Guðseindin og "sköpun úr engu"

Hinir fornu gnóstíkear (e. gnostics) voru inni á því fyrirbæri sem þessu tengist, þ.e. "sköpun úr engu". Að vísu álitu þeir að sköpunin væri ekki úr "engu" heldur kæmi til og gerðist með ákveðnum hætti. Þeir voru þar greinilega inni á því fyrirbæri sem tengjast kenningum skammtafræði í dag um það að "efni" getur birst ýmist sem eindir (e. particles) eða tíðni (e. vibration). 
Ég skoðaði þessi geysilega áhugaverðu og athyglisverðu gnóstísku fræði og tengdar mýtur í tengslum við lokaritgerð mína í guðfræði, Um huglægan sköpunarmátt að fornu og nýju, en ég fer nú ekki nánar út í þá dularfullu sálma hér! Þetta var fyrir innvígða til forna og því leynilegt.
(Hint: Þessar upplýsingar/kenningar voru settar fram af gnóstíkeum í formi mýtu að stofni til sem mönnum hefur reynst erfitt að túlka, eðli málsins samkvæmt).

Kenning kristinnar kirkju um "sköpun úr engu" á rætur að rekja til þessara gnóstísku hugmynda þótt því sé nú ekki flíkað í  þeim ranni. Það finnst mér bagalegt þar sem þær varpa "skiljanlegu" ljósi á kenninguna og reyndar jafnframt aðra grundvallarkenningu kristninnar, Þrenningarkenninguna.


mbl.is Vísbendingar um tilvist Guðseindarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Afar forvitnilegt. Ég hefði áhuga á að fræðast meira um þessa hluti.

Guðmundur Ásgeirsson, 3.7.2012 kl. 01:22

2 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Ég er ekki hissa á því, Guðmundur. Það fannt mér einnig þegar ég hélt inn á þessar slóðir á sínum tíma.

Ég reikna með að halda fyrirlestra eða námskeið um þetta og tengt efni við tækifæri, vonandi fyrr en seinna.

Af nægu er að taka, en kjarninn í þessum fræðum, eins og ég hef túlkað hann m.a. á grunni margs konar fræðirita á þessu sviði, er nærliggjandi og einfaldari en ég hélt fyrirfram.

Það átti sér reyndar ákveðinn og langan aðdraganda sem ég sá eftir á að var nauðsynlegur til að átta sig á hlutunum svo að maður afskrifi þá ekki að óreyndu vegna fyrirfram mótaðra fordóma og skorti á tilhlýðilegri handleiðslu. Öðru máli gegnir ef maður hefur leiðbeinanda sem getur bent á það sem máli skiptir fyrir túlkun á t.d. grundvallarmýtunni sem er til í mörgum útgáfum. Fyrir skilning á mýtunni skiptir túlkunaraðferðin afgerandi máli sem og það samhengi sem mýtan varð til í. Þar er um að ræða langt þróunarferli sem á sér rætur m.a. gegnum gyðingdóm aftur í hellenismann og að sumu leyti lengra aftur og í austurátt. Vissulega eru þó ýmsar hugmyndir og kenningar í því sambandi umdeildar meðal fræðimanna á þessu sviði.

Kristinn Snævar Jónsson, 3.7.2012 kl. 22:53

3 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Kristinn

Já, gnostíkerar voru skemmtilegar týpur! Nú veit ég ekki hvað er langt síðan þú skrifaðir lokaritgerð þína en þú veist það kannski líka að nýlegar kenningar segja að gnostisisminn var til fyrir kristni og hirti einna úr henni ýmislegt, m.a. Jesú (á 2. öld).

En eru ekki flestöll trúarbrögð með sköpun ex nihili? Fyrsta Mósebók virðist gera ráð fyrir því (nema þú eigir við að sjálfur skapandinn sé líka skapaður úr engu?). Kristnir þurfa þá varla að sækja til gnostíkera til að finna þá hugmynd?

Brynjólfur Þorvarðsson, 4.7.2012 kl. 14:47

4 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Sæll Brynjólfur.

Kandidatsritgerðina mína, Um huglægan sköpunarmátt að fornu og nýju, afhenti ég 2011, eins og fram kemur í höfundarkynningu.

Jú, áratugir eru síðan að margir fræðimenn urðu nokkuð sammála um rætur þess sem kallað hefur verið gnóstisismi, í grófum dráttum þó. Hann hafi farið að taka á sig mynd m.a. í umræddri sköpunarmýtu á 2.-1. öld f.Kr. í þeirri grein gnóstisisma sem kallast setismi.

(Elstu rætur varðandi tvíhyggju virðast og teygja sig aftur á annað árþúsund f. Kr. til Saraþústratrúar í Persíu, en þaðan koma m.a. hugmyndir um "Djöfulinn").

Gyðingar hafi verið mótandi á gnóstisisma á 2.-1. öld f.Kr., en jafnframt setisma byggðu þeir að hluta á sínum gamla gyðinglega arfi.

Sköpunarmýtan hafi og verið notuð í margskonar tilgangi, m.a. pólitískum, sem er afar athyglisvert.

Á fyrstu og annarri öld e.Kr. hafi gnóstíkear svo tekið upp nokkrar kristnar hugmyndir og venjur en síðar klofið sig frá kristni á þriðju öld og dreifst í marga gnóstíska hópa.

Er valentínusarismi kom til á 2. öld e.Kr. í kjölfar upphafsmannsins, Valentínusar (100-175 e.Kr), mun hann hafa byggt á þessum grunni, en gert ýmsar breytingar á setísku mýtunni þar sem m.a. eru ofin inn atriði og hugtök úr kristni sem þá var í mótun. Virtir fræðimenn telja að meginrit setisma, Huldugeymdir Jóhannesar, sé forveri valentínsku útgáfunnar á gnóstísku upprunamýtunni (e. The Apocryphon of John, eða The Secret Book According to John, eða The Secret Revelation of John, eftir því hvernig titillinn hefur verið þýddur af fræðimönnum).

Talið er að Basilídes, gnóstísk-kristinn kennari í Alexandríu sem uppi var á fyrri hluta annarrar aldar e.Kr. (gagnrýndur af kirkjufeðrunum enda með ýmsar öðruvísi kenningar en hin miðjusækna kristni tók upp) hafi verið sá fyrsti innan kristni til að tala um "sköpun úr engu" samkvæmt "vilja Guðs". (Þessa kenningu var þó tekin upp innan hinnar miðjusæknu kristni).

Ýmis forn trúarbrögð byggðu á hugmyndum um að heimurinn væri skapaður úr einhverju fyrirliggjandi "heilögu" efni, enda var hugmynd um sköpun úr engu framandi í hinum forna heimi. Í því sambandi er nærliggjandi að nefna babýlonsku upprunamýtuna "Enuma elish" frá Mesópótamíu. Bent hefur verið á vissa samsvörun milli hennar og sköpunarsögu Gamla testamentisins (Gt). Trúarleg ritúöl stóðu föstum fótum í Babýlon þegar á 17. öld f.Kr. með tilheyrandi hátíðahöldum. Ýmis líkindi má greina með þeim og því sem fram kemur í efni Mósebóka. (Samkvæmt svokallaðri heimildakenningu Wellhausens eru Mósebækurnar, Fimmbókaritið, ritað í áföngum m.a. á grunni fyrirliggjandi munnlegra geymda á tímabilinu 950 f.Kr. til loka babýlonsku útlegðarinnar 539, eða um 538 f.Kr., en Gt var endanlega frágengið í núverandi mynd um 400 f.Kr).

Þá inniheldur t.d. norræni átrúnaðurinn upprunasögu þar sem heimurinn er skapaður úr veru, Ými.

Kristinn Snævar Jónsson, 4.7.2012 kl. 23:43

5 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Ég sé að þú ert vel með á nótunum í þessum efnum (enda varla við öðru að búast!)

Varðandi núverandi kenningar fræðimanna um að heimurinn hafi orðið til "úr engu" í miklahvelli þá er það auðvitað getgátur byggðar á athugunum. Stærsta vandamál núverandi kenningar er "útþenslan", þ.e.a.s. menn neyðast til að gera ráð fyrir ofboðslega hraðri útþenslu (miklu hraðari en hraði ljóssins) í byrjun til að skýra það að alheimurinn virðist vera 14 milljarða ára gamall en að við getum séð, í allar áttir, stjörnuþokur í yfir 10 milljarða ljósára fjarlægð. Núverandi útþensluhraði getur ekki skapað svo miklar fjarlægðir (þ.e.a.s. 20 milljarðir ljósára milli stjörnuþoka í sitt hvorri áttinni).

En útþensluskeiðið felur í sér alvarleg vandamál einnig, m.a. að það er engin leið að reikna sig fram til núverandi alheims (eða réttara, það eru óendanlega margar lausnir á útreikningum, þar af er aðeins ein sú sem við búum við í dag). Margir hallast að öðrum kenningum sem gera ráð fyrir einum alheimi sem byrji útþenslu út frá ákveðinni stærð (svo einfalt dæmi sé tekið). Alheimurinn verður því ekki til við miklahvell, gæti hafa verið til óendanlega lengi.

Við vitum að samkvæmt skammtafræðinni geta eindir sprottið "úr engu", Hawking sannaði þetta á sínum tíma í tengslun við uppgufun svarthola. En þetta "ekkert", þ.e.a.s. tómarúmið, er víst iðandi af orku þegar komið er niður á Plancks skala. Þannig að jafnvel hér er ekki "ex nihilo" sköpun á ferðinni.

Atburðir án orsaka eru hins vegar vel staðfestir í skammtafræðinni, atburður getur því gerst "ex nihilo" öfugt við það sem flest trúarbrögð virðast halda fram.

Brynjólfur Þorvarðsson, 5.7.2012 kl. 08:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband