Skipulegt einelti á sviði túlkandi vísinda?

Frásögn í Morgunblaðinu 4.12.2011, s. 18-21, af málsatvikum í sambandi við ákærur og framkomu meðlima félagsskaparins Vantrúar gagnvart Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara við guðfræði- og trúarbragðafræðadeildar HÍ er með ólíkindum. Frásögn af orðbragði sem Vantrúarmenn eru sagðir hafa viðhaft vekur viðbjóð og forundran. Að þetta skuli að hluta til vera háskólamenntaðir menn og kennarar við HÍ í þokkabót gerir mál þetta enn hneykslanlegra. Svo virðist sem eitt af yfirlýstum markmiðum Vantrúarmanna hafi verið að leggja Bjarna "í einelti" með skipulegum hætti; Jafnvel hafi komið til tals að gera það gagnvart öðrum áberandi einstaklingi (s. 20), ungum og nýútskrifuðum guðfræðingi, sem er þó þessu máli óviðkomandi. Í frásögn Mbl. er þarna vitnað í umræður á innri vef Vantrúar. Hvað er eiginlega hér á seyði?

Siðanefnd HÍ virðist hafa tekið stórfurðulega á málinu og ekki verið hlutlaus, að því er virðist vegna persónulegra skoðana einhvers eða einhverra nefndarmeðlima. Formaður nefndarinnar hafi þannig m.a. "lekið" upplýsingum í Vantrúarmenn "um framgang málsins og um afstöðu hinna nefndarmanna" (s. 20). Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður, sem Bjarni fékk sér til varnar í málinu, komst svo að orði um meðferð nefndarinnar á málinu að hann hefði "aldrei séð svona illa haldið á málum eins og í þessu tilviki".
Í kjölfar sakfellandi sáttatillögu siðanefndar til guðfræði- og trúarbragðafræðideildar (á tíðum virðist óljóst hvort sakborningurinn sé deildin eða Bjarni), þegar hún spurðist út innan háskólans, tjáði hópur kennara og doktorsnema við HÍ sig um meðhöndlun siðanefndar og skrifuðu undir ályktun "þar sem vinnubrögð siðanefndarinnar eru gagnrýnd" og áréttuðu "... mikilvægi þess að Háskóli Íslands standi vörð um rannsóknarfrelsi kennara ...". Þá sagði formaður siðanefndarinnar af sér (s. 19). Eftir formannsskipti og stækkun nefndarinnar um tvo er hún samt enn neikvæð í garð Bjarna, en er sögð hafa átt erfitt með að átta sig á fyrir hvað Bjarni er kærður.

Á seinni stigum málsins tjáir forseti hugvísindasviðs, Ástráður Eysteinsson, sig um málið og bendir m.a. á að háð niðurstöðu siðanefndar geti málið snúist upp í að varða "okkur öll sem sinnum kennslu í túlkunarvísindum á háskólastigi" (s. 20).

 Rannsóknarnefnd, sem loks var skipuð af hálfu Háskólaráðs, komst síðan að þeirri niðurstöðu að "siðanefnd HÍ hafi sniðgengið eigin starfsreglur sem tilgreindar eru í siðareglum háskólans" og bendir á ýmsa ágalla í málsmeðferð hennar (s. 20).

Það sætir engri furðu að rektor HÍ skuli segja aðspurð um málið að það sé "flókið", en hitt þarf meiri útskýringa við er rektor telur að nefndin hafi starfað "í góðri trú og viljað leita sátta þannig að enginn teldi á sig hallað" (sbr. Morgunblaðið 6.12.2011, s. 9). 

Frásögn Morgunblaðsins um kærumálið og eineltið gegn Bjarna sem viðgengist hefur m.a. af kennurum innan HÍ, að því er virðist m.a. vegna persónulegrar lífsskoðunar þeirra sjálfra, lýsir öðrum þræði skoðanakúgun og -ofbeldi innan HÍ og brotalöm í umsýslukerfi háskólans við að taka á slíkum málum af hlutleysi og réttsýni. Þetta mál er með "endemis endemum". Maður spyr sig hvernig svona lagað getur eiginlega gerst og hvort það geti gerst aftur. Þótt rektor HÍ, sem er raunvísindamaður, tilgreini ekki neitt athugunarvert við þetta mál annað en að það hafi "kennt okkur að málsmeðferðarreglur verða að vera skýrar og ferli mála gagnsætt", þá er vonandi að Bjarni fái réttlátar úrbætur vegna þess sem hann hefur mátt þola og kosta til við að verja mannorð sitt og starfsheiður. Einnig að komið verði í veg fyrir að svona mál endurtaki sig. 

Uppkoma þessa máls beinir kastljósinu einnig að forsendum kennslu á sviði túlkandi vísinda í háskólum, eins og forseti hugvísindasviðs HÍ benti á. Mun það viðgangast að beita þöggun á einhvern hátt og að vegið sé að rannsóknarfrelsi? Þar er ekki aðeins um að ræða trúarbragðafræði heldur allar greinar hugvísinda.
 Hvað til dæmis um kenningar um að landnám á Íslandi sé mun eldra en gamla Íslandssagan kennir? Hvað um hinar goðum líku persónur Gunnar og Njál? Er aðild að Evrópusambandinu slæmur kostur? Eru sumar hagfræðikenningar í ætt við trúarbrögð? Voru sumar hugmyndir Freuds bull? Verður bókvitið í askana látið? Eða, eru askar ef til vill búnir til með hugviti og þekkingu, sem og maturinn sem í askana er látinn? Og svo framvegis!

Það er ekki furða, sem greint er frá í Mbl. (s. 9), að Höskuldur Þórhallsson Alþingismaður skuli sjá ástæðu til þess, eftir að hann las frásögnina í Mbl., að taka málið upp á Alþingi og að kannað verði "hvað hafi gerst innan Háskólans".


mbl.is Vill að HÍ bæti mannorðstjón og kostnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Í þessari grein er útskýrt af hverju siðanefnd taldi sig "í góðri trú"

Matthías Ásgeirsson, 6.12.2011 kl. 14:11

2 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Svo virðist sem eitt af yfirlýstum markmiðum Vantrúarmanna hafi verið að leggja Bjarna "í einelti" með skipulegum hætti; Jafnvel hafi komið til tals að gera það gagnvart öðrum áberandi einstaklingi (s. 20), ungum og nýútskrifuðum guðfræðingi, sem er þó þessu máli óviðkomandi. Í frásögn Mbl. er þarna vitnað í umræður á innri vef Vantrúar. Hvað er eiginlega hér á seyði?

Það sem er í gangi hérna er að það er verið að snúa illilega út úr efni á lokuðum spjallþræði (sem Bjarni Randver vill ekki upplýsa hvernig hann fékk!).

Heldurðu virkilega að einhver manneskja segi eitthvað eins og: "Við skulum líka leggja hann í einelti!" og sé að tala í alvöru?

Í umræddri athugasemd var m.a. verið að gera grín af því hvað kirkjunnar menn eru gjarnir á að túlka gagnrýni á sig sem "einelti" (t.d. talaði Örn Bárður um að fjölmiðlar væru að leggja kirkjuna í einelti. Í athugasemdinni kom klárlega fram að "eineltið" fólkst í því að skrifa grein sem svaraði ummælum sem viðkomandi aðili lét frá sér fara um Vantrú í útvarpsviðtali. Er það "einelti"?  

Hjalti Rúnar Ómarsson, 6.12.2011 kl. 17:13

3 Smámynd: halkatla

Okei ég veit ekkert um þetta, efast samt um að það hafi átt að vera eitthvað einelti. Vil bara segja þetta: Þegar ég var í Nýtrúarhreyfingar námskeiðinu hjá Bjarna Randver fyrir þónokkrum árum þá var einmitt einn svona vantrúarseggur í tíma með mér og fór mikinn (segi svona, þetta var bara venjulegur trúleysingi sem fór í guðfræðina), en það var alltaf mjög gaman og þetta voru bæði fræðandi og skemmtilegir tímar. Ef Bjarni Randver og trúleysingjar hefðu verið orðnir svona viðkvæmir þá, þá hefði þetta verið verra... Ég man að við veltum því einu sinni fyrir okkur í svona 10mín-kortér í þessum tíma, hvort trúleysingjar með öfgaskoðanir væru svipaðir trúflokkum eða trúuðum. Ætli það hafi verið orsökin að þessu? Ég veit nú af eigin reynslu hvað trúleysingjar geta verið hræðilega viðkvæmir fyrir því að trúleysi þeirra sé lýst með þessum hætti. "Oj bara, við einsog trúmenn, ne-hei, það verður bara jihad gegn þér ef þú þegir ekki" osfrv.

halkatla, 6.12.2011 kl. 21:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband