5.4.2011 | 13:51
Eyðileggjandi skuldsetning og ósigrandi hagfræðilögmál
Það ætti að vera öllum skynsemi gæddum mönnum og konum morgunljóst að ef íslenska ríkið tekur á sig ábyrgð á Icesave-gjaldþrotinu, með því að ábyrgjast innistæður umframávöxtunar- og áhættusækinna innleggjenda samkvæmt fyrirliggjandi samningi og tilheyrandi lögum sem fara í þjóðaratkvæðagreiðslu 9. apríl n.k., þá hlýtur lánshæfismat ríkisins að versna umtalsvert eðli málsins samkvæmt.
Þegar hugsanlegir fjárfestar og lánveitendur íhuga að streyma fjármagni til Íslands þar sem ríkið á hlut að máli er áhvílandi ábyrgðapakki ríkisins og tekjugrundvöllur það sem upp úr stendur við mat þeirra á fýslileika þess þegar frá líður, en ekki málatilbúnaður og tilfinningamál manna í aðdraganda fyrirliggjandi skuldsetningar.
Hvaða erlendir fjárfestar ætli pæli í þeim atriðum þegar frá líður? Þegar kemur að spurningum um ávöxtun (mikilla) fjármuna skiptir væntur ávinningur af ráðstöfun þess höfuðmáli, ekki einhver tilfinningamál úr fortíðinni.
Hagfræðileg lögmál eru ósigrandi til lengri tíma litið! Menn sækja í það sem ódýrast og hagkvæmast er að öðru óbreyttu og það sem felur í sér sem minnsta áhættu. (Einhver kynni að segja að glæfralegir stjórnendur hinna föllnu einkabanka á Íslandi séu undantekningar sem "sanni" þá aðalreglu, en reyndar mætti segja í ljósi atburða í kringum gjaldþrot bankanna að þeir hafi litið á aðgerðir sínar og ráðstafanir í fjármálum áhættulitla - fyrir sig sjálfa; ábyrgðin lenti á öðrum!). Þess vegna mun raunveruleg skuldsetning ríkisins vera það sem ráðstafendur fjármagns horfa á en ekki það hversu "góðir" Íslendingar kynnu að hafa verið við erlent fjármagnskerfi með því að axla glórulausar skuldaklyfjar.
Eru Íslendingar borgunarmenn og eru fyrirtæki staðsett á Íslandi hæf til tekjumyndunar og til ávöxtunar á fjárfestingum? Það er ein meginspurningin sem "erlendir fjárfestar" munu spyrja fyrst og fremst. Þeir munu gera sínar fjármálaráðstafanir í samræmi við svörin við þeirri spurningu.
Það er hörmulegt að hér skuli hafa myndast orðræða um Icesave-málið þar sem andstæðir hópar, "Já-sinnar" og "Nei-sinnar", berjast með í mörgum tilvikum innihaldslitlum og marklitlum slagorðum, andlitsmyndum og titlum í auglýsingum, í stað þess að leggja ofuráherslu á að kryfja málið til mergjar með raunsæum rökum um meintar efnahagslegar afleiðingar af mismunandi niðurstöðum í yfirvofandi þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.
Halda mætti að sitjandi ríkisstjórn telji alla efnahagslega framtíð Íslands hvíla algjörlega á því að Icesave-lögin verði samþykkt þótt það feli í sér umrædda stórauknu skuldsetningu ríkisins með þeim afskaplega slæmu áhrifum sem það atriði út af fyrir sig hefur. Það er í hæsta máta þverstæðukennt.
Með þessum málflutningi meðlima ríkisstjórnarinnar með fjármálaráðherrann í broddi þröngsýnnar fylkingar er jafnframt horft fram hjá þeim málum sem hafa raunverulega þýðingu fyrir fýsileik erlenda aðila að fjárfesta á Íslandi.
Lykilatriði frá sjónarhóli þeirra sem vilja fjárfesta í raunverulegri starfsemi og fyrirtækjarekstri á Íslandi snýst um hið efnahagslega umhverfi landsins, reglufestu, þjóðfélagaslegan stöðugleika og möguleika til arðsemi af rekstri. Fjármagnið sækir þangað þar sem bestar líkur eru á góðri ávöxtun, en síður þangað þar sem sífellt er verið að breyta regluverki eins og t.d. skattalögum og íþyngjandi atriðum. Slíkar breytingar "yfir nótt" geta kollvarpað forsendum rekstrar erlendra aðila (og annarra); að ekki sé minnst á áhættu vegna gengisskráningar.
Ég held að það sé yfirdrifinn misskilningur á pólitískum forsendum að fjárfestar snúi sér frá Íslandi ef Icesave-lögin verði felld, en hin hliðin á sama peningi er einnig sá yfirdrifni og þverstæðukenndi misskilningur að hingað flykkist fjárfestar ef lögin verði samþykkt með tilheyrandi skuldsetningu ríkisins.
Er ekki fremur hætt við því að aukin skuldsetning ríkisins kalli á frekari skattheimtu til að standa undir afborgunum og fæli þar með fjárfesta frá landinu og kaupmáttarlítilli þjóð? A.m.k. ef stjórn landsins verður eins og í tíð núverandi ríkisstjórnar sem virðist lítið skilja hvað atvinnurekstur snýst um og hvaða forsendur þarf til þess að hann geti blómstrað með aukinni atvinnu og hagsæld fyrir þjóðarbúið.
Ríkisábyrgðir aukast um helming | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
PS. Hvað skyldu margir af þeim sem standa að ríkisstjórninni hafa átt eða rekið fyrirtæki, þótt ekki væri nema lítinn einsmanns rekstur?
Það ætti að vera lágmarkskrafa til landsstjórnenda að þeir hafi raunverulegt inngrip í rekstrarmál atvinnulífsins sem þeir eiga að setja lög bera ábyrgð á að geti dafnað með hagsæld í haga launþega, fyrirtækjanna og þjóðarinnar.
Kristinn Snævar Jónsson, 5.4.2011 kl. 13:59
Í kynninarþætti Sjónvarpsins um Icesave-málið í kvöld 5.4.2011 tekur Ólafur Ísleifsson hagfræðingur undir þessi sjónarmið um hvað ráði mati erlendra aðila á fýsileik þess að fjárfesta á Íslandi eða lána fé til starfsemi þar jafnframt eigin þátttöku í henni.
Þjóðríki, ríkisstjórnir og efnahagssambönd geti af pólitískum ástæðum einum saman ákveðið að halda Íslandi úti í kuldanum varðandi lánafyrirgreiðslu og viðskipti, en einkaaðilar og -fjárfestar taka sínar ákvarðanir út frá hagrænum sjónarmiðum fyrst og fremst; hvar fýsilegt sé að reka fyrirtæki.
Landsstjórnin verður að gera sér grein fyrir þessu. Stjórnendur í atvinnulífinu gera sér væntanlega grein fyrir því þó sumir tali eins og ríkisstjórnin í þessu máli.
Einnig er mikilvægt atriði í þessu sambandi að fjársterkir einkaaðilar erlendis gætu fjármagnað umsvifamikinn rekstur á íslenskum mælikvarða, sem skipt gæti hunduðum milljarða króna. Ísland er í því ljósi ekki á vonarvöl þótt "vinir" okkar í Evrópu og hinum vestræna heimi loki á slíka fyrirgreiðslu, eins og meðmælendur Icesave-laganna óttast að þeir geri.
Einnig er lítt plægður akur í sambandi við stóreflingu gagnkvæmra viðskipta við Asíu, sérstaklega Kína. Mig grunar að Kína sé nú þegar með ýmislegt á prjónunum varðandi Ísland, en ekki hefur heyrst mikið af tilburðum íslenskra stjórnvalda að þreifa fyrir sér á móti með afgerandi hætti. Það er mjög miður að tíminn undanfarin ár skuli ekki hafa verið nýttur betur á þeim vettvangi en raun ber vitni til að auka við framtíðarvalkosti í efnahagslegri stefnmótun Íslands. Um það hef ég fjallað í fyrri pistlum.
Kristinn Snævar Jónsson, 6.4.2011 kl. 00:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.