11.12.2010 | 13:26
Fagleg heimska?
Íslenskur almenningur sýpur seyðið af því að hafa treyst í blindni á embættismannakerfi sitt, sérstaklega fjármála"eftirlits"kerfið, Fjármálaeftirlitið, Seðlabankann og viðskiptaráðherra og ríkisstjórn í aðdraganda bankahrunsins 2008.
Eftirlitskerfi þetta, sérstaklega Fjármálaeftirlitið, reyndist handónýtt og þar á bæ hafa embættismenn afsakað sig að því er virðist með "heimsku" sinni, þ.e. að hafa látið upplýsingar bruggaðar af bönkunum sjálfum duga til "eftirlits" með þeim hinum sömu í stað þess að gera eigin "ad hoc" athuganir, t.d. á lausafjárstöðu bankanna og horfum á þeim vettvangi sem er grundvallaratriði fyrir rekstur banka frá degi til dags! (Sbr. pistil minn um það atriði hjá FME)
Löggiltir endurskoðendur bankanna (a.m.k. Glitnis og Landsbankans) skreyttir alþjóðlegu fyrirtækislógói í þokkabót virðast einnig ætla að afsaka sig með sams konar "faglegri heimsku" eða upplýsingaleysi, enda hefur það dugað íslenskum embættismönnum alla leið upp í ráðherrastóla vel fram að þessu, þ.e. þeirra sem fóru með þessi mál.
Það ætti að vera augljóst mál að hafi löggiltir endurskoðendur bankanna ekki fengið mikilvægar upplýsingar frá fyrirtækjunum þá hefðu þeir aðeins af þeirri ástæðu ekki átt að skrifa upp á ársreikninga! Það hefði væntanlega stöðvað bankana í meintum blekkingaleik þeirra.
Þó tekur steininn úr þegar forsvarsmaður umrædds endurskoðunarfyrirtækis gagnrýnir hina erlendu sérfræðinga sem hafa verið að skoða reikningsskil bankanna árin fyrir hrun á vegum embættis sérstaks saksóknara.
Reynist grunur og rök sérfræðinganna um stórkostlega "vangá" á rökum reist er viðkomandi endurskoðunarfyrirtæki síst í stakk búið til að hafa skoðun á gæðum þess mats.
Vilja að ríkið höfði mál | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:14 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.