24.1.2010 | 15:36
SamkeppnisÓhæfni falin með sameiginlegri mynt
Þeir sem mælt hafa með Evrunni hér og nú hafa yfirleitt, margir hverjir, aðeins litið á aðra hliðina á málinu, þ.e. kostina. Einnig hverjir kostirnir HEFÐU verið fyrir Ísland EF það hefði þegar verið komið með hana fyrir hrun.
Þegar lönd taka upp sameiginlega mynt eru þau öðrum þræði að viðurkenna leti sína og hræðslu við að standa sig ekki í samkeppninni við nágrannaþjóðir sínar í alþjóðaviðskiptum.
Ástæðan er sú að eitt fljótvirkasta tækið til að hafa áhrif á samkeppni lands er að breyta genginu á einkamynt landsins í samræmi við stöðu efnahagsmála í landinu og samkeppnisstöðu á erlendum mörkuðum.
Það er t.d. hægt að fella gengið fyrirvaralaust, en um leið eru vörur og þjónusta landsins orðin þeim mun ódýrari samanborið við vörur annarra landa sem keppa á sömu mörkuðum.
Ein forsendan fyrir því að slík aðgerð gagnist landinu þjóðhagslega séð er að framleiðslukerfi landsins geti afkastað meiru og afgreitt meira magn af vörum en fyrir gengisfellingu.
Önnur forsenda er sú að útflytjendur hækki ekki vörur sínar samsvarandi í innlendri mynt og haldi verðinu á erlendu mörkuðunum óbreyttu og hirði þannig ágóðann af gengisfellingunni sjálfir í innlendri mynt í stað þess að lækka erlenda verðið eitthvað í reynd vegna svigrúmsins sem skapast eins og til er ætlast af stjórnvöldum.
Lönd sem taka upp sameiginlega mynt, eins og evru-löndin, eru þar með að komast hjá því að löndin í hópnum geti beitt þessu tæki innbyrðis. Þetta er því samkeppnishamlandi og jafnframt gert til að halda hærra verði á afurðum landsins bæði á heimamörkuðum og viðkomandi erlendu mörkuðum. Þeir sem borga eru neytendur. Þeir sem taka við þeirri borgun eru framleiðendur og atvinnurekendur í landinu og svæðinu öllu, en reyndar launafólk og skattayfirvöld að einhverju (en yfirleitt minna) leyti.
Löndin sem taka þátt í mynthópnum gera það ekki síst vegna þess að þau telja sig myndu fara halloka í samkeppninni ef hvert land væri með sína (gömlu) mynt; Að minnsta kosti bera þá rýrari hlut úr býtum,
Jafnframt taka aðgerðir sem lúta að stjórnun á hinni sameiginlegu mynt eðli málsins samkvæmt fyrst og fremst mið af hagsmunum stærstu eða efnahagslega sterkustu landanna í hópnum hverju sinni þannig að þau lönd sem minni eru og veikari borga fyrir þann hag þeirra.
Þær þjóðir sem sækjast eftir aðild að hópi landa með sameiginlega mynt halda að þær geti þar með tryggt sér skemmri leið að velsæld en ella. Þær fá hins vegar ekki aðgang að hópnum nema það sé þeim löndum í hag sem fyrir eru. Það er engin góðgerðarstarfsemi sem ræður þar að baki.
Einn stærsti ókosturinn fyrir fámennar þjóðir í evru-hópnum (eða þeirra sem sækja um inngöngu) í samanburði við stærstu þjóðirnar er að þá missa þær þann sveigjanleika til viðbragða sem eigin mynt býr yfir þegar þörf er á t.d. hraðri aðlögun að ríkjandi efnahagslegum aðstæðum og alþjóðlegri samkeppnisstöðu.
Þessu atriði hafa Írar, Spánverjar og fleiri þjóðir kvartað sárlega undan eins og sést hefur í fréttum undanfarin misseri eftir að fjármagnskreppan gerði vart við sig. Helsta ráðið sem þær geta þá gripið til er að lækka laun landsmanna og skera niður m.a. í opinberum kostnaði eins og heilbrigðiskerfinu til að lækka tilkostnað og þar með verðið á framleiðsluvöru sinni á erlendum mörkuðum til að bæta samkeppnisstöðu sína. Slíkar aðgerðir eru lítt fallnar til vinsælda meðal almennings í þeim löndum.
Það er þetta atriði sem veldur ótta framkvæmdastjórn ESB, sem rætt er um í viðhengdri frétt. Myntsambandið rofnar af sjálfu sér þegar ástandið er orðið nógu alvarlegt í löndunum sem farið hafa halloka í mynthópnum og sem eru ekki nógu efnahagslega sterk til að standa af sér þá kreppu sem hefur verið að gera sérstaklega þeim lífið leitt undanfarið vegna ósveigjanlegrar sameiginlegrar myntar, evrunnar. Þær munu eins fljótt og þær megna tæknilega séð draga sig úr hópnum og taka upp eigin mynt á nýjum grunni. Það mun verða gert á grundvelli þjóðarsáttar í viðkomandi landi um gengi á hinni nýju mynt gagnvart evrunni.
Rauði þráðurinn í dæminu öllu og lykillinn að velfarnaði undir öllum kringumstæðum í hverju landi fyrir sig er að nauðsynlegt er að efla framleiðslukerfi landsins og leitast við að gera framleiðsluna ódýrari á erlendum mörkuðum en vörur samkeppnislandanna. Þeim löndum sem tekst það þurfa ekki að fela neina leti né ótta við að fara halloka í samkeppninni með því að hugsa um að taka upp erlenda mynt í samkeppnishamlandi tilgangi.
Sterkur efnahagur sem er í jafnvægi og haldið er í jafnvægi af stjórnvöldum og eftirlitsstofnunum landsins, en ekki leyft að splundrast eins og gerðist með árás einkabankanna hérlendis á efnahag Íslands fram að bankahruninu hér, hann er grundvöllur að heilbrigðri samkeppnisstöðu og samkeppnishæfni landsins gagnvart erlendum mörkuðum. Það er grunnurinn að sterkri eigin mynt landsins. Þar sem þrýstingur til útflutnings er meiri en til innflutnings er gjaldmiðillinn sterkur.
Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott! Eftir efnahagshrunið hérlendis hafa augu landsmanna opnast umtalsvert fyrir nauðsyn þess að efla innlenda framleiðslu til að keppa við innfluttar vörur og til að selja vörur og þjónustu erlendis eða til útlendinga til að skapa gjaldeyri fyrir þjóðarbúið. Það er algjör umsnúningur í viðhorfum fólks og er það vel.
Þar erum við að taka t.d. frændur okkar og vini Dani til fyrirmyndar. Þetta hafa þeir lagt ofuráherslu á í sínu efnahagslífi. Þeir hafa neyðst til þess ekki síst vegna þess að þeir eiga nánast engar náttúruauðlindir heima fyrir, varla möl í steypu! Þeir hafa gert sér mat úr aðföngum erlendis frá og selt það til baka aftur með góðum virðisauka í álag.
Við erum margfalt betur sett en Danir að því leyti að við eigum óhemjumiklar náttúruauðlindir - enn! Við höfum bara ekki nýtt þær sem skyldi. Við höfum látið orku frá okkur á undirverði í stað þess að gera okkur meiri mat úr henni sem grunn innlendrar framleiðslu hér heima fyrir og á vistvænan hátt.
Þennan styrk megum við ekki drepa í dróma fyrir erlend arðránsríki sem reyna leynt og ljóst að gera okkur að öðru Haíti í efnahagslegri vesæld, sbr. umfjöllun um þau mál í Morgunblaðinu í dag og undanfarna daga. Þarf frekari vitna við um það auk þess sem réttsýnir og sannleikselskandi menn og konur hafa tjáð sig um þann samanburð í fjölmiðlum og bloggi?
Óttast að evran hrynji | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:14 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.