Þjóðarhagsmunir og "óafturkræf afsamningsáhrif"

Í grein sinni í Morgunblaðinu í dag, 21.6.2012 s. 25, bendir Ragnar Önundarson á afar mikilvæg atriði sem ber að íhuga vandlega í sambandi við viðleitni Kínverja til að komast yfir stórt landsvæði hérlendis, nánar tiltekið Grímsstaði á Fjöllum. Margt af þeim hefur verið rætt um á þessari bloggsíðu á forsendum þjóðarhagsmuna og landvarnar í anda Einars Þveræings.
Augljóslega er þó erfitt fyrir skammsýna og þröngsýna stjórnmálamenn og -flokka að koma auga á og skilja þau atriði sem varða hagsmuni þjóðarinnar allrar til langs tíma, jafnleg varanlega. Þess vegna er ábendinga og brýningar þörf eins og þeirrar sem hér um ræðir, ekki síst vegna þess að svo virðist sem margir telji að málið snúist einungis um lóð undir hótel og golfvöll með tilheyrandi fyrir gesti og gangandi.

Eins og Ragnar bendir á getur orðið erfitt eða ógerlegt að segja "leigjendunum" upp ef/þegar í ljós kæmi að þar færi fram eða stefndi í starfsemi sem ekki færi saman við íslenska hagsmuni og þjóðarvilja. Dæmin um nútímalega "nýlendustefnu" Kínverja ættu að kveikja viðvörunarljós í því sambandi. Hér gæti verið um að ræða "óafturkræf afsamningsáhrif".

Hér er ekki verið að tala um að "slá á hendur" Kínverja, heldur viðleitni til að hafa öll spil uppi á borðinu svo íslensk yfirvöld viti um hvað verið er að ræða í bráð og lengd og taki ákvarðanir um þessi mál og útfærslur á þeim með viðeigandi varnöglum í því ljósi.
Íslendingar eiga að geta gert hagfellda viðskiptasamninga við Kínverja til lengri tíma ekki síður en aðrar viðskiptablokkir í heiminum, bæði austan og vestan Atlantshafsins. Slík samningagerð á að vera fyrst og fremst á meðvituðum forsendum um íslenska þjóðarhagsmuni.


mbl.is Ragnar Önundarson: Um Grímsey, Grímsstaði og Grænland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband