Tölulegar staðreyndir á hreint - Hvílum tilfinningaþrungna sleggjudóma

Hver svo sem afstaða okkar hvers um sig er til aðildar Íslands að Evrópusambandinu þá þurfum við fyrst og fremst að fá tölulegar staðreyndir á hreint til að geta metið með sem hlutlægustum hætti ávinning og kostnað af aðildinni fyrir þjóðarbúið hagrænt séð.
Við megum ekki láta tilfinningarnar einar hlaupa með okkur í gönur né leyfa áróðursöflunum einum á báða bóga móta afstöðu okkar eða afstöðuleysi án þess að kynna okkur málin sjálf á eigin forsendum.
Við sem almenningur brenndum okkur illilega á því að treysta aðeins á "vit", "réttsýni" og "heiðarleika" "kerfisins" á efnahags- og stjórnmálasviði á Íslandi undanfarin ár.
Nú er ekki seinna vænna en að við verðum virkir þátttakendur í lýðveldinu Íslandi og skoðum málin sjálf og myndum okkur vitræna skoðun og veitum fulltrúum okkar bæði á Alþingi og í stjórnsýslukerfi landsins öflugt og virkt aðhald - með viti.

Vonandi fer nú eitthvað að gerast í upplýsingamálum um væntar afleiðingar aðildar Íslands að ESB svo að umræðan um þessi mál verði framvegis ekki ofurseld einstrenginslegu karpi og heitingum á tilfinningalegum nótum þar sem rakalegan grundvöll hefur skort um þau atriði málsins sem varða hagrænar stærðir; bæði hjá fylgjendum og andstæðingum aðildar.
Í versta falli hafa óprúttin sérhagsmunaöfl leitast við að lita umræðuna á sínum forsendum en ekki með almannahag fyrir augum, eða þá af þröngsýni eða heimsku. Endanleg ákvörðun um aðild má ekki stjórnast af heilaþvotti slíkra afla á almenningi.

Annar handleggur er að gera upp við sig hvaða þýðingu regluverk ESB og agi þess hefur gagnvart embættismannakerfi og stjórnvöldum hérlendis til að tryggja að aðilar og stofnanir á viðskiptasviði fari að lögum svo að líklegt sé að gripið sé inn í áður en eitthvað fer alvarlega úrskeiðis eins og gerðist í íslensku efnahagslífi í aðdraganda hrunsins 2008.

Loks kemur svo væntanlega fram fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um málið hvaða málaflokkar og mál yrðu áfram í óskoraðri umsjá og forsjá Íslands, og hver ekki, eftir hugsanlega inngöngu í ESB

Að öllum þessum og þvílíkum atriðum komnum á hreint getum við síðan tekið afstöðu hver fyrir sig að teknu tilliti til allra veigamikilla þátta, þar á meðal hinna tilfinningalegu.

Það varðar almannahag á Íslandi að um aðild að ESB verði tekin upplýst en ekki óupplýst og fávísleg ákvörðun.


mbl.is Ísland á nú rétt á ESB-styrk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: kallpungur

Ég get ekki stillt mig um að minnast á eitt atriði, eða tvö, um ESB.  Eða þrjú þessvegna.

Í þónokkurn tíma fengust lögiltir endurskoðendur ekki til að samþykkja reikninga evrópusambandsins.
Hinsvegar fengu bankaþrjótarnir hér á landi reikninga
sína endurskoðaða. að því er virðist  án teljandi vandræða fram að hruni.
Spilling einhver? Kanski eru endurskoðendur hér spilltari hér en annarstaðar, hver veit.

Lýðræði.Mönnum er tíðrætt um lýðræði nú en nokkrusinni fyrr.
Stjórn evrópusambansins, Frakvæmdastjórnin svokallaða, er skipuð ekki kosin.
Hún hefur ekki Eitt atkvæði eins evrópubúa á bakvið sig eftir því sem ég best veit.
Jafnframt hefur hún og stofnanir hennar ( Uppblásið skriffinskubákn sem kostar milljarða á milljarða ofan.)
einkarétt á löggjöf innan sambandsins.
Evrópuþingið hefur eingan löggjafarrétt og virkar oftast eins og stimpilmaskína fyrir
reglugerðaflóðið sem gubbast upp úr framkvæmdastjórninni.
Það lítur ekki út fyrir að vera neitt sérlega lýðræðislegt fyrirkomulag, svona í fljótu bragði.

Lissabon Sáttmálinn Sem kom í stað Stjórnarskrárinnar margfrægu hefur nú öðlast gildi.
Sáttmáli þessi er víst næstum því hrein kópía af Stjórnarskránni sem Þrjú lönd í Sambandinu  höfnuðu í
þjóðaratkvæðagreiðslu.
Aðeins eitt ríki fékk að kjósa, hin ríkin skutluðu honum í gegn um þjóðþingin án þess að hafa fyrir
því að spyrja skrílinn.
Samningurinn felur í sér staðfestingu á yfirþjóðlegu valdi ESB se de facto sambandsríki af því er virðist.
Ekki lýðræðislegt að mínu mati. Ég læt ykkur um að meta þetta sjálf.
Þeir slepptu kaflanum um fána og þjósöng reyndar,
en þar er jú í lagi vegna þess að framkvæmdastjórnin hefur víst rétt til að bæta við og breyta samningnum
að eigin geðþótta. Það getur verið að skilningur minn á þessu sé rangur, hver veit.

Ég er yfirleitt mjög andvígur öllum smasæriskenningum og tel þær yfirleitt einungis hugðarefni fólks sem hefur
lítið eitt sprungið á limminu andlega. En einvernvegin get ég alveg fengist til að trúa því að eitthvað sé gruggugt í Brusselpottinum.
Ég get ekki lengur fengið mig til að trúa á heilindi stjórnmálastéttarinnar, hér sem annarstaðar í heiminum,
eftir atburði síðastliðina ára. Call me paranoid? Allavegana ætla ég ekki að láta draga mig á asnaeyrunum inn í
Brusselsborg án þess að kynna mér málstað andvígismanna og fylgismanna vandlega. Annað væri fásinna.
Og Aðildarsinnar jafnt sem Andstæðingar AÐ KYNNA SÉR EKKI MÁLSTAÐ HINS AÐILANS BLEYTIR PÚÐRIÐ Í EIGIN VOPNABÚRI.
Það er einginn jafn heimskur og sá sem neitar að hlusta, vega og meta áður en hann myndar sér skoðun.

Að lokum nokkur myndskeið af vefnum sem fylgja efninu amk. sum. 

http://www.youtube.com/watch?v=ihjg8OCjpZk
http://www.youtube.com/watch?v=994ygMZ6SlA
http://www.youtube.com/watch?v=uqJEWaGFk9Q&feature=related
http://www.youtube.com/watch?v=WyBuiyN_KHQ
Oslo Freedom Forum - Vladimir Bukovsky
http://www.youtube.com/watch?v=0wWit0uaoss&feature=channel
http://www.youtube.com/watch?v=OQ4MMU0li_I&feature=channel
http://www.youtube.com/watch?v=rB3e6r1hOYQ&feature=channel
The EU Superstate - The European Flag and Anthem
http://www.youtube.com/watch?v=-mrocY7YIfw

Ég á eftir að safna myndskeiðum sem eru hliðholl aðild.

kallpungur, 14.7.2010 kl. 16:58

2 Smámynd: Benedikta E

Kristinn - Tölulegar og sannar upplýsingar - talar þú um.

Hvar ættu slíkar upplýsingar að fást - frá Össuri - líklega ?- sem öllu lýgur.

Benedikta E, 14.7.2010 kl. 17:33

3 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Gott hjá ykkur að doka við og pæla í hlutunum. Orð eru til alls fyrst. 

"kall......":
Einmitt. Við verðum að fá spil beggja sjónarmiða á borðið og skoða þau.

Benedikta:
Það er lóðið! Slíkar gersemar sem réttar og viðeigandi upplýsingar eru ekki á hverju strái í íslenskri pólitík.
Við getum engum treyst í þessum efnum. Við getum ekki og megum ekki láta aðra segja okkur hvað hið rétta er í þessum efnum fremur en öðru.
Við verðum að athuga málið sjálf. Finna sannleikann sjálf, hvert fyrir sig.
Vandinn er sá að almenningur hefur ekki forsendur til að leita og afla slíkra gagna á eigin spýtur. Við verðum yfirleitt að fá þær hjá embættismannakerfinu og hagsmunaaðilum og virðulegum "hlutlausum" mennta- og rannsóknarstofnunum eins og háskólum og atvinnuvegastofnunum.

Hvaða gögn erum við að tala um?
Meðal annars:

Hagræn gögn:
Upptalning á atriðum til ávinnings og tekjuauka fyrir þjóðina og hins vegar til kostnaðarauka. Einnig atriðum sem fórnað er eða útilokuð eru við inngöngu í ESB.
Útreikning á hverju slíku atriði, á ársgrundvelli og alls t.d. fyrstu 10 árin.
ÁSAMT: Sundurliðun á öllum forsendum sem liggja til grundvallar útreikningunum, svo sem magneiningum og einingaverðum.

Einnig þarf nauðsynlega að koma fram hvernig ávinningur og tilkostnaður fellur með mismunandi hætti á hópa þegna og lögaðila landsins, svo sem atvinnurekendur/ launþega, fyrirtæki/heimili, mismunandi atvinnuvegi, stærð eða tegundir fyrirtækja, íbúa á mismunandi  landssvæði, aldurshópa, fagstéttir o.s.frv.

Einungis með því að allar forsendur séu lagðar fram sem útreikningarnir byggja á er hægt að taka afstöðu til trúverðugleika þeirra.
Á þeim grundvelli er hægt að rökræða um málið og hvort tiltekið atriði sé líklega rétt eða ekki.

Andstæðar fylkingar eru líklegar til að benda á flest þau atriði sem máli skipta að öllu samantöldu. VAndinn er að verðleggja og kostnaðarmeta hvert atriði.

Aðrar upplýsingar varða t.d.:
Reynslu landanna sem eru þegar í sambandinu. Fjölþjóðlegar samanburðartölur t.d. síðustu 10 árin, fyrir lönd bæði innan og utan ESB.
Helstu hagstærðir í meðlimalöndunum fyrir og eftir inngöngu þeirra hvers um sig í ESB.

Greining til samanburðar við inngöngu í ESB, þ.e. ef ekki yrði gengið í ESB:

Þróun utanríkisviðskipta Íslands ef það yrði áfram utan ESB, t.d. miðað við nokkrar mismunandi grundvallarstefnur um aukin viðskipti og samstarf við aðrar viðskiptablokkir í heiminum.

Þessa hliðargreiningu er bráðnauðsynlegt að gera auk greiningarinnar á afleiðingum inngöngu í ESB til að hafa eitthvað raunhæft að bera þá útkomu saman við.
Á þessum grunni hefðum við fyrirliggjandi tvo eða fleiri stefnumarkandi langtímakosti um efnahagslega framtíð Íslands og Íslendinga að velja, sem við verðum að vega og meta í fullri alvöru.
Það er alls ekki nóg að tala bara um ESB-valkostinn.

Það sem meira er: Það verður að hefja þessa greiningarvinnu strax.
Það er þessari og fyrrverandi ríkisstjórnum til háborinnar skammar og íslensku efnahagslífi og almenningi til stórskaða að vitræn greining í þessum dúr skuli ekki hafa farið fram af alvöru nú þegar og að þessi mál skuli ekki vera lengra á veg komin.

Það er samt glæta: Össur virðist hafa verið að átta sig á því í dag í heimsókn sinni til Kína að til eru önnur viðskiptaveldi í heiminum en ESB.

PS. Ég bendi svo ennfremur á "jómfrúrbloggpistil" minn, en þar fjalla ég um nokkur grundvallaratriði sem við sem íslensk þjóð skulum ekki gleyma í væntanlegum umræðum okkar við umheiminn um gagnkvæm viðskipti.

Kristinn Snævar Jónsson, 14.7.2010 kl. 23:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband