Bankar eru yfirleitt viðkvæmir

Flestir bankar eru eins og glerhús á ósýnilegum fótum. Þeir eru afar háðir væntingum lánardrottna sinna til greiðslugetu þeirra hverju sinni.
Bresti tiltrú lánardrottnanna loka þeir "á einu augabragði" fyrir lánalínur sínar til viðkomandi banka sem veldur keðjuverkun og bankinn fer í þrot ef Seðlabanki landsins eða ríkið vill ekki eða getur ekki hlaupið undir bagga. Þetta kannast almenningur á Íslandi við eftir bankahrunið í október 2008.

Flestir bankar eru alveg háðir væntingum og tiltrú lánardrottna sinna, þ.e. annarra banka og fjármálastofnana, vegna þess að innlán frá viðskiptavinum þeirra (almenningi og fyrirtækjum) eru að mestu leyti bundin í útlánum til annarra aðila. Ekki er nægilega stór varasjóður fyrirliggjandi af handbæru fé og ekki hagar þannig til að Seðlabanki viðkomandi lands geti í tæka tíð lánað fé í innlendri mynt og enn síður í gjaldeyri t.d. ef upp kemur glundroði í fjármálalífi landsins og almenningur missir trú á bönkunum almennt og gerir áhlaup á bankana til að taka út innistæður sínar þar samtímis, eða ef bankar fá ekki áframhaldandi lánafyrirgreiðslu hjá sínum lánardrottnum af einhverjum ástæðum þegar standa þarf skil á háum afborgunum sem þeir eiga ekki peninga og gjaldeyri fyrir; sbr. staða íslensku einkabankanna haustið 2008 sem leiddi til "skyndilegs" gjaldþrots þeirra almenningi að óvörum.

Tiltrú á tiltekinn banka til lengri tíma litið fer eftir því hversu heilbrigða útlánastefnu hann stundar og hefur stundað hverju sinni. Ef hann heldur sig við varkára stefnu og lánar til traustra fyrirtækja til raunverulegra og arðsamra fjárfestinga og framkvæmda er hann að öðru jöfnu í góðum málum, sbr. ónefndur sparisjóður á Norð-Austurlandi hérlendis sem stóð keikur þegar óvarkárir bankar hrundu hver á fætur öðrum vegna brostinnar lánafyrirgreiðslu. Ef banki ástundar ekki heilbrigða útlánastefnu til lengri tíma litið er hann feigur. Fjármálaeftirlit landsins á að fylgjast með að stefna bankanna sé heilbrigð og a.m.k. gera viðvart ef stefnir í óefni. Að öðrum kosti er verið að blekkja almenning og stjórnvöld.

Ef í ljós koma upplýsingar um að banki eða bankar almennt í tilteknu landi hafa ekki stundað heilbrigða útlána- og fjárfestingastefnu er ekki von á góðu. S&P virðist hafa fengið slæmar fréttir um stöðu mála í Bretlandi eða getur ekki lengur látið hjá líða að bregðast við vitneskju um hana sem þeir hafa væntanlega gert sér grein fyrir um skeið.

Hitt er annað, að matsfyrirtæki eins og S&P, sem mark er tekið á, geta í sjálfu sér verið mótandi fyrir væntingar til fjármálakerfis lands. Það er e.t.v. í lagi ef þau byggja á réttum upplýsingum og spá eða meta rétt stöðu mála. Það er hins vegar hrikalegt ef þau setja fram rangar eða óraunhæfar matsgerðir.
Það er til dæmis opin spurning að hve miklu leyti matsfyrirtækin mögnuðu upp bjartsýnar væntingar til íslensku einkabankanna í uppsveiflu þeirra sem gerðu skellinn þeim mun afdrifaríkari til hins verra þá loks að hann kom í bláköldum raunveruleikanum og almenningi í góðri trú í opna skjöldu.


mbl.is Breska bankakerfið ekki lengur það stöðugasta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Smá upprifjun á afrekaskrá þessara margumræddu "matsfyrirtækja":
    * Nokkrum dögum áður en Enron spilaborgin hrundi gáfu öll "virtustu" matsfyrirtækin Enron hæstu lánshæfiseinkunn.
    * Rétt áður en íslenska "fjármálaundrið" sprakk með háum hvelli gáfu þessi matsfyrirtæki íslensku bönkunum og ríkissjóði hæstu mögulega einkunn.
    * Upphaf fjármálakreppunnar má rekja til þess að sömu matsfyrirtæki gáfu hæstu einkunn á svokölluð undirmálslánasöfn sem reyndust "eitruð" þegar upp var staðið.

En í þessu tilviki held ég að þeir kunni að hafa rétt fyrir sér, Bretland er á hálum ís...

Guðmundur Ásgeirsson, 29.1.2010 kl. 04:20

2 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Það er lóðið!

Enn önnur spurning varðandi matsfyrirtækin er síðan sú hvort þau eigi einhverra fjárhagslegra hagsmuna að gæta, í tengslum við spákaupmennsku, með einkunnagjöf sinni.
Í veðmálum er mjög hentugt að vita fyrirfram hver úrstlitin verða. Flestir verða bara að giska á þau út frá almennum fyrirliggjandi upplýsingum, en sumir reyna að hafa áhrif á þau fyrirfram í samræmi við eigin ráðstafanir.

Þetta er verðugt rannsóknarefni.

Kristinn Snævar Jónsson, 29.1.2010 kl. 13:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband