22.2.2011 | 19:12
Akkilesarhæll einvaldsins
Skín kærleikur til þjóðarinnar úr þessu viti og siðferði firrta ávarpi sjálfkjörins einræðisstjóra? - sem nú er meira að segja sakaður um þjóðarmorð - gegn eigin þjóð!
Hann talar um fólk sem sé truflað af ofskynjunarlyfjum og "svikara" sem bregðist þjóð sinni. Utanaðkomandi gætu haldið að hann hafi verið að tala við sjálfan sig í spegli eftir sjálfsskoðun inn á við! Ef þjóð hans hefur skynjað sinn vitjunartíma mun það "frelsa land sitt" eins og hann vonar.
Menn benda á að enginn viti hvað taki við þegar einræðisstjórnin fellur þar sem engir stjórnmálaflokkar séu sjáanlega fyrir hendi, enda var allt slíkt bannað af einvaldinum; nú í rúmlega þrjátíu ár frá því að umrætt land var síðast "frelsað" með byltingu.
Einhvers staðar verður að byrja lýðræðisferlið og öruggt má telja að það verði ekki undir stjórn einvaldsins sem ríkir með harðri hendi með heimaöldum og dekruðum her og embættismannakerfi - meðan þjóðin sveltur og fær ekki tilhlýðilega hlutdeild í auðæfum landsins.
Í þessari kúgun felst Akkilesarhæll einvaldanna. Þegar kúgunin stendur sem hæst er neyðin næst! Einmitt þá er sultur sverfur að almenningi sökum misskiptingar gæðanna úr hendi ráðamanna og hann gerir sér grein fyrir því óréttlæti sem hann er beittur í ljósi vellystinga einvaldanna fellur blekkingavefurinn sem einveldið hefur leitast við að hjúpa þjóðina með.
Neyðin rekur fólkið til aðgerða um síðir. Þá flykkist fólkið út á göturnar til að mótmæla og menn í lögreglu og her landsins munu ekki til lengdar skjóta á eigin þjóð; einfaldlega vegna þess að með því gætu þeir óafvitandi verið að skjóta á eigin fjölskyldur og vini sem einnig eru í mótmælendahópunum.
Þess vegna eru almenn fremur en staðbundin mótmæli líkleg til árangurs af því að þá er búið að persónugera þau gagnvart handbendum einvaldsins.
Af þeirri ástæðu og snefil af siðferðiskennd munu hermenn ekki ráðast á eigið fólk, sérstaklega ef upplýsingar berast til allrar þjóðarinnar um það sem er að gerast.
Fremur munu þeir snúast gegn skaðvaldinum, hinum kúgandi einræðisstjóra.
Þverskallist kúgarinn við að leggja niður völd og hypja sig á brott meðan hann hefur möguleika á því mun þjóð hans um síðir hjálpa honum til þess. Það verður væntanlega ekki með silkihönskum.
Kúgarar falla hver um annan þveran - um síðir!
Dreifing upplýsinga nú á upplýsingaöld er ógnvaldur kúgaranna.
Gaddafi fer hvergi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.