Vinnustaðasamningar eða heildarsamningar

Hér kemur enn eitt lýsandi dæmið um hið skynsamlega í þeirri launastefnu þar sem hlutaðeigandi aðilar semja um kaup og kjör á staðbundnum forsendum beggja aðila en ekki forsendum landsmeðaltala heildarsamtakanna, ASÍ og SA.
Í öðrum pistli hef ég bent á skynsamleg rök fyrir staðbundnum vinnustaðasamningum sem er rökrétt aðferð og nærliggjandi vettvangur til að leysa kjaradeilur á.

Með vinnustaðasamningum er hugað að forsendum viðkomandi fyrirtækis og nærsamfélags og markmiðum launþega sem samræmdri heild og afkomumöguleikar þeirrar einingar hafðir í fyrirrúmi.
Fyrirtækið umbunar starfsfólki sínu eftir því sem efni þess standa undir og launþegarnir setja fram kröfur sínar í ljósi sjálfbærni fyrirtækis síns. Jafnvægispunktur slíkra sjónarmiða er væntanlega oftar en ekki annar en það landsmeðaltal sem heildarsamtökin takast á um.
Niðurstaða heildarsamninga getur annars vegar komið í veg fyrir að launþegar fái réttlætanlega og tilhlýðilega kauphækkun hjá stöndugum fyrirtækjum, en hins vegar að illa stæð fyrirtæki séu í versta falli keyrð í þrot þar sem þau standa ekki undir meðaltals-samningum heildarsamtakanna á tilteknum tíma þegar þeir eru gerðir.
Vinnustaðasamningar bjóða þannig upp á þann sveigjanleika sem þarf til að koma í veg fyrir þetta tvenns konar óhagræði heildarsamninga.

Hitt er annað að tilvist heildarsamtaka atvinnulífsins, eins og þau hafa þróast hérlendis í það sem þau eru, hefur leitt til þess að þau eru notuð sem þrýstihópar gagnvart ríkisstjórn landsins til að ná fram pólitískum markmiðum. Þau pólitísku markmið samtakanna sem ríkjandi eru á tilteknum tíma þurfa hins vegar ekki endilega að gagnast öllum skjólstæðingum viðkomandi samtaka. Spurningin er hvort allir aðilar innan hvorra samtaka um sig séu samþykkir því út frá sínum afmörkuðu hagsmunum.

Í meðfylgjandi frétt kemur greinilega fram það sjónarmið að staðbundnir hagsmunir beggja samningsaðila eru ekki alveg í samræmi við sjónarmið talsmanna heildarsamtakanna og þess vegna semja þeir á eigin forsendum; Eðli málsins samkvæmt!


mbl.is Sömdu við Becromal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Mjög vel orðað hjá þér. Ég er sammála!

Sumarliði Einar Daðason, 16.4.2011 kl. 16:43

2 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Hvernig gagnast sú krafa SA, að semja fyrst um kvótamál í sjávarútvegi, til dæmis atvinnurekendum í smásöluverslun landsins eða gosdrykkjaframleiðslu?
Eru þeir atvinnurekendur æstir í að tefja samningagerð og vinnufrið í sínum fyrirtækjum fyrir þá sök?

Og hversu vel eiga eingreiðslusamningar við litlu einyrkjakaupmennina sem rétt skrimta með einn eða fáa starfsmenn í vinnu hjá sér?

Hversu vel eiga tiltölulega lágar launahækkanir við sterk fyrirtæki í útflutningsframleiðslu um þessar mundir, sem bæði geta og gjarnan myndu vilja gera betur við sitt starfsfólk en meðallaunahækkanir samkvæmt "venjulegum" heildarsamningum fela í sér?

Kristinn Snævar Jónsson, 17.4.2011 kl. 10:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband