31.7.2024 | 11:36
Helgi tjáningarfrelsis og lýðræðis upp á Kant
Helgi tjáningarfrelsis og lýðræðis upp á Kant
Ríkissaksóknari, Sigríður Friðjónsdóttir, hefur farið fram á það við dómsmálaráðherra að vararíkissaksóknarinn, Helgi Magnús Gunnarsson, verði leystur frá störfum. Sakarefnið sé að hann hafi farið niðrandi orðum um dæmdan hælisleitanda sem hér fékk alþjóðlega vernd þrátt fyrir að hafa verið áður dæmdur hérlendis fyrir alvarlega glæpi.
Helgi bendir hins vegar á að hann hafi einungis verið að benda á sannleikann tengt persónulegum hatursárásum, hótunum og líflátshótunum af hendi hins dæmda manns gegn sér og fjölskyldu sinni undanfarin ár. Ástæða þeirra væri þáttur Helga sem saksóknara í því að koma íslenskum lögum yfir manninn og í fangelsi. Enga vörn né vernd hafi Helgi og fjölskylda hans fengið af hálfu réttarríkisins íslenska meðan á því stóð. Hans tilfelli sé þó ekki hið eina í samfélagi okkar þar sem hælisleitendur hafi veri upp á kant við íbúana.
Helgi bendir þarna réttilega á atriði sem blasa við öllum sem sjá, heyra og skilja það sem hefur verið að gerast í samfélagi okkar tengt ýmsum hælisleitendum sem hér hafa fengið alþjóðlega vernd og dvalarleyfi hérlendis en aðlagast ekki íslenskum lögum eða gildum né samfélagi og hafa átt í útistöðum við íbúana og stundum komist upp með það.
Flestir embættimenn hér hafa þó þagað þunnu hljóði um þróunina, enda flestir stjórnmálamenn, stjórmálaflokkar og ríkisstjórnin þögul um þessi efni á opinberum vettvangi en klifa þess í stað á þörf fyrir inngildingu hælisleitenda sem annarra innflytjenda í samfélag okkar. Hafa þá gjarnan sett hælisleitendur að jöfnu við innflytjendur sem koma hingað gagngert til vinnu á vegum fyritækja. Fjölmiðlarnir, ekki síst sá ríkisrekni, hafa flestir verið meðvirkir í slíkri orðræðu. Ráðherrar og fleiri innan ríkisstjórnarflokkanna tala sem sé ekki lengur um aðlögun að íslensku samfélagi, enda hefur hún ekki gengið upp í mjög mörgum tilvikum og sérstaklega ekki hvað hælisleitendur varðar sem koma frá löndum þar sem allt önnur trúarbrögð, forneskjulegir siðir og venjur og gildi er ríkjandi. Enda eru gömlu trúarkreddurnar þar innrættar og inngrónar frá blautu barnsbeini.
Áður en dómsmálaráðherra tæki upp á því að reka Helga fyrir þessar sakir, vegna þess að hann hafi ekki bætt ráð sitt eins og ríkissaksóknarinn orðaði það, þ.e. að benda á sannleikann í þessum efnum, þá væri gagnlegt að rifja upp hvað siðfræðingurinn Kant ritaði á sínum tíma, Upplýsingaöldinni á 18. öld, í frægri og viðurkenndri grein sinni um rétt embættismanna til að tjá sig opinberlega, ekki síst þar sem tjáningarfrelsið á undir högg að sækja sökum ríkjandi stjórnarfars.
Þar er um að ræða grundvallarrit um rétt opinberra starfsmanna til að tjá sig sem sérfræðingar utan starfs síns, þ.e. ekki sem embættismenn, heldur sem einstaklingar; Það er ritið "Svar við spurningunni: Hvað er upplýsing?" eftir Immanuel Kant (1724-1804), samið í einveldisríkinu Prússlandi 1784. Ritið er til á íslensku og var birt í Skírni nr. 167, 1993, s. 379-386. Kant segir þar í upphafi greinarinnar:
"Upplýsing er lausn mannsins úr viðjum þess ósjálfræðis sem hann á sjálfur sök á. Ósjálfræði er vanhæfni mannsins til að nota eigið rökvit án handleiðslu annarra. Maðurinn á sjálfur sök á þessu ósjálfræði þegar orsökin er ekki skortur á hyggjuviti heldur vöntun á einurð og hugrekki til að nota hyggjuvit sitt án handleiðslu annarra. Einkunnarorð upplýsingarinnar eru því "Sapere aude!", hafðu hugrekki til að nota þitt eigið hyggjuvit!".
Í okkar tilfelli sem hér um ræðir er maðurinn almenningur allur, þegnarnir og kjósendurnir. Að þeim er þjarmað hvað tjáningu snertir af stjórnvöldum og fjölmiðlum og nú er jafnframt spurning hvað dómsvaldið gerir hvað það varðar.
Það heitir svo að við búum í lýðveldi með öllu því frelsi sem þar er sagt fylgja, en ef opinber embættismaður yrði dæmdur frá starfi sínu fyrir að tjá sig opinberlega sem einstaklingur, sem einstaklingur, um sannleikann varðandi m.a. áralangar líflátshótanir gagnvart sér og fleira gagnvart fjölskyldu hans af hendi dæmds hælisleitanda frá framandi menningarheimi þá má spyrja hvernig er komið lýðræði okkar og tjáningarfrelsi á Íslandi. Værum við þá komin aftur fyrir Upplýsingaröldina þar sem einveldi og trúarveldi ríktu í Evrópu og þegnarnir gátu ekki um frjálst höfu strokið?
Fleiri opinberir starfsmenn en Helgi mættu hafa hugrekki og þor til að nota hyggjuvit sitt og sérþekkingu á hinum ýmsu sviðum almenningi til hagsbóta og varnar. Oft var þörf en nú er nauðsyn sem aldrei fyrr.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)