29.7.2011 | 16:51
Hvers vegna keypti ríkið?
Það eru allt góðar og afar gildar spurningar sem Guðlaugur Þór Þórðarson alþm. viðrar varðandi ráðstafanir ríkisstjórnarinnar og umboðsmanns hennar Seðlabankans um málefni varðandi inngrip ríkisins í að bjarga Sjóvá frá formlegu gjaldþroti.
Hitt er annað hvers vegna ríkið bjargaði Sjóvá yfirhöfuð. Fjármálaráðherrann virtist á sínum tíma, m.a. í fréttaviðtali við rúv, verja þann gjörning með því að þar með væri verið að bjarga þáverandi viðskiptavinum Sjóvá frá meintum vandræðum ef fyrirtækið yrði látið róa sinn feigðarsjó til enda. Einnig að koma með því í veg fyrir hættu á samþjöppun á tryggingamarkaðnum ef svo færi. Loks væri þetta ekki styrkur ríkisins heldur "fjárfesting" í starfandi atvinnufyrirtæki sem myndi skila sér síðar er það yrði selt. Kjósendur þögðu við þessi rök að svo komnu máli í trausti á dómgreind ráðherrans.
En, hversu gild og góð voru þessi rök ráðherrans?
Nú er komið á daginn að ekki reyndist þetta góð fjárfesting út af fyrir sig fyrir ríkið, eins og Guðlaugur ræðir um samkvæmt fréttum þar um: Ríkið tapar um 4 milljörðum króna á tiltækinu og kallar Seðlabankastjóri það góð kaup í fréttum gærdagsins á rúv, í sjálfdæmi sínu um árangur Seðlabankans við söluna á Sjóvá.
Virk samkeppnisyfirvöld hefðu væntanlega komið í veg fyrir að eftirlifandi keppinautar hefðu sópað umyrðalaust til sín gömlum viðskiptavinum Sjóváar úr þrotabúi þess í meira mæli en hægt væri við að una, þannig að ekki er hægt að segja að það hræðsluefni fjármálaráðherra hafi átt við rök að styðjast. Þvert á móti bjagaði ríkið markaðsaðstæður á tryggingamarkaði með inngripi sínu með því að bjarga fyrirtæki fjárglæframanna á kostnað þeirra tryggingafyrirtækja sem virtu leikreglur og hefðu fremur átt að fá umbun fyrir árvekni sína og heilbrigða viðskiptahætti með því að uppskera svikna viðskiptavini hins gjaldþrota fyrirtækis.
Þá hefur fjármálaráðherrann, svo ég viti til, ekki gert tilhlýðilega grein fyrir meintum "ávinningi" ríkisins eða þjóðarinnar af því að bjarga Sjóvá frá stöðvun að því er varðar önnur atriði en ætlaðan "ágóða" (sem nú reynist vera neikvæður um 33%) af fjárfestingunni sjálfri.
Hrópandi spurning liggur því í loftinu: Hvers vegna bjargaði ríkið Sjóvá?
Hæsta tilboðinu ekki tekið í Sjóvá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 16:54 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.