Kæruleysi íslensku ríkisstjórnarinnar - lýsandi dæmi

Þessi niðurstaða sýnir augljóslega enn og aftur hversu illa ríkisstjórnin heldur á málum og málstað Íslendinga um Icesave-málið á erlendum vettvangi. Það er til hróplegrar skammar. Íslenskur almenningur á það ekki skilið að landstjórnin klúðri þessu máli svona ítrekað. Það er auk þess of dýrkeypt fyrir þjóðina.

það er margbúið að benda ráðalausum ráðamönnum á hvað beri að gera, bæði af vandvirkum og hugsandi bloggurum hér og greinarhöfundum í landsblöðunum, bæði íslenskum og erlendum. Allt kemur fyrir ekki. Maður spyr sig: Kynna ráðherrar ríkisstjórnarinnar sér ekki það sem fram kemur í umræðunni, né heldur ráðgjafar þeirra, eða skilja þau ekki hvað er um að ræða og hvað er mikilvægt? Eða, það sem ekki er betra, vilja þau ekki hlusta og skilja? Eftir hvaða viti og kompás er þá farið?

Hér hefur margoft verið bent á að koma þurfi umfjölluninni um Icesave-málið upp úr því snarvitlausa hjólfari sem það hefur verið í þar sem ríkisstjórnin hefur fjallað um málið á forsendum Breta og Hollendinga; það er kolröng stefna sem felst í skilningsleysi íslensku ríkisstjórnarinnar eða undirlægjuhætti, þrælsótta og þjónkun við stórveldi, eða einhverjum annarlegum sjónarmiðum sem ekki eru íslenskum almenningi í hag. Þarna hefur ríkisstjórnin spólað endalaust og árangurslaust frá upphafi valdatíma síns. Það sem verra er, hún virðist halda því áfram, ef marka má viðræður hennar við Breta og Hollendinga undanfarna daga og að því er virðist einleik hennar á svig við stjórnarandstöðuna sem hún þó þykist hafa með í ráðum.

Enn ein ábendingin um að ríkisstjórnin er að vinna á vitlausum forsendum er grein í Morgunblaðinu í dag eftir þau Ann Pettifor og Jeremy Smith hjá Advocacy International, "Hvað gerist eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna?", Mbl. 4.3.2010, s. 17.

Þar er um að ræða trúverðuga grein með innlegg í þetta mál sem er málstað Íslands til framdráttar, gagnstætt stefnu ríkisstjórnar Íslands.
Í samræmi við þær skoðanir sem margoft hafa verið viðraðar á þessu bloggi benda þau á að gagnvart Icesave-málinu er um sameiginlega ábyrgð ríkjanna þriggja að ræða, en ekki Íslands eins. Ennfremur ber ekki að samþykkja ríkisábyrgð á upphæðinni, sem er uppátekt Breta og Hollendinga að kalla "lán" sem Ísland "skuldi". Þeir leystu málið þannig upp á sitt einsdæmi í upphafi hrunsins án samráðs og undirskriftar Íslendinga. Síðan hafa þeir hamast við að klína "skuldinni" upp á Íslendinga með því að beita styrk stærðar sinnar gagnvart smáþjóð. Þetta kalla greinarhöfundar "afturvirkt ofbeldi" af hendi Breta og Hollendinga, og er það réttnefni.
Þetta sé ennfremur mál ESB og reyndar fjármálaheimsins alls, sem að öllu samantöldu er ósanngjarnt að Ísland verði látið bera eitt landa. Greinarhöfundar benda ennfremur á að gott dæmi um svívirðilegt framferði Breta og Hollendinga í þessu máli séu kröfur þeirra um vexti á "skuldinni", sem eru margfalt hærri (5,55%) en grunnvextir Englandsbanka (0,5%-1%).

Loks benda greinarhöfundar á þá augljósu staðreynd að íslenska ríkisstjórnin hefur síður en svo sinnt nægilega vel því hlutverki sínu að kynna málstað Íslendinga á erlendum vettvangi, sérstaklega í Bretlandi og Hollandi fyrir almenningi þar. Þar í felist þó hluti lykilsins að farsælari lausn málsins fyrir Íslendinga. Einnig benda þau á að íslenskur almenningur mætti láta meira í sér heyra á þessum vettvangi.

Í ljósi þess að Bretum og Hollendingum hefur tekist að hræða allt samningsvit úr íslensku ríkisstjórninni, strax í upphafi valdatíma hennar þar sem hún fór umsvifalaust á taugum í málinu, og borin von virðist að hún muni halda réttum málstað Íslands á lofti, þá stefnir í það að við íslenskur almenningur verðum að taka til okkar ráða og vinna sjálf þá vinnu sem við í góðri trú fólum ríkisstjórn og opinberum embættismönnum fyrir okkar hönd að vinna en sem hópurinn hefur ekki sinnt með jákvæðum árangri; reyndar engum árangri vegna þess að við stöndum nánast í sömu sporum enn í málinu. Ríkisstjórninni og hennar liði tókst meira að segja næstum því að koma klafanum að ósekju á Íslendinga með því að samþykkja lög um ríkisábyrgð á Icesave-upphæðinni, þetta sem þjóðin á nú að segja álit sitt á í þjóðaratkvæðagreiðslu 6. mars 2010! Hvílíkur árangur fyrir hagsmuni Íslands, eða hitt þó heldur!
Við þurfum sem sé sjálf að fara í víking erlendis með kynningarstarf á málstað Íslendinga og reyna sjálf að leiða almenningi þar sannleikann fyrir sjónir um málið. Ríkisstjórnin og hennar lið eru greinilega algjörlega blind í þessu máli og aðhafast ekki með réttu ráði né réttum hætti fyrir Íslands hönd. Eða er einhver von til þess að ríkisstjórnin sjái að sér og vakni af dáleiðslu Breta, Hollendinga og "alþjóðasamfélagsins" og segi NEI! við kúguninni?
Maður spyr sig hvaða réttlæti það er að greiða þessu liði laun fyrir að sinna ekki málinu af viti. Það sem þó er gert sem virðist því miður vera þvert á hagsmuni Íslands, sem er þetta: 
Ríkisstjórnin vill semja við Breta og Hollendinga um "skuld" sem þeir sjálfir bjuggu til og rukka Íslendinga um að ósekju, í stað þess að fá fyrst úr því skorið hver "sekt" Íslands er í málinu. Hvaða vit er í þessum málarekstri ríkisstjórnarinnar fyrir hagsmuni Íslands?


mbl.is Telja Íslendinga eiga að borga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband