19.7.2012 | 23:46
"Forðum þú mig fóstraðir byggðin mín"
Þessi mynd af Húnavökuhátíð á Aðalgötunni á Blönduósi er líklega tekin af tröppum Sæmundsen-hússins þar sem bókabúð Þuríðar Sæmundsen var, þeirrar alúðlegu merkiskonu. Ég man enn lyktina þegar komið var inn í búðina fyrir jólin og allt angaði spennandi af nýjum bókum, dálítið öðru vísi en í bókabúðinni hjá Jóni Baldurs fyrir utan á. Kannske var það vegna vefnaðarvörunnar sem Þuríður verslaði einnig með í búðinni.
Handan götunnar gegnt Þuríðarbúð var svo gamla Samkomuhúsið, eins og það var kallað. Þar voru skemmtanir á Húnavöku haldnar forðum snemma að vori, leikrit, kórakvöld, kvenfélagsskemmtunin, bíó og böll, áður en Félagsheimilið komst í gagnið (um 1964). Í hléum hópaðist fólk út á götuna þarna á horninu til að fá frískt loft og spjalla saman, þar sem nú er grillað að sumri á Húnavöku í dag.
Það fer vel á því að sótt sé á gamlar slóðir í tengslum við þessa mikilvægu menningarhátíð Blönduósinga og nágrennis. Til hamingju með hátíðina Blönduósingar og nærsveitir.
(Yfirskrift pistilsins er tilvitnun í texta lagsins "Ég sé það nú" á plötunni Kveikjur eftir pistilhöfundinn, en það er óður til átthaganna).
Húnavakan er hafin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.