18.4.2012 | 13:01
Grunnhyggin ályktun
Fagnandi ályktun bæjarfulltrúa Samfylkingar í Reykjanesbæ um frumvörp ríkisstjórnarinnar um stjórn fiskveiða og veiðigjöld virðist vægast sagt afar grunnhyggin og byggja á blindri trú fremur en þekkingu á grundvelli viðeigandi upplýsingaöflunar.
Þar er einungis horft til væntra tekna af veiðigjaldi og kvótaþingi samkvæmt frumvarpsdrögum um stjórnun fiskveiða og veiðigjald.
Þar er ekki hugað að forsendum fyrir útreikningi umrædds veiðigjalds og raunhæfum möguleikum útgerðarinnar til að standa undir því ásamt greiðslubyrði af núverandi skuldbindingum hennar auk raunverulegs rekstrarkosnaðar á hverjum tíma.
Veiðigjaldsfrumvarpið og greinargerð með því ber þess ekki merki að hugmyndasmiðir þess séu meðvitaðir um grundvallaratriði fiskihagfræði að því er varðar myndun auðlindarentu við nýtingu fiskiauðlindarinnar og hámörkun hennar út frá þjóðhagslegu sjónarmiði og sjálfbærni ("bionomic equilibrium"). Ef svo væri hefðu tillögurnar verið útfærðar með öðrum hætti og þar af leiðandi verið með aðrar niðurstöður.
Að því leyti er hægt að taka undir ábendingar og gagnrýni Ragnars Árnasonar prófessors í fiskihagfræði um frumvarpið (sbr. viðtal við hann í Morgunblaðinu í dag 18.4.2012 s. 12 (að hluta, en það er annað mál)).
Til dæmis má benda á að í aðferðum við útreikning á veiðigjaldsstofni er ekki miðað við raunverulegan fjármagnskostnað og afskriftir á hverjum (og fyrirsjáanlegum) tíma, heldur áætlaðan eða reiknaðan heildar-fjármunakostnað til lengri tíma litið sem innihaldi bæði ávöxtunarkröfu eigenda og notkun/fyrningu rekstrarfjármuna; Þar er sagt miðað við uppgjörsaðferðir Hagstofu Íslands í því sambandi þar sem lagt er mat á afkomu útgerðarinnar, en þær aðferðir byggja á áætluðum fjármagns- eða ávöxtunarkostnaði að hluta til.
Það ætti að gefa augaleið að slíkir útreikningar gefa allt aðrar niðurstöður um hagnað í útgerðinni en raunverulegur árlegur heildarkostnaður útgerðarinnar á hverjum tíma. Ekki er hægt að horfa fram hjá núverandi og fyrirliggjandi aðstæðum í atvinnugreininni og fjármögnun hennar; Enda hafa margir aðilar, sem tjáð hafa sig um frumvarpið, þegar bent á það atriði.
Útgerð og fiskvinnsla eflast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál, Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:20 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.