snjöll og löngu tímabær framsetning á þjónustu á þessu sviði, ekki síst einmitt til þess markhóps sem á við félagsfælni að stríða og heldur sig fremur í tölvuheimum.
Ég á eftir að lesa greinina þína nánar (http://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S2211364912000516), en sá samt við hraðskimun á henni nokkurt svar við einni áleitinni spurningu sem ég hafði um samhengið milli annars vegar "hjátrúar", eins og þess sem þar er nefnt "magical thinking" (MT), og hins vegar áráttu- og þráhyggjuröskunar.
Samkvæmt greininni er jákvætt samhengi staðfest þar á milli, en spurningin er hvor þátturinn er orsök og hvor afleiðing af hinum.
Getur áráttu- og þráhyggjuröskun orsakað hjátrú, eða eru þessi röskunarvandamál afleiðing af hjátrú (og trúarlegri trú)? Svarið við þessari spurningu hlýtur að teljast vægast sagt afar áhugavert.
Sé hægt að sýna fram á eða "sanna" á grunni (víðtækra) rannsókna að hjátrú og ekki síður "aðaltrú" orsaki þessi geðröskunarvandamál er kominn tími til að taka ýmsar trúarsetningar og kennivald trúarstofnana til nánari skoðunar í því samhengi á opinskáan og hreinskiptinn hátt.
Hins vegar stendur þó hin sístæða spurning áfram hvort eitthvað sem ekki er enn hægt að sanna með "áþreifanlegum" hætti í vísindalegri tilraun sé ekki sannleikur; Það sé sjálfsblekking og/eða blekking, forkastanlegt og skaðlegt.
Ég er fyrir mitt leyti mjög fylgjandi "gagnrýninni hugsun" um þessi og önnur trúarleg mál og t.d. að hvaða leyti trúarbrögð og helgirit þeirra eru notuð sem tæki af ýmsum aðilum í margvíslegum félagslegum tilgangi með tiltekinni túlkun (sbr. t.d. BA-ritgerð mín í guðfræði "Hvað er sannleikur? Þekkingin í Sannleiksguðspjallinu og spurningin um trú" (250 bls.), sbr. http://skemman.is/item/view/1946/6337;jsessionid=BD5FE75966C86AD3F31B540FF9723B26).
Einnig finnst mér fróðlegt að rannsaka frá sálfræðilegu sjónarhorni (þótt ég sé ekki sálfræðingur að mennt) inntak og "epískan" tilgang ýmissa grundvallandi hugmynda í hinu mótandi riti Biblíunni í ljósi túlkunar í félagslegu samhengi.
Í lokaritgerð minni í guðfræði skoðaði ég sérstaklega hliðstæður milli tiltekinna fornra fræða annars vegar og hins vegar vinsælla hugmynda í dag á sviði árangursfræða og sjálfshjálpar (sbr. slagorðð "þú ert það sem þú hugsar"), sem flokkast væntanlega m.a. undir MT og hjátrú í þeim skilningi sem þú og kollegar þínir fjalla um í greininni (sbr. "Túlkun á valentínsku upprunamýtunni og sálarlegum þáttum hennar í ljósi árangursfræða. Um huglægan sköpunarmátt að fornu og nýju", sbr. http://skemman.is/item/view/1946/8513;jsessionid=BD5FE75966C86AD3F31B540FF9723B26). Þar kem ég inn á það sem ég tel bein tengsl við hugræna aðferlismeðferð. Mér til mikillar ánægju og gamans tók ég eftir því í blaðagrein með viðtali við Dr. Önnu Valdimarsdóttur sálfræðing að hún bendir á rætur og/eða hliðstæður þeirrar aðferðar hjá stóíkeum til forna, enda ber hin svokallaða "stóíska greiningaraðferð" þess greinileg merki (sbr. t.d. Ismo Dunderberg, Beyond Gnosticism 2008, s. 102, 108-111). Sú aðferð var á þeim tíma notuð m.a. til að "heila tilfinningar" (e. for healing emotions) eða órökrænar þrár af ýmsum toga. - Geysilega áhugavert og skemmtilegt efni.
Kristinn Snævar Jónsson, 30.7.2012 kl. 15:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.